Félagsþjónusta sveitarfélaga
Mánudaginn 18. mars 1991


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Helsta markmið nefndarinnar sem samdi frv. þetta er að félagsþjónusta sveitarfélaga megi tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar. Skal það gert með því að bæta lífskjör þeirra sem standa höllum fæti, tryggja þroskavænleg uppeldisskilyrði, veita aðstoð til þess að íbúar geti búið sem lengst í heimahúsum, stundað atvinnu og lifað sem eðlilegustu lífi og með því að grípa til aðgerða sem eru til þess fallnar að koma í veg fyrir félagsleg vandamál.
    Markmiðum þessum hugðist nefndin sem samdi frv. ná með því að setja lagaramma um þá fjölbreytilegu félagsþjónustu sem nú er veitt í öllum stærri sveitarfélögum landsins þannig að sams konar þjónusta verði veitt um land allt svo jafnræði megi ríkja. Til þess að svo geti orðið þarf heildstæða félagsmálalöggjöf sem felur í sér alla þætti félagsþjónustu sveitarfélaga. Slík löggjöf er einnig nauðsynleg til þess að ýta undir þá sýn að félagsleg aðstoð sveitarfélaga felist ekki í framfærslunni einni saman heldur felur í sér margháttaða þjónustu sem flestir þurfa á að halda einhvern tímann á lífsleiðinni.
    Meðan við búum hins vegar við framfærslulög sem eru undirstöðulöggjöf á sviði félagsmála sveitarfélaga ýtir það undir þá hugsun að félagsleg aðstoð af hálfu sveitarfélaga sé eingöngu ætluð til að bæta úr fátækt og felur jafnvel í sér vissa niðurlægingu. Sú forna hugsun skýtur þó skökku við ef tekið er mið af félagslegri aðstoð af hálfu ríkisins svo sem almannatryggingum, atvinnuleysistryggingum og fleira, en þar er hinn forni hugsunarháttur fyrir löngu lagður fyrir róða og almenn velferðarsjónarmið nú viðurkennd. Úr þessu er frv. ætlað að bæta, þ.e. að stuðla að því að félagsleg þjónusta sveitarfélaga verði viðurkennd sem nauðsynlegur hlekkur í velferðarkerfi þjóðfélagsins. Í þessu samhengi má og geta þess að hin Norðurlöndin hafa fyrir mörgum áratugum fellt úr gildi sín framfærslulög og öll nema Noregur sett sér heildstæða löggjöf um félagsþjónustu sveitarfélaga.
    Af þessu yfirliti má ljóst vera að hér er brýnt mál á ferðinni, málaflokkur sem dregist hefur stórlega aftur úr hvað nýsmíði í löggjöf viðvíkur. Er því löngu orðið tímabært að staðið verði myndarlega að málum og lagður grunnur að nútímalegri félagsmálalöggjöf sveitarfélaga, löggjöf sem í grundvallaratriðum hafnar hinum gömlu framfærsluviðhorfum en byggir þess í stað á því að félagsþjónusta sveitarfélaga er almenn þjónusta, öllum ætluð.
    Helstu nýjungar sem lagðar eru til með frv. þessu eru eftirfarandi:
    Frv. felur í sér nýja sýn í félagsþjónustu og er það grundvallaratriðið að baki þess. Þau viðhorf finnast enn að félagsþjónusta sveitarfélaga sé neyðarúrræði og ætluð afmörkuðum hópi sem orðið hefur undir í lífsbaráttunni. Í frv. er þessari sýn algjörlega hafnað en í hennar stað lögð áhersla á þá staðreynd að félagsþjónusta sveitarfélaga felur í sér margháttaða þjónustu sem ætlað er að koma til móts við ólíkar þarfir íbúanna. Í augum margra felur félagsþjónusta sveitarfélaga eingöngu í sér framfærsluaðstoð sem er angi af fátækrahjálp fyrri tíma. Erfitt hefur reynst að uppræta þann misskilning. Raunin er hins vegar sú að fjárhagsaðstoð er einn liður í víðtækri aðstoð við einstaklinga og fjölskyldur, þ.e. aðstoð í atvinnumálum, dagvistarmálum, barnaverndarmálum og húsnæðismálum, auk almennrar félagslegrar ráðgjafar. Þannig má segja að félagsmálastofnun sé eini aðilinn í þjóðfélaginu sem fæst við fjölskylduvernd. Mikill ókunnugleiki virðist ríkja um það hve fjölbreytileg þjónusta hér er á ferðinni, þjónusta sem flestir þurfa á að halda einhvern tímann á lífsleiðinni, svo sem heimaþjónusta og dagvist barna. Einnig að á vegum sveitarfélaga fer fram mikilvægt forvarnastarf bæði í málefnum barna og unglinga. Mikilvægt er að skipan félagsþjónustunnar sé með þeim hætti að ekki sé stuðlað að aðskilnaði almennrar þjónustu og aðstoðar við fólk sem á í félagslegum vanda. Slíkt getur orðið til þess að skapa sérstakar vandamálastofnanir og er afar niðurlægjandi fyrir þá sem þangað þurfa að leita.
    Með heildstæðum rammalögum um alla þætti félagsþjónustu sveitarfélaga er leitast við að ýta undir þá sýn að hér er um jafnsjálfsagðan þátt í velferðarþjóðfélagi að ræða og velferðarkerfi ríkisins býður upp á, svo sem almannatryggingar, heilbrigðisþjónustu og skóla. Heildstæð löggjöf um þetta efni getur verið fyrsta skrefið í átt til þess að viðurkennt verði að félagsleg þjónusta sveitarfélaga er einn liður í velferðarkerfi samfélagsins. Einnig verður þá fyrst hægt að vinna markvisst að félagsmálastefnu sem á að vera jafnsjálfsögð og stefna í heilbrigðis- og skólamálum.
    Með hinni nýju sýn er hugsunarháttur fátækraframfærslu og sveitarfesti lagður fyrir róða, hugsunarháttur sem hér hefur ríkt frá því land byggðist. Réttur til þjónustu verði ávallt í því sveitarfélagi þar sem einstaklingur á lögheimili án þess að fortíð hans sé athuguð sérstaklega eins og núgildandi sveitarfestiákvæði bjóða upp á. Öll þjónusta verði réttur fólks, jafnt fjárhagsaðstoð sem önnur þjónusta, og miðast við mat á aðstæðum eftir þeirri reglu sem sveitarfélög setja sér innan ramma laganna.
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv. Ég legg til að því verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.