Ábyrgðadeild fiskeldislána
Föstudaginn 15. mars 1991


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Matthías Bjarnason, sem greinilega er nú ekkert orðinn þreyttur enn, talaði um verslun. Stærsti útgjaldapakkinn sem er til meðferðar á þinginu síðustu daga er í þessu frv., rúmir þrír milljarðar beint úr ríkissjóði, sem verða þá að koma inn í fjárlög á næstu þremur árum. Það má vel vera að þingið sé tilbúið til þess að bæta þremur milljörðum í ríkisútgjöldin með þeirri aðferð sem lýst er í þessu frv. en það á þá að gera það alveg skýrt.
    Þetta er frv. um það að ríkissjóður eigi að dæla í gegnum ábyrgðadeild fiskeldislána þremur milljörðum í fiskeldið. Það er ekki stafur í frv. um það hvaðan á að taka peningana, ekki stafur í frv. hvaðan á að taka peningana. Ég spurði að því hér: Hvaðan á að taka peningana? Ég nefndi það líka að með frv. er afnumið það skilyrði sem er í gildandi lögum að fyrirtækin sem fengju þessi lán eigi að hafa rekstrargrundvöll í framtíðinni. Það skilyrði er afnumið í þessum lögum. En meiri hluti nefndarinnar leggur það til að frv. sé samþykkt óbreytt, eða með öðrum orðum það á að fara að lána í fyrirtæki sem ekki hafa neinn rekstrargrundvöll í framtíðinni.
    Það er auðvitað rétt að það gerist ýmislegt hér síðustu dagana. En mér er til efs að menn hafi nokkru sinni fyrr farið með þingmannafrv. í gegnum þingið um útgjaldastærðir af þessu tagi, með jafnafdrifaríkar breytingar á máli sem hér var til umfjöllunar mánuðum saman, ábyrgðadeild fiskeldislána, þegar lögin voru sett. Það er afgreitt út úr nefndinni án þess að einn einasti kunnáttumaður eða ábyrgðarmaður þess starfs sem þarna hefur farið fram sé kallaður fyrir. Það er hvergi leitað upplýsinga í málinu í nefndinni. En ef það er virkilega þannig að það á að fara að beita þeim vinnubrögðum hér í þinginu til þess að löggilda útgjöld af þessu tagi þá verð ég sem fjmrh. að sinna þeim skyldum mínum að draga fram staðreyndir málsins. Það er það sem ég vildi fá að vita áður en þessi umræða hæfist. Ég óskaði eftir því að fá svar við því hvort það væri rétt að vinnubrögðin í nefndinni hefðu verið svona. Ég tel að ræða hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar beri vott um það að vinnubrögðin hafi verið svona. Það hafi enginn maður verið kallaður fyrir sem nálægt þessum málum hefur komið og svo er mönnum bara sagt hér að það sé best fyrir þá að þegja. Ég mun ekki gera það í umræðunni. Ég vildi bara gera það alveg ljóst áður en hún hæfist.