Leikskóli
Föstudaginn 15. mars 1991


     Ragnhildur Helgadóttir :
    Herra forseti. Ég skal ekki flytja langt mál um þetta frumvarp að þessu sinni. Það hefur verið ítarlega rætt af hv. þm. Sólveigu Pétursdóttur og fleirum. Það var hins vegar ekki ítarlega rætt í menntmn. Að því leyti til eiga athugasemdir hv. 1. þm. Vesturl. fyllilega rétt á sér. Það var ekki staðið að afgreiðslunni með venjulegum hætti. Hvað sem líður samkomulagi þingflokka um afgreiðslu mála á Alþingi þá er nauðsynlegt að það sé ljóst að staðið var að afgreiðslu þessa máls með afar óeðlilegum hætti. Því er hraðað í gegn gegn mótmælum þeirra sem eiga að framkvæma verkið. Það er auðvitað fullkomlega óeðlileg aðferð.
    Á hitt vil ég benda að það er afgreiðsla á málinu að vísa því til ríkisstjórnarinnar. Með því að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar er Sjálfstfl. ekki að standa gegn afgreiðslu málsins. Mér er vel kunnugt um að það er metnaðarmál flestra nefndarformanna að afgreiða málin út úr nefndinni, hvort sem þau eru samþykkt eða ekki. Ef málin eru þess eðlis og hafa inni að halda viljayfirlýsingar sem menn vilja ekki standa gegn þá er sú aðferð eðlileg að vísa því til ríkisstjórnarinnar ef atriði sem máli skipta til að hægt sé að framkvæma frv. eru ekki til staðar. Þetta er eðlilegasta og mildasta afgreiðsla sem hægt er að hugsa sér á málinu. Að þessu viljum við stuðla og munum engan veginn setja fótinn fyrir það ef vilji er til þess í hv. deild.
    Að öðru leyti urðu orð sessunautar míns, hv. 6. þm. Norðurl. e., til þess að ég bað um orðið. Það var vegna þess að hann lét þess getið að nauðsynlegt væri að lögfesta ramma þessa máls þó að engir peningar væru fyrir hendi. --- Öðruvísi mér áður brá, þegar hv. sami þm. talaði stundum um málefni sem eitthvað kostuðu hér á árum áður. Hvað sem um það er, menn verða frjálslyndari með tímanum eða slaka svolítið á, ég veit ekki. ( Gripið fram í: Málið er svo mikilvægt.) Málið er svo mikilvægt, nákvæmlega rétt. Þess vegna á ekki að þyrla upp blekkingafrumvarpi um það. Þess vegna á að hafa frv. þannig að fólk viti að það verði framkvæmt en það sé ekki verið að plata. Ramminn sem hv. þm. er að tala um er til og hann er hægt að framkvæma. Það þarf ekki lög um þennan ramma. Það þarf lög til að hægt sé að framkvæma málið en þá verður að vera ákvæði um það og áætlun að liggja fyrir um það.
    Fyrir allnokkrum árum var gerð svonefnd uppeldisáætlun um starfsemi leikskóla og dagvistarstofnana. Ég átti töluverðan hlut að því máli sem menntmrh. og sérstaklega að því máli að kynna þetta mál gagnvart dagvistarstofnunum. Ráðuneytið skrifaði öllum dagvistarstofnunum í landinu bréf um þetta mál og kynnti það rækilega en það hafði einmitt komið ábending fram um það frá aðalstarfsmanni þessa verkefnis, sem var Valborg Sigurðardóttir, fyrrv. skólastjóri Fósturskólans, að þetta verk kæmi fyrir lítið ef það væri ekki kynnt dagvistarstofnununum. Ég lét ganga í það verk að kynna þetta öllum dagvistarstofnunum á landinu og veit ekki betur en því hafi verið tekið fagnandi alls staðar og fóstrur hafi almennt talið mikla þörf á þessari uppeldisáætlun og hún sé lögð til grundvallar í starfi. Enda er margtekið fram í grg. þessa frv. að þessi áætlun sé lögð til grundvallar þessu plaggi. En til þess að framkvæma uppbygginguna þarf annað en svona pappírsblað. Það þarf samstarf og sameiginlegt átak ríkis og sveitarfélaga við að skaffa þá fjármuni sem til þarf og áætlun um það hvernig hagað skuli þeirri uppbyggingu þannig að eitthvert hald sé í þessu máli. Það er alveg sama þó að frv. með grg. sé 46 síður. Þó það væri 146 síður, þá kæmi það ekki að gagni ef þetta vantar. Ekkert er í frv. fram yfir það sem þegar er til í ráðuneytinu og á að vera framfylgt að því er ég best veit.
    Þess vegna er eðlilegasta afgreiðsla sem þetta mál getur fengið að vísa því til ríkisstjórnarinnar og það er afgreiðsla. Sjálfstfl. hefur skuldbundið sig til að standa ekki gegn afgreiðslunni, enda hefur Sjálfstfl. lagt til aðferð til að afgreiða málin.
    Þetta vildi ég gjarnan undirstrika, herra forseti, vegna orða sem hér féllu úr forsetastóli. Það er ekki verið að ganga á svig við þau ummæli þó að lagt sé til að málinu sé vísað til ríkisstjórnarinnar.