Búminjasafn
Föstudaginn 15. mars 1991


     Friðjón Þórðarson :
    Herra forseti. Frv. þetta til laga um búminjasafn á Hvanneyri er flutt af hv. 1. þm. Vesturl. og mér. Eins og hv. síðasti ræðumaður tók fram hefur frv. þetta verið nokkuð lengi í vörslu hv. menntmn. og hefur hún fjallað um það, vonandi allvandlega. Að sjálfsögðu hefðum við flm. fremur kosið að nefndin hefði lagt til að frv. yrði samþykkt vegna þess að hér er um brýnt og áhugavert mál að ræða að okkar dómi, en mér sýnist á hinn bóginn þegar nál. er skoðað að það sé jákvæð og vinsamleg afstaða sem komi þar fram þannig að það sé málinu til nokkurs ávinnings.
    Nú berast að Hvanneyri munir úr ýmsum áttum í þetta fyrirhugaða búminjasafn þannig að það rekur á eftir að hafist sé handa um vörslu þeirra til frambúðar.
    Ég get eftir atvikum sætt mig við þessa lausn mála, en þó, eins og segir raunar í nál., í trausti þess að stjórnvöld taki þetta mál til gaumgæfilegrar athugunar, að þar verði ekki neinar sérstakar tafir á ferðinni heldur verði frv. þetta skoðað rækilega og efni þess og tilgangi komið í framkvæmd.