Húsnæðisstofnun ríkisins
Föstudaginn 15. mars 1991


     Alexander Stefánsson :
    Herra forseti. Aðeins örfá orð. Við verðum sjálfsagt aldrei sammála hv. 11. þm. Reykn. um þessi mál þó ég taki undir það að sjálfseignarformið er það besta sem við Íslendingar höfum tekið upp í húsnæðismálum og ég vona að það verði alltaf aðalatriðið í húsnæðismálum hér á Íslandi. Hins vegar vil ég segja það að besta formið fyrir félagslega kerfið er náttúrlega verkamannabústaðakerfið. Það hefur sannað það í gegnum allan tímann frá því að það var stofnað að það hefur komið að bestum notum. Hluti af því er í raun og veru nokkurs konar eignarform því að fólk sem kemst í verkamannakerfið eignast smátt og smátt langleiðina þau hús sem það fær úthlutað hverju sinni.
    Hitt er alveg ljóst að búsetaform, sem við erum hér að tala um, er form sem hefur rutt sér til rúms á Norðurlöndunum og hefur gefist vel. Það er að vísu ekki endilega fyrir lágtekjufólk. Það er frjálst val þeirra sem vilja fara inn í þetta kerfi. En hitt er annað mál að búsetukerfið er stórum betra kerfi en kaupleigukerfið. Því kaupleigukerfið svokallaða, sem var fundið upp hérna fyrir nokkrum árum, hefur sýnt á sér svo margar óeðlilegar hliðar að ég held að menn séu nú smátt og smátt að átta sig á því að það var rúmlega blekking, og er þó vægt til orða tekið.
    En ég ætlaði ekki að tala um þetta heldur hitt, sem ég gæti talað um langt mál, um þátt Alþfl. í þessum málum þar sem þeir núna eru uppvísir að því á hinu merka afmæli flokksins í dag að hafa snúið frá stefnunni. Þeir eru ekki lengur flokkur sem leggur aðaláherslu á samstarf og samvinnu við launþegahreyfinguna í landinu. Þeir vilja helst ekkert af henni vita. Það er einnig svo um margt fleira, sem þessi ágæti flokkur hafði á stefnuskrá í samvinnu við Framsfl. í áratugi, að það er löngu fallið fyrir borð. Það er því einstefnuleið sem þessi flokkur fer nú, leið sem leiðir til ófarnaðar í þessum málum.
    En það sem fékk mig til að koma hér upp er að leggja enn á ný áherslu á smáleiðréttingu sem er á þskj. 887. Það var alveg ótrúleg fáviska að mínu mati og kannski hrokafullur ásetningur þegar frv., sem varð síðan að lögum nr. 70/1990, var til meðferðar hér að fella niður ákvæði, sem er búið að vera í húsnæðislöggjöf á Íslandi í áratug eða jafnvel lengur, um að Húsnæðisstofnun hafi möguleika á því að rétta fólki hjálparhönd sem af sérstökum ástæðum lendir allt í einu í þeim vanda að missa sitt húsnæði en þyrfti ekki nema skammtímalán til að komast yfir hjallann miðað við að fá 100% lán. Þetta ákvæði hefur alltaf verið í húsnæðislöggjöfinni en var fellt út á sl. ári. Þrátt fyrir að við nokkrir þingmenn gerðum tilraun til þess að koma í veg fyrir það áttuðu þingmenn sig ekki á því hvað um var að ræða. Ég hef rætt við marga hv. þm. sem vissu nákvæmlega ekkert um hvað var í húfi á þessu sviði og þess vegna létu þeir hafa sig í það að koma í veg fyrir þessa leiðréttingu á síðasta þingi. Ég vona svo sannarlega að menn átti sig á því að hér er um að ræða nauðsynlega leiðréttingu, sem var í gildandi lögum í áraraðir, eins og ég sagði

áður, að við bætist nýr málsl.: ,,Heimilt er húsnæðismálastjórn að veita sérstök lán til allt að þriggja ára til þeirra sem eiga í verulegum erfiðleikum með útborgun ef um er að ræða sérstaklega erfiðar fjölskyldu- eða fjárhagsástæður.`` Og ég legg áherslu á að hér er um að ræða sérstakar aðstæður og sem betur fer eru ekki í neinum þeim sérflokki að hér sé um stórkostlegar fjárhæðir að ræða heldur er þetta yfirleitt undantekningaratriði sem samkvæmt gildandi lögum um Húsnæðisstofnun er enginn möguleiki á að leiðrétta.
    Ég vænti þess, herra forseti, að brtt. á þskj. 887 fái samþykki hér í hv. deild því að hér er talsvert mikið í húfi fyrir kannski ekki stóran hóp fólks en nægjanlega stóran til þess að þarna er um að ræða fólk sem missir allt sitt og alla fótfestu í lífinu ef þessi möguleiki er ekki fyrir hendi hjá Húsnæðisstofnun.