Ábyrgðadeild fiskeldislána
Föstudaginn 15. mars 1991


     Matthías Bjarnason (um þingsköp) :
    Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð. Það er mjög óvenjulegt þegar mál er tekið til umræðu að ráðherrar biðji um orðið um þingsköp eins og gert var. Ég held að hæstv. fjmrh. sé búinn að flytja fjórar ræður um þingsköp út af þessu máli og síðast gerði hann kröfu til að bankaráðsmaður, Friðrik Sophusson, 1. þm. Reykv., væri hér viðstaddur vegna Landsbankans. Ég held að ég megi fullyrða það að bankaráð Landsbankans hefur enga ákvörðun tekið um rekstrarlánin. Það er bankastjórnin sem hefur tekið þá ákvörðun í raun og veru að stöðva öll rekstrarlán til laxeldis. Og það er enginn bankaráðsmaður í bankastjórn Landsbankans. Og það er einmitt vegna þess að Landsbankinn tekur þessa ákvörðun að hann telur að það sé ekki búið þannig að þessu fiskeldi sem þegar er eftir að það sé hægt að lána til þess. Ég er sannfærður um það að ef einhver breyting verður á eins og með bústofnslánin, þá mun bankinn og fleiri bankar endurskoða sína afstöðu.
    Ég bendi bara á það að þriðja aflahæsta fiskveiðiþjóð veraldar, Kínverjar, hafa lagt stund á fiskeldi, hvorki meira né minna en í 4000 ár, og þeir ætla enn að auka fiskeldi. Heildarafli þeirra á árinu 1987 verður 9 millj. tonna, þar af 4 millj. tonna frá fiskeldi. Og stefna stjórnvalda þar í landi er að heildaraflinn verði um aldamótin 18 millj. og þar af 70% fiskeldi.
    Út af því sem hæstv. ráðherra sagði hér um þingsköp vil ég segja það að við undirbúning þessa frv. hefur verið rætt við fjölmarga fiskeldismenn, bæði þá sem hafa orðið fyrir áföllum og hina sem enn þá starfa. Það er búið að ræða þessi mál við einstaka ráðherra. Mér er kunnugt um það að hæstv. landbrh. hefur mikinn áhuga á því að greiða úr þessum fiskeldismálum. Þetta mál er ekki flutt af þingmönnum Sjálfstfl. einum. Þetta mál er flutt af níu þingmönnum í hv. þingdeild, auk Sjálfstfl. þingmönnum frá Framsfl., Alþfl., Kvennalista og Stefáni Valgeirssyni svo að það er allvíðtæk samstaða sem hefur skapast um þetta mál.
    Ég vona að hæstv. forsrh. sé í húsinu og geti verið hér við þessa efnislegu umræðu því að hann hefur margsinnis sagt mér að hann hafi mikinn áhuga á því að greiða fyrir þessu. Nú er þessi grein komin í þá sjálfheldu að annaðhvort á hún að lifa eða deyja. Á þetta þá að vera eina þjóðin, sem hefur varið miklum fjármunum til fiskeldis, sem ætlar að hætta í miðjum klíðum? Á sama tíma og ástand fiskstofnanna er jafnalvarlegt og við heyrum frá degi til dags. Á hverju ætlum við þá að lifa í framtíðinni ef við ætlum ekki að þrauka þrátt fyrir þessi áföll? Af hverju var haldið áfram að veiða síld eftir að velflestir síldarsaltendur fóru á hausinn eftir fyrri styrjöldina? Af hverju hefur verið haldið áfram að gera út eftir að útgerðarfélögin hafa farið á hausinn hvert á fætur öðru í gegnum tíðina? Það hefur verið vegna þess að þetta er auðlind sem við höfum lifað á en hún hefur líka tekið af okkur ýmislegt, en fært okkur svo aftur nokkrum árum seinna það mikið að þjóðin hefur fyrst og fremst

á þessu lifað.
    Ég trúi því ekki að nokkur íslenskur ráðherra eða alþingismaður sé svo illa á vegi staddur að hann telji að það eigi að loka fyrir þessa atvinnugrein með þessum hætti. Ég gætti þess vandlega, eins og hv. 2. þm. Vestf. gat um í framsögu sinni fyrir þessu nál., að hreyfa hvergi við aðild fjmrh. að stjórn þessa ábyrgðasjóðs þannig að fjmrh. er auðvitað eftir sem áður valdamaðurinn. Og ég skil ekki hvernig talan um 3 milljarða er til komin. Það er hægt að gera ýmislegt til varnar þessari atvinnugrein þó að það sé lægri upphæð en 3 milljarðar og það miklu lægri.