Húsnæðisstofnun ríkisins
Föstudaginn 15. mars 1991


     Hreggviður Jónsson :
    Hæstv. forseti. Það frv. til laga sem hér liggur fyrir um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins er ekki fyrsta og síðasta frv. sem lagt hefur verið fyrir hér sl. fjögur ár um þessi mál og hefur komið í ljós, eins og við, sem höfum rætt um þessi mál hér í þinginu, höfum bent á mjög oft, að þau frv. sem hér hafa verið lögð fram hafa verið meingölluð og illa úr garði gerð. Þetta kemur í ljós æ ofan í æ þegar hæstv. félmrh. leggur fram ár eftir ár breytingu á lögum sem hún er nýbúin að breyta. Það sýnir sig í þeirri málsmeðferð að þessi málaflokkur verður æ flóknari og verri við að eiga. Nú má því segja að málin séu komin þannig að hér liggja ein sex frv. frá hæstv. ráðherra um ýmsa þætti sem bæði varða þetta og annað í húsnæðismálum. Það er náttúrlega erfitt að fjalla um þennan málaflokk með þeim hætti sem hann er lagður hér fram þar sem jafnframt er ákveðið að hann eigi að afgreiðast hér með afskaplega stuttum fyrirvara og ár eftir ár lagður mjög mikill þungi á það að hér séu afgreidd ný og ný lög um húsnæðismál og það eigi að vera endanleg lausn þeirra mála.
    Þegar hv. 1. þm. Vesturl. var félmrh. gagnrýndi núv. félmrh. hans þátt mjög óvægilega í þeim málaflokkum. Málin hafa ekki batnað með tilkomu núv. félmrh. og verður að segjast eins og er að sú meðferð á þessum málum sem við höfum séð hér er langt frá því að vera fullnægjandi því meginstefnan í húsnæðismálum núv. hæstv. félmrh. er sú að mismuna fólki. Gera mönnum æ erfiðara að byggja, þeim sem vilja gera það sjálfir, og gera lánskjör verri og óaðgengilegri fyrir þá sem vilja byggja sjálfir. Enn fremur er þeim raðað eftir einhverjum formúlum sem hæstv. ráðherra hefur búið til með þeim hætti að hvergi í nágrannalöndunum þekkist. Ég nefni það sem dæmi að enn bíður fjöldi manns í Húsnæðisstofnuninni eftir láni vegna þess að þeim hefur verið skotið aftur fyrir einhverja svokallaða forgangshópa en það þekkist hvergi í hinum vestræna heimi að slíkt sé gert.
    Svo komum við að þessu frv., sem hæstv. ráðherra hefur lagt hér fram, um Búseta og búseturétt og þá kemur í ljós að það er ekkert fjallað um skattamál þessara félaga. Það er t.d. alveg óljóst, hæstv. félmrh., hver á að greiða eignarskatt af búsetuíbúðum. Það er hvergi fjallað um það. Skattstjórinn í Reykjavík hefur ekki enn þá komist að niðurstöðu í þeim efnum því hann veit ekki hvernig á að fara með þau. Það liggja fyrir upplýsingar um það t.d. í ársreikningum Búseta hér í Reykjavík fyrir 1989 að þeir greiða engin slík gjöld. Þetta félag virðist vera skattlaust. Það hljóta að vera gerðar kröfur þegar stofnað er sérstakt félag sem á að hafa sérstaka skammstöfun, hsf., sem er einhver voðalega fín skammstöfun og á að vera eitthvað svipað og hf. geri ég ráð fyrir, þá verður það félag auðvitað að bera skyldur í þjóðfélaginu eins og hver önnur félög og einstaklingar hér verða að gera. Það er auðvitað alveg grundvallaratriði að menn sitji við sama borð, en það gera menn ekki. Þessi lög eru mjög óljós og margt mjög illa unnið. Það eru fjölmörg atriði í þessum lögum sem verður að segjast eins og er að eru meingölluð.
    Það er svo að hér hefur risið upp félag Búseta með fjölda manns í vinnu sem er auðvitað greitt af þeim félögum sem byggja það. Hér er því um að ræða mjög öflugt félag, mjög stórt í sniðum, og það er auðvitað krafa að slík félög verði náttúrlega að standa skil á fjárframlögum til þjóðfélagsins eins og einstaklingar verða að gera. Það er náttúrlega grundvallaratriði, en hæstv. félmrh. heldur áfram að mismuna fólki æ meira og setja upp sérstakar raðir fyrir hina og þessa hópa. Aðrir hópar eiga ekki að fá möguleika á því. Í öllum nágrannalöndunum, þ.e. Norðurlöndunum, þá er ekki flokkað eftir þessu. Það er flokkað eftir því hvort menn hafi hugsanlega getað greitt til baka þau lán sem þeir fá. Hér er verið að færa fjármagnið yfir í ný kerfi, eins og Búseta, á kostnað fjölmargra aðila sem bíða og hafa ekki fengið lán.
    Það er staðreynd, hæstv. félmrh., að þessi stefna og jafnframt skattastefna ríkisstjórnarinnar hefur kostað suma hér í þjóðfélaginu, sem ekki heyra undir þessa svokölluðu forgangshópa hæstv. ráðherra fleiri hundruð þúsund með ýmsum skattalegum aðgerðum og aðgerðum á þessu sviði. Það er auðvitað tími til kominn að menn geri sér grein fyrir því að réttindi í þjóðfélagi eiga að vera jöfn. Það á að vera jafnaðarregla í sköttum en það er ekki hjá hæstv. ráðherra.
    Svo er í þessu frv. gert ráð fyrir því að einhver félög eigi eignarrétt á þessu húsnæði. Það virðist svo vera a.m.k. Það er afskaplega merkilegt að lesa þetta frv. Það er verið að stofna hér til félags sem er ekki ljóst hver stjórnar eða hvernig í rauninni eignarþátttakan er t.d. í atkvæðagreiðslum á félagsfundum. Er það eftir stærð íbúða? Er það eftir fjárframlögum? Hver veit um það? Það er hvergi í þessu frv. að finna neitt um slíkt. Það er auðvitað voðalega fallegt að leggja fram slíkt frv. en það hlýtur að verða að gagnrýna frv. og þau markmið sem hér eru sett fram vegna þess að það vantar mjög mikið á að þau fullnægi þeim reglum sem við verðum að telja að um slík félög hljóti að gilda.
    Það er ekki kveðið tryggilega á um hvernig réttur manna sé í rauninni tryggður. Síðan er hægt að segja mönnum upp og vísa þeim úr þessu svokallaða búsetafélagi. Það er að vísu með þeim hætti að það á að gefa þeim viðvörun ef þeir standa ekki skil á sínum greiðslum væntanlega og öðru slíku. Þar að auki getur félagið krafist útburðar en sjálfur réttur leigutaka í þessu búsetakerfi er afskaplega lítið tryggður. Trygging þess manns sem sest inn í búsetafélagið er yfirleitt afskaplega lítil. Það eru að vísu einhver ákvæði um það að félagsmaður geti skotið ágreiningi til úrskurðar stjórnar húsnæðissamvinnufélags, en um það er afskaplega óljóst fjallað. Það þyrfti auðvitað að vera þannig að maður geti leitað réttar síns í hinu almenna dómskerfi. Lagatextinn í þessu frv. þyrfti að vera miklu nákvæmari hvað varðar réttarfarsleg atriði. Svo er hitt um framsal á íbúð. Við skulum segja að einhver aðili sé búinn að greiða upp í íbúð í 20 ár og sé kominn langleiðina með að greiða hana. Þá kemur í ljós að deyi þessi maður erfist rétturinn ekki ef hann er einhleypingur. Þá hefur hann misst sinn rétt. Allt sem hann hefur lagt í þetta félag missir hann og félagið eignast það.
    Hér erum við komin að mjög mikilsverðu atriði í íslensku þjóðfélagi þar sem það hefur verið talið svo að erfðarétturinn ætti að ganga til næstu erfingja samkvæmt erfðaskrá og það hlýtur að vera svo. Þetta atriði er nú mjög sérstakt þó ekki sé meira sagt. Hins vegar er talað um að það sé heimilt að not íbúðar færist yfir til maka við andlát, hjónaskilnað, kaupmála á milli hjóna eða setu í óskiptu búi. En hvorki er rætt um að börn viðkomandi eigi réttinn, hæstv. félmrh., eða einhverjir aðrir. Þannig að raunverulega eru einhleypingar rúnir því fé sem þeir leggja í þetta.
    Það sýnir í rauninni að þetta form er mjög sérstakt og það hlýtur að vera íhugunarefni um eignarrétt í þessu félagi og skattalega meðferð á slíku félagi. Það er einnig svo að réttur þeirra sem eiga að búa þarna er afskaplega takmarkaður og nánast má segja að þeir geti lent í því við vanskil eða af einhverjum öðrum orsökum að þeim sé vísað út úr íbúðinni án þess að þeir geti borið hönd fyrir höfuð sér. Ég tel að búseturéttur verði að skoðast miklu betur og að það verði að vera nákvæmari lagatexti um ýmis atriði hvað málið varðar.
    Ég minntist hér áðan á skattamál Búseta. Hæstv. félmrh. hlýtur að geta upplýst hér ástæðuna fyrir því að búsetafélögin hér hafa ekki enn þá greitt eignarskatta af sínum eignum. Og nú spyr ég hæstv. félmrh.: Er ætlunin að Búseti sé eignarskattsfrjáls af eignum sínum og með hvaða hætti hefur verið ákveðið að skattleggja þessi félög?
    Þetta hlýtur að vera nauðsynlegt að fá fram í þessari hv. deild til þess að menn séu upplýstir um hvort venjulegt fólk, sem á ekki búsetaíbúðir, er jafnt fyrir lögunum að þessu leyti. Þetta er eitt af þeim atriðum sem hljóta að verða að fást upplýst í þessari umræðu. Hér er um miklar fjárhæðir að ræða og ég geri ráð fyrir því að hæstv. félmrh. muni ekki liggja á liði sínu við að svara spurningum um skattamál þessara félaga.
    Þá komum við að því að hér er raunverulega verið að taka fjármagn frá Byggingarsjóði verkamanna, frá Verkamannabústöðunum, yfir í nýtt félag, nýja gerð af húsnæðismálatilboði getum við sagt. Það gerist auðvitað með því að þeir sem hafa áður getað byggt sér verkamannabústaði eiga þess ekki kost nú vegna þess að fjármagnið er auðvitað takmarkað.
    Ég ætlaði ekki að ræða mjög ítarlega um þetta mál í þessari fyrstu ræðu minni hér nú. Ég gæti hins vegar sitthvað sagt um þetta. M.a. hlýtur líka að verða að fá svar frá hæstv. félmrh. um það þar sem því er haldið fram að það sé meira en helmingi lægri greiðslubyrði af búseturéttaríbúðum á félagslegum grundvelli heldur en almenna lánakerfinu, sem hæstv. ráðherra vill núna loka, og nærri því þrisvar sinnum lægri árleg greiðslubyrði af 1 millj. heldur en í húsbréfakerfinu og þó er þetta reiknað fyrir löngu síðan, áður en núverandi afföll af húsbréfum voru komin fram. Það mun hafa verið núna snemma í vetur sem

þessi útreikningur var gerður og það af búsetafélögum hér. Það stendur hér að af 1 millj. í félagslegri búseturéttaríbúð sé árleg greiðslubyrði 28.465 kr., af húsbréfakerfinu 75.999 kr., en greiðslubyrðin er núna vafalaust komin í 80 -- 90 þús. kr.
    Það hlýtur því að verða krafa hér og nú að félmrh. geri grein fyrir þessum mikla mismun sem er lagður á herðar einstaklinga. ( Gripið fram í: Er ekki rétt að hafa ráðherrann viðstaddan?) Ráðherrann? Hann er víst týndur já, það er rétt. Hæstv. félmrh. hefur náttúrlega ekki þolað að hann sé spurður einhvers því hæstv. félmrh. er með því marki brenndur að hann vill helst ekki svara neinu því allt er nú rétt og gott og satt sem hæstv. félmrh. hefur lagt hér fram og enginn má yfirleitt hafa aðra skoðun. Því er nú óskað eftir því að félmrh. láti sjá sig, þó það væri ekki nema í hliðarsal, til þess að hægt sé að fá svör við þeim spurningum sem ég hef borið hér fram.
    Það er auðvitað svo að hæstv. félmrh. getur ekki ætlast til þess að Alþingi Íslendinga afgreiði hér enn ein ný lög án þess að svara þeim spurningum sem hér hafa verið bornar fram. Og hæstv. félmrh. verður, hvort sem honum líkar betur eða verr, að gera grein fyrir þessum miklu fjármunum sem virðist eiga að leggja í búsetakerfið umfram hið almenna kerfi. Hæstv. félmrh. Ég var að óska eftir því að þér gæfuð skýringu á hinum mikla mismun sem felst í því að í félagslega búsetakerfinu er árleg greiðslubyrði mikið léttari en af húsbréfakerfinu. Ég var að tíunda hér að samkvæmt útreikningum frá búsetafélögum er árleg greiðslubyrði af 1 millj. í félagslegri búsetuíbúð 28.465 kr. en árleg greiðslubyrði af húsbréfakerfinu, áður en allar þær hækkanir sem núna hafa verið tíundaðar í blöðum hafa komið fram, er 75.999 kr. Þetta er náttúrlega gífurleg mismunun fyrir þjóðfélagshópa og það hlýtur auðvitað að vera gerð krafa um það að hinn almenni borgari, sem er að reyna að basla við að koma sér sjálfur upp íbúð, standi jafnfætis slíkum tilboðum. Það hlýtur að vera krafa um það að almennur borgari, sem borgar mikla skatta, borgar mikla eignarskatta, borgar meiri skatta en þekkst hafa frá stofnun lýðveldisins, sé ekki raunverulega með þessu bara sleginn út. Ég efast ekki um að þessar upplýsingar, sem ég er hér með, séu réttar. Þær eru reiknaðar af landssambandinu Búseta, og ég efast ekki um að þær séu réttar þegar þær eru reiknaðar. En ég vil benda á að síðan hafa kjör á húsbréfum versnað allverulega þannig að það er jafnvel ekki 76.000, eins og kemur fram í þessum útreikningum, heldur jafnvel 85.000. Það hlýtur þess vegna að verða að svara því hvernig þetta er gert. Þar að auki eru menn sem eru að reyna að eignast húsnæði sjálfir ábyrgir fyrir öllu því sem þeir gera sem þeir eru ekki sem eru í búsetakerfinu. Að vísu virðist nú búsetafélagið eiga að vera ábyrgt fyrir því en það er mjög mikilvægt að það sé ekki stigið á menn með þessum hætti. Það er auðvitað mjög alvarlegt þegar fer að muna þrefaldri afborgun á einni milljón, hún skuli vera þreföld eftir því í hvaða kerfi menn fara inn í. Hæstv. félmrh. getur auðvitað svarað þessu eins og

öllu öðru sem í þessu frv. stendur.
    Ég tel að það hljóti líka að vera umhugsunaratriði hvort við séum ekki á rangri leið með þessum húsnæðiskerfum. Núna er sú stefna uppi á Norðurlöndum að vilja stuðla að því að menn byggi sjálfir og eigi íbúðirnar sjálfir. Þeirri stefnu hefur aukist mjög fylgi síðustu árin á Norðurlöndum. Það hefur einfaldlega komið í ljós að sjálfseignarstefnan er farsælust fyrir ríki og bæjarfélög og fyrir alla. Staðreyndin er sú að eigi maður hlutinn sjálfur fer maður betur með hann. Ég vil nefna eitt dæmi, hæstv. félmrh. Í Noregi er það svo að til að fá fram ódýrt leiguhúsnæði er þeim sem eru með t.d. einbýlishús gefinn kostur á að leigja út minni hluta hússins og er ekki borgaður tekjuskattur af því fé. Og ég tek sem dæmi að ef maður leigði í Noregi fólki slíka íbúð fyrir 30.000 kr. þá þyrfti sama íbúð að leigjast á 62.500 kr. á Íslandi út af skattastefnu núv. hæstv. ríkisstjórnar. Með öðrum orðum, húsaleiga á Íslandi er helmingi hærri einungis út af skattastefnu ríkisstjórnarinnar. Og með því að stuðla að því að menn geti haft slíkt leiguhúsnæði á boðstólum þýddi það jafnframt að það þyrfti að byggja minna af hinu opinbera og það þyrfti færri úrræði á þessum vettvangi. Ég held að slík stefna hljóti að vera farsælli. Og ég er sannfærður um að það hlýtur að vera aðalsmerki okkar hér á Íslandi að hlúa að sjálfseignarstefnunni. En í tíð núv. ríkisstjórnar hefur verið farin þveröfug leið sem þýðir meiri útgjöld fyrir ríkið, meiri útgjöld fyrir bæjarfélög og minni ánægja hjá hinum almenna borgara, minni sjálfsvitund og sjálfstæði gagnvart hinu opinbera. Því það er einu sinni svo að þeir sem eiga sitt sjálfir eru sjálfstæðir. Þessi stefna sem núv. ríkisstjórn hefur staðið fyrir byggist á því gamla mottói, sem ég hélt að væri liðið, að stjórnvöld væru nokkurs konar guð almáttugur í lífi fólksins, skömmtuðu, deildu og drottnuðu yfir fólkinu. Þess vegna er mikilvægara að sjálfseignarstefnan sé virt og mönnum gert létt að eiga og reka sitt húsnæði. En með þeirri stefnu sem er rekin hér á Íslandi er farin þveröfug leið. Það hlýtur að vera farsælla þegar til lengri tíma er litið að reyna að koma því þannig fyrir að þeir sem byggja og eiga húsin sjálfir séu ekki settir í fjötra af hinu opinbera með verri og margfalt verri kjörum en ástæða er til.
    Núna á síðustu dögum, það var sennilega í gær, var t.d. lagt fram frv. í þinginu um sérstaka ívilnun fyrir þá sem leigja. Það er ágætt svo langt sem það nær, en hin leiðin, sem ég minntist á, er líka leið til að lækka leiguna. Vegna þess að þetta frv., sem núv. ríkisstjórn leggur fram, lækkar ekki leiguna. Ef eitthvað er hækkar hún leiguna. En með því að gera húsaleigu af minni hluta húss sem menn eiga t.d. skattfrjálsa mundi það lækka leiguna og skapa hér nýjan leigumarkað sem væri hagstæður og farsæll fyrir þjóðfélagið. Menn verða að hugsa dálítið lengra en bara um daginn í dag og um að það þurfi að búa til einhver ódýr tilboð nú. Það verður að borga þetta allt saman og það kerfi sem núna liggur fyrir mun kosta íslenska skattborgara margfalt hærri skatta í náinni framtíð sem þýðir það að lífskjör munu lækka í framtíðinni. Og það verður að líta á þessa stefnu sem lífskjarastefnu.
    Hæstv. forseti. Ég mun ekki hafa þetta lengra að sinni en það gefst e.t.v. tækifæri til að ræða þetta allítarlega síðar við umræðu.