Fjáraukalög
Föstudaginn 15. mars 1991


     Matthías Á. Mathiesen :
    Herra forseti. Það var út af því sem hæstv. fjmrh. sagði hér nú í sinni síðustu ræðu þegar hann var að tala um fjáraukalög sjö ára í fjármálaráðherratíð sjálfstæðismanna. Það fóru fram hér, eins og hann réttilega sagði áðan, umræður á síðasta þingi þegar hann kom hér og var að sýna þinginu hverjar breytingar væru nú orðnar í fjmrn., hann kominn þar og nú skyldu hlutirnir breytast og nú skyldu þeir verða með allt öðrum hætti. Þá vék hann einmitt að þessu sem hann kom hér inn á áðan og ætlaði að menn mundu ekki koma hér upp í ræðustól til þess að leiðrétta hann.
    Ég leiðrétti þá hæstv. fjmrh. með allt sem hann fullyrti þar í sambandi við fjáraukalög í tíð fjármálaráðherra Sjálfstfl. En það voru fjáraukalög fjármálaráðherra sem var úr Alþb. sem þurftu að koma fyrir Alþingi töluvert eftir að hann skildi við í fjmrn. Ég gæti náð hér í þingtíðindin og lesið upp ( Fjmrh.: Gerðu það.) og leiðrétt hæstv. ráðherra til þess að koma með dagsetningarnar, fjáraukalög fyrrir 1974, 1975, 1976, 1977. Það voru fjáraukalög sem voru svo tekin hér. Fjármálaráðherra sem kom eftir 1978. Og það var með nákvæmlega sama hætti og nú er að gerast hér á Alþingi. Það var með nákvæmlega sama hætti. ( Fjmrh.: Nei.) Jú. Ráðherrann sem fór með ráðuneytið ætlaði að gera hlutina með allt öðrum hætti. Svo bara kom hann ekki með það sem hann ætlaði sér og hafði hugsað sér að gera eins og er að gerast í dag.
    Hæstv. fjmrh. er að bregðast því sem hann sagði og réttilega fékk hér hól á Alþingi í fyrra, fyrir breytt vinnubrögð og menn héldu að það væri eitthvað sem menn meintu með því sem þeir þá voru að segja, en svo bara kemur allt annað á daginn. ( Fjmrh.: Hvenær komu Albert og Þorsteinn . . . ?) Ég fór yfir þetta allt með hæstv. fjmrh. í fyrra og hann treysti sér ekki til að koma hér upp og mótmæla einu einasta. (Forseti hringir.) ( Fjmrh.: Jú, jú. Flettu þessu upp.) Ég lagði þetta allt hér fram og ráðherra ( Forseti: Mætti ég biðja menn að vera ekki með samtöl hér og hæstv. ráðherra að grípa ekki of mikið fram í.) Það er út af fyrir sig allt í lagi því það er gott að leiðrétta hann þá bara samtímis. ( Fjmrh.: Hvenær komu Þorsteinn og Albert með fjáraukalagafrv.?) ( Forseti: Óskar fjmrh. eftir því að fá að taka til máls?) Við lögðum þetta hér allt fram í fyrra og þetta stendur allt í þingtíðindum og ég tel ekki ástæðu til þess að vera að eyða tímanum hér nú. En þessi vinnubrögð sem núna eru viðhöfð eru þvert á það sem ráðherrann lýsti hér yfir í fyrra og ég tók m.a. undir að segja góð vinnubrögð. Nú stöndum við hann að því að þessi hin góðu vinnubrögð, sem hann ætlaði sér að viðhafa, hefur hann ekki getað viðhaft og Alþingi fer héðan heim án þess að þessi fjáraukalög komi til umræðu.