Húsnæðisstofnun ríkisins
Föstudaginn 15. mars 1991


     Geir H. Haarde :
    Herra forseti. Ég vil leyfa mér að rifja upp örfá atriði sem fram komu í máli mínu varðandi þetta mál hér í gær. Eins og kunnugt er þá er þetta frv. sem hér er til meðferðar ekki eitt af stóru málunum í þinginu þessa dagana heldur eitt af litlu málunum og eitt af þessum málum sem verið er að pressa í gegn á síðustu dægrum þinghaldsins án þess að á því sé nokkur brýn nauðsyn því sennilega eru nú liðin sex eða sjö ár frá því að einhverjir fóru að tala um að þeir vildu fá lög sem þessi samþykkt hér, en hafa komist bærilega af án þess.
    Þessi nýi kafli, sem ætlunin er að skjóta inn í lögin um Húsnæðisstofnun ríkisins með þessu frv., er þrátt fyrir allt nokkuð skyldur ákvæðunum í þessum lögum er lúta að félagslegum íbúðum vegna þess að það er gert ráð fyrir því að þessi svokölluðu húsnæðissamvinnufélög geti fengið lán úr Byggingarsjóði verkamanna með sama hætti og aðilar sem vilja festa sér húsnæði, svokallaðar félagslegar eignaríbúðir, í því sem eitt sinn var kallað verkamannabústaðakerfi og afmælisbarnið, Alþýðuflokkurinn, taldi eitt sinn sér til tekna. En það er reyndar liðin tíð.
    Það sem við, nokkrir þingmenn, höfum leyft okkur að gera með brtt. á þskj. 887 er að reyna að gera verkamannabústaðakerfið á nýjan leik samkeppnisfært við aðra kosti í húsnæðismálum fyrir þá sem eiga í vök að verjast, fyrir þá sem eru undir tekju- og eignamörkum í þessu kerfi öllu saman. En það fer ekkert á milli mála að það hefur verið markviss stefna núv. ríkisstjórnar og ekki síst hæstv. núv. félmrh. að grafa undan félagslegum eignaríbúðum í þágu alls kyns annarra kosta. Svo er því haldið fram að málið snúist um það að hafa hér fjölbreytni og fleiri valkosti. Það hefur hins vegar verið gert þannig að verkamannabústaðakerfið, eignaríbúðir í félagslega kerfinu hafa nánast verið settar út á kaldan klaka. Og að þeim er þannig búið um þessar mundir að fólki er gert erfiðara fyrir ef það vill fara inn í slíkt húsnæði. Með öðrum orðum: Ef það vill frekar reyna að eignast húsnæði í gegnum verkamannabústaðakerfið, þá skal því gert erfiðara fyrir heldur en ef það vill fara inn í búseturéttarfélag eða leiguíbúðir, hverju nafni sem þær svo nefnast í kerfi félmrh.
    Þetta er ekki eðlilegt. Það sem er eðlilegt er auðvitað að samtímis séu til staðar nokkrir valkostir þar sem fólki er ekki stýrt, valkostir sem keppa á jöfnum grunni, ef nota mætti þá líkingu um þessi fyrirbæri. Það sem gerðist hér í fyrra þegar sett voru ný lög um félagslegt íbúðarhúsnæði var því miður það að það var enn gengið á hlut hinna félagslegu eignaríbúða til þess að hygla öðrum formum í þessum málaflokki. T.d. var brott numin sú heimild sem hafði verið í húsnæðislögunum svo lengi sem elstu menn muna, a.m.k. svo lengi sem við hv. þm. Alexander Stefánsson munum, þess efnis að þeir sem ættu í erfiðum fjárhags- eða fjölskylduaðstæðum gætu fengið þriggja ára lán til þess að mæta útborgun í verkamannabústaðakerfinu, annaðhvort að hluta til eða jafnvel að öllu leyti. Þegar félagshyggjufurstarnir í ríkisstjórninni voru að skipta hér um kerfi í fyrra, þá mátti það nú ekki minna vera heldur en að þurrka þennan möguleika út. Fólki, sem vildi eignast húsnæði í þessu kerfi, vildi leggja hart að sér en átti erfitt um vik með útborgun, var bara sagt að fara annað. Því var bara sagt að fara annað. Það var sagt hér fullum fetum: Þetta fólk verður bara að fá sér leigt, annaðhvort á hinum almenna markaði eða í einhverju félagslegu leigukerfi. Þannig var nú þetta, hv. þm. Stefán Valgeirsson, eins og ég veit að þú manst mætavel frá í fyrra. Þetta var nú bara svona.
    Þess vegna höfum við nokkrir þingmenn viljað freista þess að hnekkja þessu óréttlæti og flutt brtt. við þetta frv. á þskj. 887 um að upp verði tekin á nýjan leik sú heimild sem áður var í húsnæðislögunum. Það er fullkomlega eðlilegt að tengja þessa breytingu við það frv. sem hér er á ferðinni vegna þess að þetta tengist auðvitað í gegnum Byggingarsjóð verkamanna og skarast að því leyti til að hér er í báðum tilvikum um að ræða aðila sem þiggja lán úr Byggingarsjóði verkamanna. Munurinn er bara sá að þetta búseturéttarkerfi sem hér er til umræðu getur gert mönnum kleift, sem eiga einhverjar eignir og hafa þokkalegar tekjur, að smeygja sér inn í verkamannabústaðakerfið, eða réttara sagt að smeygja sér inn í lán úr Byggingarsjóði verkamanna, ekki verkamannabústaðakerfið, að smeygja sér inn í allra ódýrustu lán sem fyrirfinnanleg eru í lánakerfinu. Og það er auðvitað ekki hugmyndin með þessum sjóði, Byggingarsjóði verkamanna, að menn geti búið sér til eitthvert tiltekið form, kallað það einhverju ákveðnu nafni og sagt sem svo: Fyrst við erum í þessu kerfi, þessu kaupfélagi hér, eða hvað þeir kalla það, þá eigum við rétt á að fá lán á allra ódýrustu kjörum. Það er sjálfsagt að lána slíku fólki, að sjálfsögðu, en það á bara að vera með sömu skilmálum og kjörum og almennt gerist.
    Húsnæðissamvinnufélögin hafa verið hér starfandi, eins og fram hefur komið, í allnokkur ár. Þau uppfylla vafalaust ákveðið pláss á þessum byggingarmarkaði sem þörf er fyrir og hafa þar af leiðandi vafalaust ákveðnu hlutverki að gegna fyrir þá sem vilja búa við þá skipan, fyrir þá sem vilja leggja fram í upphafi ákveðinn hlut, borga síðan leigu alla ævina og fá síðan endurgreiddan hlutinn að lokum án þess að hafa eignast neitt til viðbótar í íbúðinni. En það er ósanngjarnt og óeðlilegt að slíkt kerfi njóti forréttinda umfram önnur.
    Ég hef látið það koma fram, virðulegi forseti, í samtölum hér við fólk að ég sjái ekki ástæðu til að leggjast beinlínis gegn þessu frv. Ég sagði það hér í minni fyrri ræðu að við hv. þm. Eggert Haukdal mundum ekki greiða atkvæði gegn þessu frv. og skiluðum þar af leiðandi ekki sérstöku nál. En ég vil segja það, virðulegi forseti, þannig að það liggi hér fyrir að af minni hálfu er afgreiðsla þessarar brtt. með viðunandi hætti algjört skilyrði fyrir því að ég greiði fyrir því að þetta frv. fari hér áfram í gegnum deildina. Að sjálfsögðu ræð ég því ekki hvort þetta mál verður að lögum eða hvort Alþingi kýs að eyða miklum tíma í þetta frv. En ég vil bara láta það koma hér fram að það er krafa mín og okkar flm. að til þess að greiða fyrir framgangi þessa máls verði þessi brtt. samþykkt.
    Hv. 1. þm. Vesturl. lýsti því mjög skilmerkilega í gær hvað hér væri mikið nauðsynjamál á ferðinni. Ég hef sjálfur reynt að gera það og þarf ekki að eyða fleiri orðum að þessu. En ég vil treysta því, virðulegi forseti, að ábyrgðarmenn þessa máls hér í deildinni reyni nú einu sinni að koma hér til móts í þessum málaflokki með því að fallast á að þessi brtt. nái fram að ganga. Ég vil láta áskorun um það efni verða mín síðustu orð að sinni.