Ábyrgðadeild fiskeldislána
Föstudaginn 15. mars 1991


     Frsm. fjh.- og viðskn. (Ólafur Þ. Þórðarson) :
    Herra forseti. Hv. fjh. - og viðskn. hefur fjallað um þetta mál sem er í eðli sínu mjög einfalt þó að það sé mikilvægt. Nál. er þess vegna örstutt á þessa leið:
    ,,Nefndin hefur fjallað um frv. þetta sem ætlað er að bæta úr þeim vandamálum sem fiskeldisfyrirtæki eiga við að stríða. Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt.``
    Undir þetta nál. skrifa án fyrirvara Páll Pétursson, Jón Sæmundur Sigurjónsson, Guðný Guðbjörnsdóttir, Friðrik Sophusson, Matthías Bjarnason og Ólafur Þ. Þórðarson. Einn nefndarmanna skrifaði ekki undir.
    Hér hefur því verið haldið fram að með þessu frv. sé með sjálfvirkum hætti verið að taka þrjá milljarða úr ríkissjóði. Ég vil vekja á því athygli að þær breytingar sem verið er að gera eru á þann veg að í staðinn fyrir að ábyrgðadeild fiskeldislána fær nú að veita innlendum fiskeldisfyrirtækjum bústofnslán eða yfirtaka önnur lán, þá hafði hún áður rétt til ábyrgða.
    Og hvaða lið skyldi það vera sem völdin hefur og hver skyldi það nú vera sem mestu ræður samkvæmt þessu frv. sem hér er verið að fjalla um? Það kemur greinilega fram í 4. gr. frv. Vegna stóryrða er óhjákvæmilegt annað en að lesa 4. gr. Þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Fjmrh. skal skipa fimm menn í stjórnarnefnd, einn samkvæmt tilnefningu viðskrh., einn samkvæmt tilnefningu landbrh. og þrjá án tilnefningar og skal formaður skipaður úr þeirra hópi. Jafnframt skulu skipaðir fimm varamenn með sama hætti. Stjórnarnefndin fjallar um allar umsóknir um bústofnslán samkvæmt lögum þessum og afgreiðir þær á grundvelli ítarlegs mats á stöðu og rekstraröryggi viðkomandi fyrirtækis.``
    Ekki veit ég hver þeirra þriggja sem eiga að ráða þessum fimm mönnum er svo ábyrgðarlaus að það sé hægt að líta svo á að hann hafi það markmið að eyða þremur milljörðum úr ríkissjóði. Er það landbrh., sem skipar einn? Hann hefur ekki einu sinni völd til þess. Er það viðskrh., sem skipar einn? Hann hefur ekki heldur völd til þess. Er það þá fjmrh., sem skipar þessa þrjá, sem hefur áhuga á að standa þannig að verki? Ekki trúi ég því að þann veg sé skipað í fjármálaráðherrastól Íslands og ekki trúi ég því að þannig verði skipað í fjármálaráðherrastól Íslands.
    Hins vegar blasir það við að við Íslendingar höfum ekki staðið að fiskeldi með sambærilegum hætti og aðrar þjóðir. Annaðhvort stóðu þær þannig að því verki að í stofnlánum til fyrirtækjanna var tekið með að lána til þess lífmassa sem þyrfti að vera í stöðvunum svo að rekstur þeirra gæti snúist. Eða að veittar væru ríkisábyrgðir í gegnum t.d. Byggðastofnun, eins og í Noregi, eða að styrkir væru reiddir af höndum sem tryggðu það að fyrirtækin hefðu þann styrkleika að þau væru lánshæf. Án þessara atriða hefði fiskeldi Noregs aldrei farið af stað og aldrei orðið að þeirri atvinnugrein sem það er þar.
    Ég vil undirstrika það að þó að þeir séu vafalaust fróðir, sem hæstv. ráðherra hefur skipað til þeirra

starfa í ábyrgðadeildinni, og viti marga hluti þá vill nú svo til að fleiri aðilar hafa nokkra þekkingu á þessu sviði og það hlýtur að vera nokkurt matsatriði hvert menn sækja sér fróðleik í þessum efnum. Ég vil undirstrika að ég harma það mjög að ekki skuli hafa verið hægt að ræða æsingalaust um þetta mál.
    Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér um þann lífmassa sem er í stöðvum þeim sem ekki eru orðnar gjaldþrota og eðlilegur rekstur er á, því að það er búin að eiga sér stað mikil aftaka á þessu sviði, má segja sem svo að það harðasta heldur velli. Sú upphæð sem væri í ábyrgðum samkvæmt þessum lögum hjá Byggðastofnun, ef fyrirtækin kæmust í gegnum nálarauga skoðunarnefndarinnar, er eitthvað um 340 millj. Mjög væri nú gott ef hæstv. fjmrh. hlustaði líka á það sem sagt er. Gera má ráð fyrir að þar fyrir utan sé tvöföld sú upphæð. Þetta gæti því verið upp undir einn milljarður.
    Ég vil undirstrika það í þessu sambandi að við höfum komið okkur upp vissu afurðakerfi. Það afurðakerfi er svo dýrt að jafnvel þó að fyrirtækin væru með eðlilegan rekstrargrundvöll miðað við eðlilegar arðgreiðslur fjár, þá gætu þau ekki gengið miðað við það hvernig að þeim er búið. Það vill svo til að Byggðastofnun er ætlað það vandasama hlutverk að reyna að finna einhver lífvænleg atvinnutækifæri úti í hinum breiðu byggðum og oft á stöðum þar sem mönnum hefur þótt erfiðast að finna flöt á því að koma upp hagstæðum atvinnumöguleikum. Ég vil, með leyfi forseta, lesa hér upp álitsgerð frá fyrirtækjadeild Byggðastofnunar um stöðu Silfurstjörnunnar hf. í Öxarfirði:
    ,,Bráðabirgðaársreikningur Silfurstjörnunnar hf. liggur nú fyrir og sýnir hann hvernig reksturinn gekk á árinu 1990 og hvernig fjárhagsstaðan er í lok ársins 1990. Tekjur voru 33,3 millj. og 12,5 millj. kr. tap varð á rekstrinum. Fjárhagsstaðan eftir þann 31. des. 1990 í millj. kr.: Veltufé 111,1 millj., fastafé 248,4 millj. Samtals 359,5 millj. Skammtímaskuldir 90,8, langtímaskuldir 231,2, eigið fé 37,5 millj. Þrátt fyrir 12,5 millj. kr. tap á rekstrinum verður að taka tillit til mikilvægra atriða þegar endanlegt mat er lagt á reksturinn. Í fyrsta lagi voru birgðir fyrirtækisins, sem er lifandi fiskur, metnar með mikilli varkárni miðað við raunvirði og tryggingarmat. Í öðru lagi er fyrirtækið það ungt að enn er verið að byggja upp lífmassann í stöðinni sem hefur þau áhrif að söluverð afurða er lítið miðað við birgðir sem verið er að safna upp og því eru óvenju miklar duldar tekjur í fyrirtækinu sem ekki koma fram fyrr en við slátrun fisksins og eðlilegt jafnvægi verður á milli sláturmagns og birgða. Árið 1992 er fyrsta árið sem eðlileg ársslátrun verður og fyrr er afkoman ekki að fullu marktæk.
    Í ársreikningum eru birgðir metnar á 98,1 millj. kr. Tryggingarmat birgðanna er 145,6 millj. kr. sem er 47,5 millj. kr. hærra en gert er í ársreikningum og ef tryggingarmatið væri notað væri fyrirtækið rekið með 35 millj. kr. hagnaði. Ef birgðir eru metnar á raunvirði væru birgðir 23,8 millj. kr. hærra en nú er gert og hagnaður væri 11,3 millj. kr. Það eru því nokkuð

sterk rök sem benda til þess að Silfurstjarnan hf. sé rekin með hagnaði ef tekið er tillit til þess hvað birgðir eru lágt metnar miðað við raunvirði. Ástæðan fyrir því að birgðir eru metnar með mikilli varkárni er að fiskeldi er verulega frábrugðið og háð meiri óvissu en aðrar hefðbundnar framleiðslugreinar og reynsla er mjög takmörkuð hvað varðar framleiðslu og sölu afurða.
    Fjárhagsstaða fyrirtækisins er góð, veltufé er jákvætt og eigið fé er jákvætt um 10% af heildareignum. Langtímaskuldir fyrirtækisins eru ekki miklar miðað við 16 þús. kúbikmetra eldisrými og 400 -- 500 þús. sjógönguseiða framleiðslu. Um áramót hefur Silfurstjarnan slátrað um 88 þús. tonnum af fiski og hefur skilaverð verið um 25 millj. kr. Áætlað er að slátra á þessu ári um 500 tonnum af fiski að verðmæti um 140 millj. kr. Þegar framleiðslan er komin í fullan gang er áætlað að ársframleiðsla verði um 600 -- 700 tonn og að verðmæti 160 -- 190 millj. kr. Silfurstjarnan skiptir miklu máli fyrir byggðarlagið í nágrenni við Silfurstjörnuna hf. Hjá fyrirtækinu starfa um 20 manns og eru áætlaðar launagreiðslur á árinu 1991 um 31 millj. kr.
    Eitt aðalvandamál í íslensku fiskeldi hefur verið að framleiðslan hefur ekki gengið vel og verið miklu minni en reiknað hafði verið með. Silfurstjarnan hf. hefur hins vegar náð góðum árangri í fiskeldinu og hefur vöxtur fisksins verið meiri en dæmi eru til annars staðar, enda eru allar aðstæður til fiskeldis mjög góðar hjá Silfurstjörnunni hf.``
    Nú er það svo að þó að hér hafi verið sagt að íslenskur lax hafi ekki þá eiginleika sem hann þurfi að hafa vegna þess að kynbætur séu ekki nægilega langt á veg komnar, þess vegna sé hann allsendis óhæfur til ræktunar, þá blasir það við samkvæmt því sem hér er skrifað að það er ekkert sem kemur í veg fyrir að hægt sé að standa myndarlega að laxeldi og hefja á sama tíma að sjálfsögðu það sem hæstv. fjmrh. talaði um, laxakynbætur, sem byggjast á því að velja stærstu laxana m.a. og þess vegna er nokkuð ört hægt að ná meiri árangri í að fá stærri laxa sem ekki verða kynþroska jafnsnemma.
    Ég hef ekki hugsað mér á þessu kvöldi að láta raska ró minni með það að tala um þetta mál málefnalega. Hér eru mjög miklir hagsmunir í húfi fyrir íslenska þjóð. Mér er ljóst að það hafa verið gerð mörg mistök. En ef við horfum á það hvaða kröfur eru gerðar til peningagreiðslna frá fiskeldisfyrirtækjunum í gegnum afurðalánin, eins og okkar kerfi er, þá ætla ég að segja hæstv. fjmrh.: Ég efa að nokkurt einasta fyrirtæki í Noregi þyldi þær vaxtagreiðslur. Spurningin er aðeins þessi: Fást menn til að gera sér grein fyrir því að þetta mál er flutt af fullri ábyrgð? Vald fjmrh. er það mikið samkvæmt því frv. sem ætlunin er að verði að lögum, að hann er raunverulega eini maðurinn sem hefur stöðu til þess, eftir að búið væri að samþykkja þetta, að ráðast á það með slíku offorsi að hann gæti eyðilegt allt málið. Við viljum aftur á móti ekki trúa því, hvorki á hæstv. fjmrh. sem nú fer með það vald eða á fjmrh. sem hér munu verða í

framtíðinni, að nokkrum þeirra detti í hug að misbeita því valdi sem hér er lagt í þeirra hendur. Ég mælist undan því að hæstv. ráðherra beri það á borð fyrir þessa deild að menn séu að leggja það til að moka út úr ríkissjóði 3 milljörðum. Ég ætla aftur á móti að undirstrika það að ef menn nú gera ekkert, þá getur verið að Byggðastofnun ein haldi hörkunni og reki nokkur fiskeldisfyrirtæki. En þá er það spurningin: Er það þá yfirlýst stefna stjórnvalda að menn ætli sér með því afurðalánakerfi sem hér er að láta allt annað fiskeldi í landinu fara á höfuðið? Það teldi ég mikið gæfuleysi fyrir íslenska þjóð ef það yrði gert.