Ábyrgðadeild fiskeldislána
Föstudaginn 15. mars 1991


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að nauðsynjalausu að ræða hér lengi um þetta mál. En ég vona að hv. þm. Ólafur G. Einarsson skilji það að þegar verið er að knýja fram hér í þinginu frv. um nýjar ríkisábyrgðir sem nema 3 milljörðum a.m.k. að dómi fjmrh. og þeirra ráðgjafa sem hann hefur í þessu máli, m.a. stjórnarmanna ábyrgðadeildar fiskeldislána, þá er eðlilegt að fjmrh. óski eftir að fá að ræða það mál. Ég lét t.d. í ljósi þá ósk hér við 1. umr. að hv. 1. þm. Reykv., bankaráðsmaður í Landsbankanum, yrði viðstaddur þessa umræðu vegna þess að ég vildi gjarnan fá að heyra hans sjónarmið vegna þess að það vita allir sem til þekkja að ein af meginástæðum þessa frv. er að bankinn þar sem þingmaðurinn er bankaráðsmaður, hefur hætt að lána eins og hann gerði áður og þess vegna er flutt frv. um að ríkissjóður fari að lána.
    Ég er þess vegna ekki að fara fram á neina langa umfjöllun sem slíka. En ég vil fá efnislega umfjöllun, hv. þm., og hlýt að eiga rétt á því að spyrja menn sem kosnir hafa verið til trúnaðarstarfa af hálfu Alþingis, eins og bankaráðsmenn í Landsbankanum, nokkurra spurninga, sérstaklega í ljósi þess að viðkomandi þingmaður er 2. flm. þessa frv. Þess vegna ætlaði ég að óska eftir því hér áðan í minni ræðu og vil því segja það strax að hv. þm. Friðrik Sophusson, 2. flm. þessa frv. og bankaráðsmaður í Landsbankanum, yrði viðstaddur þessa umræðu. Það tel ég óhjákvæmilegt.
    Ég er fyrst að heyra það núna hjá hv. þm. Ólafi G. Einarssyni að Sjálfstfl. geri kröfu til þess að þetta frv. verði afgreitt. Ég hef aldrei heyrt það fyrr. ( ÓE: Ráðherrann hefur ekki verið á þeim samráðsfundum sem haldnir hafa verið.) Nei, en ég er bara að segja, ég hef ekki heyrt það fyrr. Og að þetta sé orðið sérstakt kröfumál af hálfu stjórnarandstöðunnar eins og sagt var hér, þá finnst mér það merkilegt ef Kvennalistinn t.d. er með þetta sem sitt kröfumál að . . . (Gripið fram í.) já, af því að orðið ,,stjórnarandstaða`` var notað hér áðan. Og er nú málið þá orðið allsérkennilegt þegar fyrir því talar hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, sem er einn af trúnaðarmönnum ríkisstjórnarinnar í fjvn.
    Virðulegi forseti. Ég vil þess vegna segja það strax að ég ætla ekki að tala hér langt mál í því skyni að tefja málið en það er óhjákvæmilegt að fá svör við ákveðnum spurningum og að þeir menn, sem þingið hefur kosið til trúnaðarstarfa eins og hv. þm. Friðrik Sophusson, verði viðstaddir þessa umræðu. Það er æði oft gerð krafa til þess að ráðherrar séu viðstaddir umræður. Ég óska þess vegna eftir því að hv. þm. Friðrik Sophusson verði viðstaddur þessa umræðu og vona að þeirri ósk verði tekið vel.