Ábyrgðadeild fiskeldislána
Föstudaginn 15. mars 1991


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Þegar frv. um ábyrgðadeild fiskeldislána kom hér til 1. umr. flutti ég ítarlega ræðu sem mörgum fannst of ítarleg og of löng og varð tilefni til sérstakrar umfjöllunar næsta dag hve löng hún hefði verið. Í þessari ræðu flutti ég margar efnislegar athugasemdir við þetta frv. Mér hefur verið tjáð að hv. fjh.- og viðskn. hafi afgreitt þetta mál út á fáeinum mínútum án þess að kalla fyrir einn einasta fulltrúa ábyrgðadeildar fiskeldislána né leita eftir umsögn frá einum eða neinum aðila. Ég sagði það í umræðunum að með þessu frv. væri verið að opna möguleika á því að bein útgjöld ríkissjóðs yrðu þrír milljarðar a.m.k. vegna þessa frv. Áður en umræðan hefst langar mig til þess að vita hvort þetta er rétt og hvort það er þá meiningin að fara að taka þetta frv. hér til afgreiðslu í kvöld án þess að fyrir liggi að nokkrir af þeim sem í stjórn þessarar stofnunar eru eða aðrir hafi fengið tækifæri til þess að koma skoðunum sínum á framfæri.
    Ég vildi aðeins fá þetta upplýst áður en umræðan hæfist svo ég viti hvernig ég á að haga mér í þessari umræðu.