Fjáraukalög
Föstudaginn 15. mars 1991


     Friðrik Sophusson :
    Herra forseti. Ég skal vera stuttorður, eins og beðið hefur verið um, um þessi efnisatriði í þeirri þingskapaumræðu sem hér var hafin af virðulegum forseta deildarinnar.
    Ég vil taka það fyrst fram að mér finnst hafa verið ærið tilefni af hálfu forseta að hefja þessa umræðu hér í dag. Ég vil jafnframt benda á að mál eins og það sem hann ber fyrir brjósti er auðvitað hægt að leysa eins og önnur slík mál hafa verið leyst núna á síðustu dögum, þ.e. að tekin sé inn í lánsfjárlög lánsheimild til þess að brúa þetta bil þar til aukafjárveiting berst. Þetta er auðvitað ekki venjuleg aðferð til að leysa mál á borð við þetta en þetta er sú aðferð sem hæstv. ríkisstjórn notar í nokkuð mörgum tilvikum einmitt nú á síðustu dögum þingsins þegar ljóst er að hæstv. fjmrh. ætlar að láta undir höfuð leggjast að leggja fram fjáraukalög en beinir þess í stað málum inn í hv. fjh. - og viðskn. þannig að hún geti sett beiðnir inn í lánsfjárlög og þannig tryggt fjárveitingar til ýmissa verkefna. Það verkefni sem hæstv. forseti deildarinnar bar fyrir brjósti á vel heima þar eins og önnur atriði sem hv. nefnd hefur haft til umfjöllunar að undanförnu.
    Ég vil, virðulegi forseti, þakka hv. 3. þm. Norðurl. e., sem jafnframt er forseti deildarinnar, fyrir það að hefja þessa umræðu því að hún gefur auðvitað tilefni til þess að ræða ekki þetta mál einangrað heldur fjáraukalög.
    Ég vil rifja það upp að á síðasta þingi, nánar tiltekið á sl. vori fyrir tæpu ári síðan, lýsti hæstv. fjmrh. því yfir hér í sölum Alþingis að nú hefðu verið tekin upp ný og betri vinnubrögð í fjmrn. Nú væri ekki beðið með að leggja fram fjáraukalög og því til sönnunar var þá þegar lagt fram frv. vegna aukafjárveitinga á árinu 1989. Og um sama leyti, ekki alllöngu síðar, var lagt fram á Alþingi fjáraukalagafrv. vegna kjarasamninganna sem gerðir voru um þetta leyti fyrir ári síðan. Það frv. hlaut talsverðar breytingar í meðferð Alþingis og það sem sjaldnast gerist en gerðist þá var það að heiti frv. var breytt þannig að það hét ekki lengur fjáraukalög vegna kjarasamninganna heldur fjáraukalög fyrir árið 1990, fyrri hluta ársins.
    Ég rifja þetta upp vegna þess að á þessum tíma gumaði hæstv. fjmrh. af því að nú væru tekin upp ný vinnubrögð. Ári síðar stendur þessi sami hæstv. fjmrh. í ræðustól hér á Alþingi og ætlar alveg að springa af undrun yfir því að nokkrir þingmenn skuli fara þess á leit við hæstv. fjmrh. að hann leggi fram fjáraukalög fyrir sl. ár og spyr hvort menn viti það ekki að þeir í fjmrn. hafi haft yfrið nóg að gera að undanförnu. Þetta má allt vera satt, að það sé mikið að gera í fjmrn. Við þingmenn vitum hins vegar að hæstv. ráðherra hefur nokkra menn á sínum snærum í ráðuneytinu sem ugglaust gætu tekið til hendi þegar á þarf að halda í jafnbrýnum málum og þessum. Og það verður kannski enn þá skrýtnara að hugsa um þessar röksemdir hæstv. ráðherra þegar menn vita að

í raun og veru liggja allar upplýsingarnar fyrir varðandi sl. ár.
    Þegar svo hæstv. ráðherra kemur hér í ræðustól og lýsir undrun sinni yfir því að það skuli vera farið fram á það að frv. til fjáraukalaga fyrir sl. ár sé lagt fram, þá hlýtur það að bjóða því heim að menn séu fullir grunsemda um það að eitthvað sé að. ( Fjmrh.: Nei, nei.) Nei, nei, nei, nei, nei, segir hæstv. ráðherra.
    Nú stendur þannig á að þegar hæstv. ráðherra þarf að tala við fjölmiðla þá virðist ekki vera mikið að gera hjá starfsmönnum ráðuneytisins. Venjulega sér maður í sjónvarpi að hæstv. fjmrh. hefur gefið út fréttatilkynningu . . . (Gripið fram í.) Ég kem einmitt að því. Ég veit að hæstv. ráðherra veit upp á sig skömmina og veit hvað ég ætla að fara að segja, en þrátt fyrir það ætla ég að láta mig hafa það að segja það. Af því að hæstv. ráðherra rifjaði það nú upp fyrir mér að síðast þegar hann hélt blaðamannafund með tilheyrandi pompi og pragt í fínu höllinni sinni, Rúgbrauðsgerðinni, ef ég man rétt, ( Fjmrh.: Nei, það var ekki í síðasta sinn.) jæja, en það er eitt af þeim síðari. Þar voru staddir starfsmenn ráðuneytisins, þeir sem hafa svona mikið að gera, og voru að lýsa því sem var kallað ríkisfjármálin árið 1990. Þetta var allglæsilegur pappír sem blaðamenn fengu og fréttamenn og þeim var ætlað að birta þetta í fjölmiðlum. Fyrirsagnirnar voru svona, með leyfi forseta: ,,Hallinn minnkar annað árið í röð.`` Það var fyrsta fyrirsögnin. Önnur fyrirsögnin var: ,,Hallinn minni en á fjárlögum.`` Þriðja fyrirsögnin: ,,Útgjöld innan ramma heimilda.`` Fjórða fyrirsögnin: ,,Útgjaldaþenslan stöðvuð.`` Og fimmta fyrirsögnin: ,,100% innlend fjármögnun.`` ( Fjmrh.: Allt rétt.) Með öðrum orðum: Þegar hæstv. ráðherra hélt þennan blaðamannafund vissi hann nákvæmlega um öll þessi atriði að eigin sögn.
    Síðan var lofað að leggja fram skýrslu, skýrslu sem hv. alþm. héldu að þeir gætu rætt áður en þingi yrði slitið. En þá brá svo við að skýrslan var ekki lögð fram á Alþingi fyrr en mörgum dögum síðar og auðvitað skilja þeir hv. alþm. af hverju það er. Það er vegna þess að það er hægt að gagnrýna flest þau atriði sem koma fram í fréttatilkynningunni þegar menn lesa skýrsluna.
Þar á meðal held ég því fram, og gæti fært rök fyrir því ef hæstv. ráðherra kærir sig um, ég mun reyndar gera það við afgreiðslu lánsfjárlaga --- og ég vona að lánsfjárlög verði afgreidd áður en þinglausnir verða eða þing verður rofið --- að öll þessi atriði sem hæstv. ráðherra heldur fram eru röng. Öll. Hvert eitt og einasta. Og það verður auðvitað tínt til í einstökum atriðum þegar sannleikurinn verður birtur. ( Forseti: Mætti forseti þá beina því til ræðumanns að hann gerði það í þeirri umræðu en ekki í þessum umræðum hér um þingsköp.) Það er alveg sjálfsagt. (Gripið fram í.) Ég ætla að fara að ráðum hæstv. forseta, enda hef ég lofað hæstv. aðalforseta að tala hér ekki mjög lengi og vera innan við hálftíma a.m.k. í minni ræðu hér um þingsköp þótt tilefnið sé þannig að ástæða væri til þess að hafa miklu fleiri orð um það.

    Ég skal bara taka eitt dæmi til þess að sýna hvernig hæstv. ráðherra vinnur. Til að gefa þjóðinni þá mynd af ríkisfjármálunum sem hann telur vera hentuga fyrir sig, þá segir hæstv. ráðherra að nú sé staðan um síðustu áramót svo góð að ríkissjóður eigi 300 millj. hjá Seðlabankanum. Réttum mánuði síðar er yfirdráttur ríkissjóðs hjá Seðlabankanum samkvæmt upplýsingum úr fjmrn. yfir 5 milljarðar og í byrjun þessarar viku, um síðustu helgi, var yfirdrátturinn 8,8 milljarðar. Og úr slíkum tölum geta menn lesið. Það er hægt að spá á þeim grundvelli hvað er að gerast í ríkisfjármálunum.
    Af hverju halda menn að hæstv. ráðherra láti undir höfuð leggjast að leggja fram þau gögn sem þingið á að fá? Ef hann kallar það dylgjur, þá á hann aðeins eitt svar við því og það er að leggja fram þessar upplýsingar í frumvarpsformi. ( Fjmrh.: Að sjálfsögðu.) Og það ber hæstv. ráðherra að gera áður en þing fer heim. Það er auðvitað ekki ráðherrans heldur þingsins að ákveða hvað afgreitt er á þinginu, en ráðherrann hefur þá gegnt sinni skyldu, þeirri skyldu sem hann sjálfur kom á, að leggja fram fjáraukalög fyrir sl. ár a.m.k. Og í raun réttri ætti auðvitað hæstv. ráðherra að leggja fram fjáraukalög fyrir yfirstandandi ár því að ég hef hér upplýsingar um þær aukafjárveitingabeiðnir sem liggja hjá ráðuneytinu í sex liðum. Það einfaldasta sem hæstv. ráðherra gæti gert, og það sem væri í hátt við þær reglur sem hann taldi vera grundvallarreglur fyrir ári síðan, væri auðvitað að flytja fjáraukalög fyrir 1991 og taka þessi atriði inn. Þetta eru fjárhæðir upp á á fjórða hundrað millj. En hæstv. ráðherra kýs að vísa flestum þessum atriðum á lánsfjárlög. Og hann gerir meira. Hann tekur lán af ákveðnum lið í fjárlögum sem kallaður er ríkisstjórnarliðurinn og ætlar síðan að láta brúa það með aukafjárveitingum síðar á árinu.
    Allt það sem ég hef sagt ber að sama brunni. Það eru tilraunir til þess að færa til tölur þannig að það færist yfir á næstu ríkisstjórn, kostnaðurinn við þær ákvarðanir sem núv. ríkisstjórn, þar á meðal hæstv. fjmrh., hefur tekið. (Gripið fram í.) Það er hægt að biðja um orðið hér enn þá. Það er ekki slíkt einræði og mér er kunnugt um það að hér fá þó menn að tala. Ég veit ekki hvernig það er í fjmrn. Það getur verið að menn fái hvorki að vinna né tala þar. En hér hafa menn málfrelsi, hæstv. ráðherra. ( Forseti: Forseti mælist til þess að hér hafi menn ekki samtöl á meðan umræða er um þingsköp.) ( Fjmrh.: Þetta er orðin efnisleg umræða.) Nei, nei, þetta er umræða að gefnu tilefni um nákvæmlega þingsköp, um það hvort hæstv. ráðherra beri að leggja fram frumvörp eða ekki og ég hef einungis vitnað til þeirra reglna sem hann sjálfur hefur sett og sagt: Af hverju fer ráðherra ekki eftir sínum eigin reglum? Og ég hef leitað skýringa á því og þá kallar ráðherra: Þetta eru dylgjur. Ég hef sagt ráðherra að hann geti losað sig undan því með því að leggja fram þessi gögn sjálfur. Og ég fagna því að hæstv. ráðherra tekur þessari áskorun með því að biðja hér um orðið og vænti ég þess þá að ég fái frið til þess að klára ræðu mína.

    Ég vil að það komi hér fram, virðulegi forseti, að ástæðan fyrir því hve illa gengur hér á hinu háa Alþingi núna er gífurlegur ágreiningur á milli stjórnarflokkanna og innan þeirra. Ég vil láta þess getið hér að á tveimur síðustu fundum hv. fjh. - og viðskn., bæði í morgun og í gærmorgun, hafði verið ætlunin að taka lánsfjárlögin út. Í hvorugt skiptið hefur það verið hægt vegna þess að það er bullandi ágreiningur á milli stjórnarflokkanna og bullandi ágreiningur á milli einstakra ráðherra um það hvað eigi að vera í þessum lánsfjárlögum. Þetta er heilagur sannleikur og kom fram til að mynda á fundi nefndarinnar í morgun og mér skilst að meiri hl. nefndarinnar sé nú á fundi til þess að reyna að botna þessi mál.
    Hæstv. ráðherra, af sínu mikla örlæti, kom með nýja hugmynd. Þegar hæstv. ráðherra lendir í þrotum í sínum málflutningi kemur hann venjulega með nýtt atriði sem venjulega er grundvallaratriði, aðalatriði, eitthvað nýtt sem hann finnur upp á. Nú hefur hann fundið upp á því að segja að það sé snjallast að kveðja þingið saman að loknum kosningum og ræða þessi mál þá og hann hefur sagt að það geti verið heppilegt að gera það í maí. Nú ætla ég að rifja það upp fyrir hæstv. ráðherra, hafi hann ekki tekið eftir því, að undanfarin kjörtímabil að loknum kosningum hefur tekið smátíma að mynda ríkisstjórnir, stundum tvo til þrjá mánuði. Það veit ég að hæstv. forsrh. þekkir og man því að hann hefur tekið þátt í öllum stjórnarmyndunarviðræðum, ég ætlaði nú að segja síðustu 20 ár en ég gæti sagt síðustu 60 ár því að faðir hans var líka í Stjórnarráðinu á stundum þannig að hann kannast nú við þessa sögu. Ég hugsa að það hafi sjaldan gengið jafnhægt og einmitt á undanförnum 20 árum. Það hafi tekið talsverðan tíma ef frá er skilið 1971.
    Nú ætla ég að spyrja hæstv. fjmrh. að því hvort hann geti, miðað við þær skoðanakannanir sem hafa verið að birtast, gert sér ljósa grein fyrir því hvernig úrslit kosninganna verði og hvort hann telji líklegt að það verði sama ríkisstjórnin sem sitji strax eftir kosningar og hvort hún muni þá kalla saman þing. Telur hann að sitjandi starfsstjórn að loknu þingi muni kalla saman þing til þess að ræða þessi mál áður en nýr þingmeirihluti myndast? ( Fjmrh.: Hún verður ekki starfsstjórn.) Við skulum bara kalla hana ríkisstjórn til einföldunar ef hæstv. ráðherra skilur það betur. Við skulum segja bara núv. ríkisstjórn að loknum kosningum, ef hún hefur misst meiri hluta sinn. Heldur hæstv. ráðherra að sú ríkisstjórn muni kalla saman þing að loknum kosningum strax? (Gripið fram í.) Það gæti verið? Og hvað á þá þingið að gera, hvað ætlar ríkisstjórnin þá að leggja fyrir þingið? (Gripið fram í.) Og láta þingið mynda ríkisstjórn? (Gripið fram í.) Ég vona að þeir sem bera fréttir héðan út úr þessum sal taki eftir því hvernig hæstv. fjmrh., formaður Alþb., talar og muni það að loknum kosningum hvað hann sagði. Hann telur að strax eftir kosningar eigi núv. ríkisstjórn að kalla saman þing og láta þingið mynda næstu ríkisstjórn. Og nú skulum við sjá hvort hann efnir þetta kosningaloforð. Þetta er fyrsta loforðið sem

hann getur efnt eftir kosningar. Þetta er auðvitað tóm þvæla og bull. Það sem hæstv. ráðherra er að gera er það að hann er að koma í veg fyrir að mikilvægt mál sé rætt á þessu þingi með því að skjóta því fram yfir kosningar því að hann veit að þá verður það ekki hann sem ber ábyrgð á þessum málum heldur nýir stjórnarherrar, nýir ráðherrar, ný ríkisstjórn. Um það snýst þetta mál.
    Loks vegna orða hv. 1. þm. Vesturl. sem spurðist fyrir um frv. um greiðslur úr ríkissjóði sem er til meðhöndlunar í fjh. - og viðskn. vil ég segja það, og ég tel að það megi gjarnan koma fram að hv. 1. þm. Norðurl. v., sem jafnframt er formaður nefndarinnar, sagði frá því á nefndarfundi í morgun að hann teldi ekki tíma til að afgreiða þetta mál núna fyrir þingslit. Þar sem hins vegar gera má ráð fyrir því að þing verði ekki rofið fyrr en í fyrsta lagi í næstu viku vegna sérstakra óska hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar, sem hefur fylgt þeim óskum eftir með sérstökum hætti, þá hygg ég að það gefist tími til að líta betur á það mál. Og af því að ég hygg að hæstv. ráðherra hlýði á mitt mál þótt hann sjáist ekki í salnum, þá vil ég enn fremur benda honum á það að hann getur enn lagt fram frumvarp til fjáraukalaga fyrir sl. ár og þarf ekki atbeina fjvn. til þannig að ég held að hann ætti ekki að vera að eyða dýrmætum tíma starfsmanna ráðuneytisins í að vera að eltast við fjvn. heldur biðja þá vinsamlegast um að leggja fram þau fjáraukalög sem auðvitað eru til í ráðuneytinu en hæstv. ráðherra vill af einhverjum ástæðum ekki leggja fram á yfirstandandi þingi.