Fjáraukalög
Föstudaginn 15. mars 1991


     Kristinn Pétursson :
    Hæstv. forseti. Mér þótti miður að heyra það hér hjá hæstv. fjmrh. áðan að honum fannst einhvern veginn að menn ættu ekkert að vera að gagnrýna sig. En það er nú einu sinni skylda alþingismanna að halda uppi aga gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég er alveg til í það að reyna að takmarka mál mitt hér eins og ósk kom fram um frá hæstv. forseta, en það er óhjákvæmilegt annað en minnast á það að fjáraukalögin vantar fyrir árið 1990. Það er enginn pólitískur áróður. Það eru ósannindi hjá hæstv. ráðherra.
    Hæstv. ráðherra er alltaf að kenna hér um einhverri tæknilegri vinnu. Hvaða tæknilegu vandamál eru það? Er tölvuvírus í ráðuneytinu? Eða hvaða tæknilegu vandamál eru það sem hæstv. fjmrh. á við? Hann er að tala um tæknileg bókhaldsatriði og tæknilega vinnu. Hvaða tækni er það? Er það rafmagnseðlis eða örtölvutækni? Eða hvaða tæknilegu vandamál eru það sem ráðuneytið á við að glíma? Það væri fróðlegt að fá svar við því.
    En hæstv. fjmrh. hefur komið, skulum við segja, fram af miklum aga gagnvart þeim sem eiga að borga virðisaukaskatt og skulda gamlan söluskatt o.s.frv. Og á sama hátt á auðvitað Alþingi að halda uppi aga gagnvart fjmrh. og það er það sem hér er verið að gera. Þá finnst honum að það eigi allt aðrar reglur að gilda.
    En það sem verið er að gera núna er það að þessa dagana á að fara að afhenda marga milljarða, það á að fara að afgreiða, m.a. hér í þessari deild, marga milljarða á lánsfjárlögum sem ekki á að afgreiða á fjárlögum. Það á sem sagt að afhenda seðlana upp úr peningakassanum án þess að setja þá á strimilinn. En svo á næsta ríkisstjórn að færa það á strimilinn. Þess vegna er spurning hvort eigi ekki að setja líka sjóðvél á fjmrn.
    Ég vil líka geta þess að ég bíð eftir því að fá svör við tveim fyrirspurnum hjá hæstv. fjmrh. ( Fjmrh.: Þau eru að koma. Þau koma núna á eftir.) Já, það er gott.
    Ég ætla líka að taka það fram að ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir að hafa sýnt góða viðleitni í að gera fjáraukalög. Það verða allir að fá að eiga það sem þeir eiga og hæstv. fjmrh. hefur sýnt góða viðleitni. En nú er hann á harðaflótta frá þessari viðleitni og það er það sem ég er ekki sáttur við. Því stend ég hér og er að halda uppi gagnrýni eins og er mín skylda sem þingmanns.
    Eins vantar hér ríkisreikning fyrir árið 1989 og ég mótmæli því að hann skuli ekki hafa verið lagður fram því að þar koma fram ýmsar nýjar upplýsingar sem ég ætla ekki að fara hér út í núna. En ég ítreka að það væri nú réttara að setja á fjáraukalög, þó ekki væri nema heimild sem segði það að Alþingi heimilaði fjmrh. að nota tékkheftið eins og honum sýnist. Svona opna heimild. Það væri strax betra en að hafa ekki neitt.