Leikskóli
Föstudaginn 15. mars 1991


     Alexander Stefánsson :
    Herra forseti. Ég skal lofa því að tala ekki langt mál hér. Það eru allir orðnir þreyttir á þessu málskrafi öllu. En ég hlýt í sambandi við þetta að verða að spyrja: Hvernig stendur á því að hæstv. menntmrh. kemur sér hjá því að vera viðstaddur þegar verið er fjalla um svo viðamikið mál sem frv. til laga um leikskóla miðað við það sem á undan hefur gengið, ég tala nú ekki um hæstv. félmrh. Það er furðulegt þar sem hér er um svo veigamikið mál að ræða og mikið liggur við að það fái þá eðlilegu meðferð hér á hv. Alþingi sem stefnt er að, þó að ég sjái nú ýmislegt sem bendir til hins gagnstæða.
    Ég vil taka það fram í upphafi að ég styð heils hugar að sett verði sérlög um leikskóla og eins og ég sagði hér fyrr í umræðum um annað mál og hef sagt áður í hv. deild er löngu orðið tímabært að semja frv. til laga um leikskóla og taka þá tillit til allra þeirra breytinga sem orðið hafa í þjóðfélaginu og þeirrar kröfu sem verður að gera til þess að þetta eitt mikilvægasta uppeldisstig miðað við okkar uppeldismál fái þá meðferð sem stefnt er að, m.a. í þessu frv. Þess vegna hlýt ég að láta það koma hér fram og ég vona að hv. formaður menntmn. hlusti á það að ég harma meðferð þessa máls hér á hv. Alþingi og raunar þessara mála tveggja sem tengjast saman, að það skuli verða staðreynd að deila tveggja hæstv. ráðherra í ríkisstjórn skuli koma í veg fyrir það að svona mál fái faglega meðferð á hv. Alþingi. Ég átta mig ekki á því og verð að segja það enn á ný að ég skil ekki þau vinnubrögð hjá hv. menntmn. þessarar deildar að hún skuli láta það gerast og það skuli prentað í nefndarálitum að þeir aðilar sem mest eiga um þetta mál að fjalla og bera raunverulega ábyrgð á því að svona réttlætismál komi til framkvæmda skuli ekki einu sinni vera hafðir með í ráðum um meðferð málsins hér á hv. Alþingi. Ég þarf ekki að endurtaka það sem komið hefur fram í máli hv. þm. um þetta mál, en það er augljóst mál að hv. menntmn. Nd. hefur algerlega hundsað það hlutverk sem hún hefur í svona mikilvægu máli. Ég held að það sé nauðsynlegt að láta það koma fram hér í meðferð málsins á þessu stigi. Það er eiginlega undravert að hæstv. menntmrh. skuli voga sér, ég vil nota það orðbragð, að ætlast til að þetta frv. verði samþykkt án þess að fjármálakaflinn sem hann lét fylgja með í frv. sé a.m.k. útfærður þannig frá hendi hæstv. ríkisstjórnar að eitthvað sé að marka þau áform sem þar koma fram. Og það er einnig óeðlilegt að verða að standa frammi fyrir þeirri staðreynd að ekki er talað við þá aðila sem þó eiga eðli málsins samkvæmt að fjármagna og bera ábyrgð á þessum mikilvæga uppbyggingarþætti. Ég botna bara ekkert í því, ég verð að segja það eins og er, eins og margir ágætir hv. þm. eru í þessari menntmn., hvað þeir eiginlega hafa verið að hugsa þegar þeir voru að afgreiða þetta mál með hraði án þess að gefa þeim aðilum sem fyrst og fremst eiga um þessi mál að fjalla tækifæri til þess að tjá sig á eðlilegan máta. Virðingu Alþingis eru ekki gerð góð skil með því að

hafa svona vinnubrögð. Og allra síst þegar um er að ræða fyrrv. menntmrh. á Íslandi. Ég verð að segja það alveg eins og er að mér finnst þetta vera aum vinnubrögð í alla staði.
    Við höfum grunnskólalög og í verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, þegar ákveðið var að grunnskólinn færi til sveitarfélaga, var gert ráð fyrir ákveðnum aðgerðum í sambandi við fjármál sem því fylgdu. Sveitarfélögin eiga að taka við uppbyggingu grunnskólans og það gera þau. Þau fá aðstoð, þau sem minna mega sín, í gegnum önnur lög, þ.e. tekjustofna sveitarfélaga og Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, til þess að standa undir þeim stofnkostnaði sem þau þurfa að inna af hendi til þess að fullnægjandi grunnskóli sé til boða á hverju svæði. Og hvað fá þau svo frá ríkinu? Laun kennara, skólastjóra, fræðsluskrifstofa o.s.frv. eru greidd af ríkinu.
    Ég verð að segja að það er ákaflega ömurleg staðreynd að þurfa að viðurkenna að hæstv. menntmrh. og hv. menntmn. Alþingis stuðli að því að þau lög sem hér eru til meðferðar verði á framkvæmdasviði sveitarfélaga samkvæmt sveitarstjórnarlögum en láti það gerast að þessu frv. eigi að hraða hér í gegn án þess að gera nokkru einasta atriði skil sem snýr að því að tryggja það að sveitarfélögin geti framkvæmt þetta eða þessi lög komist til framkvæmda. Og ég endurtek það enn, það er kannski of sterkt til orða tekið, en það er alla vega undravert að hæstv. menntmrh. og hv. menntmn. Nd. Alþingis skuli leyfa sér að leggja til að þetta frv. verði afgreitt án þess að á nokkurn hátt verið tryggt að fskj. I sem fylgir þessu frv. komist í framkvæmd. Þetta er að gera grín að sjálfu málinu. Þess vegna hlýt ég að harma svona vinnubrögð vegna þess að ég hef það mikinn áhuga fyrir því að sú skipan sem hér er lögð til í frv. komist á. Ég skil ekki svona vinnubrögð og mér þykir leiðinlegt að þurfa að yfirgefa Alþingi vitandi það að þetta frv., eins og það er hér, er markleysa vegna þess að það kemst ekki í framkvæmd nema því aðeins að það sé tryggt fjárhagslega. Það ætti hver einasti alþingismaður að skilja. Við höfum reynslu af því. Og jafnvel þó að sveitarfélög vilji gera vel í þessum málum og reyni það sem betur fer flest þeirra, þá hafa þau ekki bolmagn til þess að framkvæma þetta á þann hátt sem æskilegt er, nema því aðeins að fá til þess annaðhvort tekjustofn, breytingu á tekjustofnum, eða þá að ríkið komi inn a.m.k. á sama hátt og verkaskiptalögin um grunnskóla gera ráð fyrir, að ríkið greiði allan kostnað við yfirstjórn og framkvæmd þessa máls með því að greiða starfsfólki laun.
    Herra forseti. Ég lofaði því að tala ekki langt mál. En því miður hlýtur manni að hitna í hamsi þegar maður sér svona vinnubrögð sem bókstaflega gera málið að engu. Og það er hörmulegt til þess að vita að hvorki núv. menntmrh. eða fyrrv. menntmrh., sem er formaður menntmn., skuli sjá sóma sinn í því að vera við umræðuna. Auðvitað liggur alveg ljóst fyrir, það er alveg sama hvað menn eru vel gerðir, það er ekki hægt að afgreiða þetta mál í gegnum þingið nú vegna þess að kjarnann í málið vantar. Með hliðsjón af því að þeir aðilar sem um þetta mál fjalla hafa ekki fengið tækifæri til þess tel ég augljóst mál að þetta frv. verður að bíða til næsta þings og einnig frv. um félagslega þjónustu sveitarfélaga. Á öðru er ekki stætt ef þingmenn hér á hv. Alþingi vilja ekki láta gera grín að sér þegar kemur að því að fara að framkvæma þessi lög. Það er ekki hægt nema fjármálalegur kafli þeirra sé um leið tryggður. Það er alveg sama hvað menn vilja tala fagurlega um málið að öðru leyti.
    Ég endurtek að ég er fylgismaður þess að slík löggjöf verði sett. En ég er einnig fylgismaður þess að ef hún er sett, þá sé hægt að framkvæma hana og það er aðalatriðið. Það verði tryggt með breytingu á grunnskólalögunum að því er varðar verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, en það er algerlega ótryggt í þessu frv. og það er til minnkunar fyrir ríkisstjórn og hæstv. menntmrh. og hv. menntmn. þessarar deildar að leggja til að þetta frv. verði samþykkt án þess að þetta sé komið á hreint.