Búminjasafn
Föstudaginn 15. mars 1991


     Alexander Stefánsson :
    Herra forseti. Á vissan hátt þykir mér það miður að hv. menntmn. Nd. skuli þurfa að afgreiða þetta mál með þessum hætti þar sem nefndin hefur haft þetta frv. til meðferðar frá því í október á sl. ári. Þetta var eitt af fyrstu málum hér á hv. þingi. Hins vegar tel ég sem 1. flm. að það sé þó betra að gera þetta á þennan veg þar sem ég undirstrika að í þessu nál. kemur fram sú skoðun nefndarinnar, sem er þó jákvætt í málinu, að hér sé um mál að ræða sem þurfi að leysa. Þetta er mjög mikið hagsmunamál fyrir Bændaskólann á Hvanneyri. Þetta safn sem þegar er vísir að er notað við kennslu og það að láta nemendur Bændaskólans fjalla um þá muni sem þarna eru teknir til geymslu og meðferðar hefur mikla þýðingu fyrir allt starf á þessum stað, fyrir skólann og fyrir framtíðina sem miðar að því að safna saman þessum eldri heimildum um búnaðarsögu okkar þjóðar.
    Ég vil ítreka það að ég skil þetta nál. þannig að það sé sérstök ósk nefndarinnar til ríkisstjórnar Íslands að stuðla að því að það verði sköpuð betri aðstaða heldur en er fyrir hendi fyrir þetta safn á Hvanneyri.