Ábyrgðadeild fiskeldislána
Föstudaginn 15. mars 1991


     Ólafur G. Einarsson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Ég skildi orð hæstv. fjmrh. hér áðan þannig að hann ætlaði hér að tala nokkuð langt mál. Af því tilefni vil ég segja þetta:
    Stjórnarandstaðan hefur lagt sig fram um það að greiða fyrir framgangi mála hér í þinginu undanfarna daga meðan allt hefur logað í illdeilum milli stjórnarliða. Stjórnarandstaðan hefur mjög ákveðnar meiningar um ýmis mál sem ætlunin er að afgreiða hér í þinginu á þeim stutta tíma sem eftir er og þrátt fyrir ákveðnar meiningar um þau mörg hver, þá er ekki ætlun stjórnarandstöðunnar að setja hér á langar ræður um þau mál mörg hver sem hún telur sig þó þurfa að segja eitt og annað um.
    Þetta mál sem hér er til umræðu er eitt þeirra mála sem stjórnarandstaðan, alla vega þingflokkur sjálfstæðismanna, hefur viljað fá afgreiðslu á. Við vitum auðvitað ekkert hver sú afgreiðsla verður hér í þinginu, hvort málið verður samþykkt, við erum ekki að tala um það, heldur að það gangi til eðlilegrar afgreiðslu. Og ég vil aðeins segja hæstv. ráðherra það að ef hann ætlar að koma í veg fyrir það, sem er náttúrlega ákaflega auðvelt á þessum síðustu tímum þingsins, með því að setja hér á langar ræður, þá verður því auðvitað svarað með viðeigandi hætti.
    Hæstv. forsrh. og forsetar þingsins vita alveg hvernig stjórnarandstaðan ætlar sér að standa að afgreiðslu þeirra mála sem hafa verið á óskalista hæstv. ráðherra. Stjórnarandstöðunni var hins vegar ekki gerð nein grein fyrir því að einstakir ráðherrar í ríkisstjórninni ætluðu að fara að setja á langar ræður um þau fáu mál sem stjórnarandstaðan hefur óskað sérstaklega eftir að yrðu rædd og tekin til eðlilegrar afgreiðslu hér í þinginu.
    Þetta vildi ég nú segja áður en hæstv. ráðherra tekur til máls í þessu máli.