Ábyrgðadeild fiskeldislána
Föstudaginn 15. mars 1991


     Matthías Bjarnason :
    Herra forseti. Þetta var afskaplega hógvær setning, síðasta setningin hjá hæstv. fjmrh. Hann vildi fá að vita hvernig hann ætti að haga sér. Ég verð að segja það að hann hefði gjarnan mátt spyrja að þessu töluvert fyrr og alveg sérstaklega hefði hann átt að spyrja að því þegar þetta mál var hér til 1. umr. og hann flutti sömu ræðuna þrisvar og fór þannig orðum um þessa atvinnugrein eins og þetta væru sakamenn sem hefðu átt hlut að máli. Hann gat ekki einu sinni lofað framleiðslunni að vera í friði. Hann gerði svo lítið úr henni að það var þjóðinni til skammar að slíkur maður var í ráðherrastól.
    Ríkisstjórnin er búin að hafa þetta mál til umræðu í allan vetur. Hæstv. forsrh. hefur sagt mér ekki einu sinni heldur margoft að hann væri að reyna að koma málinu fram. En það var ekki upplýst fyrr en við 1. umr. þessa máls hver sökudólgurinn var sem hefur legið á málinu. Það er fjmrh. og það vita allir. Maðurinn vill ganga af þessari atvinnugrein dauðri. Það eru til nógir peningar í ýmislegt annað hjá hæstv. fjmrh. Það eru ekki nokkur hundruð milljónir heldur fleiri milljarðar á mörgum sviðum. Það átti að afgreiða lánsfjárlögin fyrir jól. Þau komu úr Ed. og átti að knýja þau í gegn. Hvaða breytingu taka svo lánsfjárlögin eftir allt saman? Var verið að skera þau við nögl? Nei, það er verið að viðurkenna núna beina fölsun á fjárlögunum hjá þessum hæstv. ráðherra. Það er komið í ljós hvað þar hékk á spýtunni. Fjárhagsnefnd hv. Nd., sex nefndarmenn af sjö, leggur til að frv. verði samþykkt af því það er komið í tímaþröng fyrir það að haldið hefur verið uppi andstöðu við það innan ríkisstjórnarinnar að leysa á einhvern hátt úr þeim vanda sem þessi atvinnugrein stendur í. Sökudólgurinn er þarna. Maðurinn sem spyr núna hvernig hann eigi að haga sér. Það væri gaman ef þingmenn stæðu nú upp og reyndu að gefa honum einhverja leiðbeiningu um það hvernig hann ætti að haga sér í framtíðinni því aldrei hefur hann spurst fyrir um það.
    Ég sé enga ástæðu til að draga það lengur að afgreiða mál sem er búið að vera til meðferðar í fleiri mánuði. Þetta mál hefði verið tekið miklu fyrr og flutt hér í þingi, en á einn maður að klára það að stöðva mál? Það er hægt að stöðva ýmislegt annað hér á eftir og þá daga sem eftir eru af þinghaldinu. Það hefði verið miklu meira virði að afgreiða þetta mál fyrr í dag en að tala um þingsköp á þriðja tíma. Hér hefur stjórnarliðið verið að þvælast hvert fyrir öðru. Ráðherrar hafa verið að rífast dag eftir dag í þrennu lagi. Þetta hafa verið þrír flokkar og stundum fjórir. Ýmist hafa þeir verið sporléttir að koma af fundi, aðrir þungstígir. Líka hafa sést heilu flokkarnir. Það hefur verið dimmt yfir þeim í aðra röndina og síðan lifnað mikið yfir. Þingmenn stjórnarliðsins og ráðherrar hafa verið hér í hörkubisness að versla með lánsfjárlögin. Þingmenn hafa stillt sér upp á móti ríkisstjórninni, á móti einstökum ráðherrum, í að versla og verslunin hefur verið núna dag eftir dag og hún stendur enn þá yfir.

    Þetta er ekki líkt því að vera löggjafarsamkunda íslensku þjóðarinnar, virðulegasta samkunda þjóðarinnar sem hún á að vera. Þetta hefur fyrst og fremst snúist um það að versla og viðhafa hrossakaup þannig að Alþingi hefur orðið sér til stórrar skammar. Það eru þó enn þá til menn hér innan þingsins sem vilja ekki hafa þennan hátt á, vilja ekki standa í vegi fyrir því að mál komi til umræðu og afgreiðslu og þá ræður afl atkvæða hvort viðkomandi mál nær fram að ganga eða ekki. Það er legið á málum sem afgreidd eru, eins og mál sem hefur verið afgreitt hér ár eftir ár frá Nd. er stöðvað í Ed. Ég segi nú fyrir mitt leyti að bara út af því er fullkomin ástæða til þess að gera breytingar á stjórnarskránni og afnema deildaskiptinguna þegar deild með þriðjung þingmanna sest ár eftir ár á sama málið því það gæti nú verið hættulegt ef það skapaði aukin atvinnutækifæri á landinu. Þess vegna verður að liggja á því.
    Allt skipulag hér er gjörsamlega í molum. Þessi virðulega stofnun samþykkir lög um vinnutíma fólks, brýtur þau lög hvað eftir annað, kvöld eftir kvöld og dag eftir dag. Hér er orðið örþreytt starfslið, ég tala nú ekki um þreytuna í þingmönnum, enda er óróinn orðinn svo mikill að forseti deildarinnar er hvað eftir annað búinn að kvarta undan því og biðja menn að hafa færri fundi í einu og síðast núna rétt áðan. Þannig eru nú vinnubrögðin. Og svo stendur hæstv. fjmrh. upp í allri sinni hógværð og vill fá leiðbeiningu um hvernig hann eigi að haga sér. Nú skal ég renna á vaðið og segja honum það: Sjáðu eftir því að hafa flutt þessa vitlausu ræðu hér um daginn og hafðu mín ráð og sittu nú kyrr.