Lánsfjárlög 1991
Mánudaginn 18. mars 1991


     Frsm. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. (Friðrik Sophusson) :
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. 2. minni hl. í þessu máli, sem er lánsfjárlög íslenska ríkisins fyrir árið 1991. Ásamt mér skipar 2. minni hl. hv. þm. Matthías Bjarnason.
    Það er ljóst af afgreiðslu þessa máls að um gífurlega aukningu lánsþarfar verður að ræða hjá íslenska ríkinu á yfirstandandi ári miðað við fyrri áætlanir og enn fremur liggur í augum uppi að ríkisumsvif eru að aukast verulega.
    Það mál sem hér er til umræðu hefur tafist verulega hjá nefnd. Síðustu vikurnar er það fyrst og fremst vegna þess að um verulegan ágreining hefur verið að ræða innan ríkisstjórnarflokkanna. Hefur sá ágreiningur nú verið opinberaður annars vegar á miðstjórnarfundi Framsfl. sem haldinn var á laugardaginn var og hins vegar hér í þingsölum með því að hv. meiri hl. stjórnarliðsins sem er í fjh.- og viðskn. hefur klofnað í veigamiklu máli, kannski veigamesta málinu sem er framhald álmálsins. Í ljós kemur að stjórnarsinnar treystast ekki til að flytja sömu tillöguna heldur liggja fyrir ólíkar tillögur á mismunandi þskj., annars vegar frá hv. þm. Ragnari Arnalds og hins vegar frá hv. þm. Framsfl. og Alþfl. Það er rétt að það komi fram strax hér í upphafi að í hv. nefnd bauðst ég til að kanna það í mínum þingflokki hvort áhugi væri á því hjá hv. þm. framsóknarmanna og alþýðuflokksmanna að mynda meiri hl. í nefndinni um þetta mál en slíkt boð var afþakkað á nefndarfundinum.
    Það væri full ástæða til að fara mörgum orðum um ágreining stjórnarflokkanna í álmálinu en það sem nú hefur gerst er það að til þess að þóknast hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni, 2. þm. Austurl., virðist hans þingflokkur, þingflokkur Alþb., hafa ákveðið að gera brtt. við eina grein lánsfjárlagafrv. þar sem um er að ræða heimild fyrir fjmrh. og Landsvirkjun að taka lán til þess að fara í framkvæmdir vegna fyrirhugaðra virkjana vegna álvers á Keilisnesi. Þar með hefur það verið opinberað að um verulegan ágreining er að ræða. En vegna þess að Framsfl. veit ekki í þessu máli frekar en í svo mörgum öðrum í hvorn fótinn hann á að stíga hefur formaður Framsfl., sjálfur forsrh. hæstv., ákveðið að segja sína skoðun á þessu máli með mjög eftirminnilegum hætti sem fjölmiðlar hafa nú um helgina verið að tíunda aftur og aftur. Boðskapur hæstv. forsrh. er að hæstv. iðnrh. hafi einn og sér verið að laumast með þetta mál og þótt það sé alkunna að hæstv. iðnrh. sé dugnaðarmaður þá hefði það verið málinu meira til framdráttar ef hann hefði haft samráð við aðra hæstv. ráðherra í ríkisstjórninni.
Þannig mátti skilja boðskap hæstv. forsrh. sem síðan fékk mjög skýr svör frá hæstv. iðnrh., svör sem áttu að þýða það að ekki væri þetta mjög af heilindum mælt af hálfu hæstv. forsrh., enda hefði forsrh. alla tíð fengið vitneskju um það hvað þessu máli liði.
    Það virðist vera áberandi í hæstv. ríkisstjórn að hæstv. ráðherrar hafi hug á því að undirstrika það, sem er almælt, að hæstv. iðnrh. hafi mikið borist á í

þessu máli, safnað undirskriftum, auglýsingum, haldið blaðamannafundi og gefið út fréttatilkynningar, en í raun og veru hafi harla lítið verið á bak við þessar aðgerðir hæstv. iðnrh. efnislega. Nú þegar nær dregur kosningum og Alþfl. ætlar að gera þetta að stærsta kosningamáli sínu í Reykjaneskjördæmi, þá virðist það fara mjög fyrir brjóstið á samráðherrum hæstv. iðnrh. og hámarkið er þegar hæstv. forsrh. sendir þetta skeyti til hæstv. iðnrh. sem hann gerði á miðstjórnarfundi Framsfl. sem haldinn var á laugardaginn.
    Auðvitað eru ýmsar skýringar á þessu háttalagi hæstv. ráðherra. Það þarf ekki annað en benda á að hæstv. iðnrh. leyfði sér í útvarpsumræðum sl. fimmtudag að nefna til sögunnar að til greina kæmi að leggja á auðlindaskatt. Jafnframt hefur hann í vetur verið óþreytandi við að benda á þá staðreynd að í raun og veru er það hæstv. ríkisstjórn sem stendur að því að halda vöxtunum uppi hér á landi. Hæstv. viðskrh., sem jafnframt er iðnrh., hefur verið óþreytandi við að skýra það út fyrir hæstv. forsrh. og reyndar öðrum hæstv. ráðherrum að Seðlabankinn hafi rétt fyrir sér þegar hann undirstrikar mjög rækilega að hin mikla lánsfjárþörf íslenska ríkisins, bæði ríkissjóðs og annarra opinberra aðila, veldur því að vaxtastigið hér er mun hærra en það þyrfti að vera. Þessu unir ekki hæstv. forsrh. og nú hefur hann hafið gagnsókn. Gagnsóknin er í því fólgin að benda á nokkrar staðreyndir í sögu álmálsins, einkum þær að hæstv. iðnrh. hafi stundum sagt meira en hann hafði ástæðu til.
    Jafnframt fer það mjög fyrir brjóstið á ýmsum samráðherrum hæstv. iðnrh. að hæstv. iðnrh. hefur alla tíð þóst vinna öll sín afrek einn saman en ekki þurfa á aðstoð annarra að halda. Reyndar hefur Alþýðublaðið mjög tekið undir þessi sjónarmið ráðherrans, hælt honum á hvert reipi og þarf ekki annað en rifja upp margnefnda leiðara þar sem hæstv. iðnrh. er hælt með þeim hætti að menn hljóta að fyllast lotningu ef þeir sjá ekki í gegnum oflofið og átta sig á því að í raun er þetta allt saman grín. (Gripið fram í.) Ég held að þótt hv. 2. þm. Austurl. hafi unun af því að heyra mig mæra hæstv. iðnrh., þá láti ég honum það eftir að fá að berja þetta augum og njóta þess þess vegna bæði að horfa á textann og hlýða á hann þegar hann fær tækifæri til að lesa hann hér í ræðustól síðar í þessari umræðu, því að ekki efast ég um það að hv. þm. ætlar að taka til máls í þessu máli, svo mjög sem hann hefur þanið sig um álmálið, svo mjög sem hann hefur rætt um sjónarmið sín í álmálinu að undanförnu.
    Það sem þess vegna þarf að undirstrika hér strax í upphafi þegar mælt er fyrir þessu frv. og reyndar fyrir nefndarálitum er að það kemur í ljós að það er bullandi ágreiningur á milli stjórnarflokkanna í ýmsum mjög mikilvægum málum. Nú er það eins og brandari að horfa á þáltill. hæstv. iðnrh. þar sem sjálfur ályktunartextinn skiptir að sjálfsögðu ekki nokkru máli. Það hefur enga þýðingu hvort tillagan er samþykkt eða ekki. Auðvitað getur hæstv. iðnrh. haldið áfram viðræðum við hina erlendu aðila og Sjálfstfl. hefur að sjálfsögðu stutt hann í því því að hér er um

að ræða mál sem Sjálfstfl. vakti á sínum tíma. ( HG: . . . Alþingi samþykki ekki tillöguna.) Ég held að það skipti engu máli hvort tillagan er samþykkt eða felld. Það eina sem skipti máli í þeirri tillögu var greinargerðin sjálf og í henni var getið um tvær tillögur sem manni skildist að hæstv. ríkisstjórn hefði samþykkt. Í ljós hefur komið að það var ekkert samkomulag innan hæstv. ríkisstjórnar um þær tvær tillögur sem finna mátti í greinargerð með þáltill. því að nú hafa þær tekið breytingum í meðferð meiri hlutans, þ.e. í tillögum hv. þm. Framsfl. og Alþfl., í brtt. við lánsfjárlagafrv., og enn ný versjón kemur fram hjá hv. þm. Ragnari Arnalds sem flytur brtt. við þessa brtt.
    Með öðrum orðum hefur enn á ný sannast að hæstv. iðnrh. hefur komið fram með mál sem ekkert er á bak við, ekkert nema auglýsingin ein. Því miður verður að staðfesta þessa staðreynd hér og segi ég þetta ekki vegna þess að ég sé andvígur því máli sem um er að ræða, heldur þvert á móti hlýt ég að hryggjast yfir því að þannig skuli vera haldið á málum að jafnvel sé þessu stórmáli stefnt í hættu. Mér er kunnugt um það frá fyrri tíð hve mikilvægt það er og veit það reyndar með því að fylgjast með þessu máli að Íslendingar geta bætt sín lífskjör með því að breikka undirstöðurnar í atvinnulífinu. Álmálið er eitt af þeim málum sem þarf að taka á í því sambandi og það er vissulega ekki góðs viti þegar innan hæstv. ríkisstjórnar ríkir sá glundroði sem sannast í þessu máli.
    Álmálið, vextirnir og sjávarútvegsmál eru ekki einu málin sem hæstv. ráðherrar og hv. stjórnarþingmenn deila um. Ég nefni einnig til sögunnar landbúnaðarmál en hv. frsm. meiri hl. fjh. - og viðskn. varð um helgina frægur af því að fara gegn sjónarmiðum hæstv. landbrh. og taldi að sá samningur sem nú liggur fyrir fari mjög gegn hagsmunum bænda, a.m.k. þeirra bænda sem stunda sauðfjárbúskap. Öllum má því vera ljóst og ég held að það sé nauðsynlegt að það komi fram við upphaf þessarar umræðu að innan ríkisstjórnarinnar virðist ekki vera samstaða um nokkurn skapaðan hlut og virðist þessi hæstv. ríkisstjórn vera að leysast upp í öreindir sínar.
    Áður en ég vík að sjálfu nál. langar mig til að benda á að þrátt fyrir þær tillögur sem meiri hluti nefndarinnar flytur er ljóst að enn vantar verulega á að lánsfjárlögin ásamt fjárlögunum endurspegli fjárþörf og útgjaldaáætlun ríkisins. Í þessu sambandi vil ég sérstaklega benda á að fulltrúar hæstv. fjmrh. og hæstv. menntmrh. í Lánasjóði ísl. námsmanna komu á fund nefndarinnar og sögðu þar skýrt og skorinort að ef Lánasjóður ísl. námsmanna ætti að lána námsmönnum með sömu reglum og nú gilda, þá vantaði hvorki meira né minna en 300 millj. í Lánasjóð ísl. námsmanna. Þetta er sagt á sama tíma og hæstv. menntmrh. leyfir sér á kostnað íslenska ríkisins að senda út bréf til allra þeirra sem taka lán og skulda sjóðnum að nú sé þjóðarsátt um Lánasjóð ísl. námsmanna. Ef eitthvað er tvískinnungur, þá er það tvískinnungur að segja nú rétt fyrir kosningar að það sé búið að tryggja það að Lánasjóður ísl. námsmanna geti lánað námsmönnum það sem eftir lifir ársins eins

og hingað til hefur verið gert þegar ljóst er og liggur á borðinu að fulltrúar hins sama hæstv. ráðherra nefna það til sögunnar að það vanti hvorki meira né minna en 300 millj. til þess að áætlanir geti staðist.
    Þá langar mig til að minna á það að ekkert er getið um fjárþörf ríkisspítala í tillögum meiri hlutans ef frá er talin tillaga um tölvukaup. Það er nauðsynlegt að það komi fram að það vantar líklega um 150 millj. til viðbótar við þessi tölvukaup til þess að spítalinn geti verið rekinn eins og áætlanir standa til og er ekki verið að tala um það þá að opna allar deildir spítalans nema síður sé.
    Það kemur fram í tillögum Kvennalistans, einu tillögunni sem Kvennalistinn flytur, að Kvennalistinn leggur til að fallið verði frá skerðingarákvæði því sem gildir um framlög í Framkvæmdasjóð Ríkisútvarpsins. Ef sú skerðing félli niður mundi Ríkisútvarpið fá 100 -- 150 millj. kr. á að giska í Framkvæmdasjóð. Ég lýsi yfir stuðningi við þessa tillögu, ekki síst vegna þess að mörg undanfarin ár hafa ráðherrar, ekki síst menntmrh., lýst því að í raun og veru sé það lífsnauðsynlegt að byggja nýtt mastur fyrir langbylgjuútsendingar í stað mastursins á Vatnsenda, enda gæti það fokið í næsta roki. Þessu var lýst mjög gaumgæfilega á fundum nefndarinnar. Reyndar man ég nú svo langt aftur að þegar ég sat í útvarpsráði fyrir nokkrum áratugum voru fluttar margar ræður af hálfu starfsmanna Ríkisútvarpsins. Ég man ekki síst eftir Guðmundi Jónssyni, þá framkvæmdastjóra, sem sagði að á næsta hvassviðrisdegi mundi mastrið fjúka út í veður og vind og þá væri öryggi Íslendinga stefnt í hættu.
    Nú gerðist það einn góðan veðurdag, eins og einn ágætur maður sagði, að mastrið fauk, eins og ákveðinn maður orðaði það við mig um daginn, og þá vildi svo til að áliti hæstv. ráðherra að hlustunarskilyrðin bötnuðu svo mikið að fallið var frá þeirri kröfu hæstv. menntmrh. að leggja nokkur hundruð milljóna í það að byggja og reisa nýtt mastur.
    Mér þykja þetta svo frábær töfrabrögð að maður fer að hugsa til þess hvort hér sé ekki komið eitt besta og mesta hagstjórnartækið, þ.e. vindurinn, hvassviðrið, þegar í ljós kemur að hægt er að falla frá nokkur hundruð millj. kr. fjárveitingu til mastursins. En það mun vera álíka há tala eins og nú er inni í lánsfjárlagabreytingartillögunum og snúa að RARIK, Orkubúi Vestfjarða og Landspítalanum. Það mun vera eitthvað um 350 millj. sem þarf til þess að greiða fyrir skemmdir sem urðu vegna ofviðrisins hjá þessum aðilum.
    Nú má vera að niðurstaðan verði sú að Ríkisútvarpið fái ekkert á yfirstandandi ári og sjálfsagt eru stjórnarliðar líklegastir til þess að fella þessa tillögu sem fyrir liggur um að hverfa frá skerðingarákvæðinu, en mér er sagt af ábyrgum mönnum að þrátt fyrir þann ágreining sem upp hefur komið um það hvort hægt sé að nýta sér aðra og nýrri tækni en þá sem var og menn hafa verið að gæla við að halda áfram að nota varðandi útsendingar á langbylgjunni, þá er ljóst að það er sama til hvaða ráða þarf að grípa. Slík

ráð kosta a.m.k. 150 millj., líklega miklu hærri upphæð. Það sem hins vegar tefur þetta mál er það að nú er starfandi nefnd á vegum Pósts og síma, Ríkisútvarpsins og fleiri aðila sem ætlar að skoða málið og mun það tefja málið um skeið. Ég hef hins vegar eins og margir aðrir miklar áhyggjur af því að Ríkisútvarpið og Póstur og sími fái ekki fjármuni til þess að reisa þetta mastur. Því að vissulega er það grundvallaratriði og raunar ein af örfáum forsendum þess að menn vilji styðja Ríkisútvarpið með beinum hætti og skattskyldu allra, að Ríkisútvarpið sinni öryggis - og menningarskyldu sinni. Það er þess vegna ábyrgðarhluti fyrir hæstv. ríkisstjórn að hverfa ekki frá skerðingarákvæðinu og bendi ég á að meiri hl. hv. nefndar var inni á því að fella burtu skerðingarákvæðið þar til tilmæli bárust frá yfirvöldum um að fresta því um sinn.
    Það er þess vegna ljóst að hæstv. ríkisstjórn Íslands ber fulla ábyrgð á því ef framkvæmdir tefjast við að koma öryggismálum vegna útvarpsins í lag. Það er hæstv. ríkisstjórn Íslands sem ber fulla ábyrgð á afleiðingum þess. Það er nauðsynlegt að þetta komi fram því að svo kann að verða að síðan vilji hæstv. ríkisstjórn firra sig ábyrgðinni. Það liggur fyrir og það segja talsmenn Ríkisútvarpsins að það eru full not fyrir þá fjármuni sem mundu koma inn af tollum og aðflutningsgjöldum af sjónvarps - og útvarpsviðtækjum til þess að byggja upp öryggistæki vegna útsendingar útvarpsins.
    Það vantar ugglaust fleiri atriði, virðulegi forseti, í þetta frv. og ég býst við að þeim verði lýst frekar í umræðunum sem hér fara á eftir.
    Það kemur í ljós þegar stofnanir íslenska ríkisins eru spurðar um áhrif af samþykkt þess frv. sem hér liggur fyrir að Seðlabanki Íslands, sem gefur ráð og álit um fjármál og lánsfjármál, telur að það sé nánast vonlaust að ná þeim fjármunum á innlendum lánsfjármarkaði sem hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að ná á yfirstandandi ári. Þjóðhagsstofnun bendir á að samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum um afgreiðslu á frv. þurfi íslenska ríkið að taka tvær krónur af hverjum þremur af nýjum sparnaði á yfirstandandi ári til eigin nota vegna hallareksturs og augljóst sé að slíkt þrengi mjög um aðra á lánsfjármarkaðinum sem annaðhvort verði til þess að vextir stórhækka eða, sem líklegra er, að taka verði lán á erlendum markaði eins og hæstv. ríkisstjórn reyndar neyddist til að gera á sl. ári.
    Það væri vissulega ástæða til þess að fara hér fleiri orðum um þá stefnu stjórnvalda að taka lán einungis á innlendum markaði og gera mikið úr því að það sé til fyrirmyndar á sama tíma og hæstv. viðskrh. til að mynda veitir ýmsum fyrirtækjum í landinu heimild til þess að fara á erlendan lánsfjármarkað og taka lán þar. Í raun og veru sjá allir menn að það skiptir ekki máli hverjir taka lán erlendis. Aðalatriðið eru heildarlánin sem tekin eru hérlendis og erlendis. Ég þekki það úr bankakerfinu að það hefur verulega farið í vöxt að undanförnu að hæstv. ríkisstjórn hefur bent fyrirtækjum, sem hafa þurft á verulegum fjármunum að halda vegna reksturs síns, á að fara til bankanna

og síðan hafa forstöðumenn fyrirtækja mætt hjá bankastjórum með uppáskrifaðar heimildir frá hæstv. viðskrh. um það að þeir hafi heimildir til þess að taka lán erlendis.
Það er auðvitað leikfimi þegar málum er hagað þannig að ríkissjóður rembist við það að ná öllum tiltækum krónum á innlenda lánsfjármarkaðinum en sendir síðan fyrirtæki, sem þurfa á peningum að halda, til útlanda. Þetta er sú fjármálastjórn og sú efnahagsstjórn sem Íslendingar þurfa að þola nú um þessar mundir.
    Það sem auðvitað skiptir máli er að það hefur verið þannig á undanförnum árum að hægt hefur verið að fjármagna lánsfjárþörf opinberra aðila á innlendum lánsfjármarkaði vegna þess að atvinnulífið hefur verið í lægð, vegna þess að flest fyrirtækjanna hafa ekki haft burði til þess að fjárfesta. Stefna ríkisstjórnarinnar hefur ekki verið á þann veg að liðka til fyrir fyrirtækjum til að fjárfesta. Stefna ríkisstjórnarinnar hefur ekki leitt til hagvaxtar, ekki leitt til betri lífskjara, heldur hefur hæstv. ríkisstjórn þvert á móti rekið ríkissjóð með bullandi halla og haldið þannig uppi háum vöxtum. Þetta er lýsing á því kyrrstöðutímabili sem hér hefur ríkt að undanförnu og það er full ástæða fyrir okkur nú fyrir kosningar að átta okkur á því hvort Íslendingar vilji þetta kyrrstöðutímabil áfram eða hvort þeir vilja komast á framfarabraut.
    Ef litið er á þskj. 1005, sem eru brtt. meiri hl. nefndarinnar, þá vil ég nefna hér örfá atriði. Ég vil benda á 1. gr. Þar hefur það orðið niðurstaðan sem stendur í töluliðum 1, 2 og 3, eftir langvarandi slagsmál á milli stjórnarflokkanna sem enduðu með þeirri bræðrabyltu að hver fékk eitthvað í sinn hlut. Ég bendi á að í 2. brtt., þar sem segir 3 milljarðar verði 3,4 milljarðar, er Landsvirkjun heimilað að taka 400 millj. kr. lán vegna þess að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki fallist á eðlilegar gjaldskrárhækkanir fyrirtækisins og leyfir fyrirtækinu þannig ekki að fjármagna fjárfestingar úr eigin rekstri eins og full ástæða hefði verið til. Það má þess vegna halda því fram að þessar 400 millj. kr. séu í raun og veru fjármunir sem komi vegna þess að fyrirtækinu sé ekki leyft að hækka gjaldskrána eins og eðlilegt er. Þetta hlýtur að kalla á frekari gjaldskrárhækkun síðar og er mjög í takt við aðrar tillögur núverandi stjórnvalda, þ.e. að fresta öllu þar til eftir kosningar.
    Í 11. brtt. er um nokkra liði að ræða. Fyrst eru 1700 millj. kr. vegna búvörusamnings. Það hlýtur að vekja athygli að fyrsti flm. þessarar brtt. er hv. 1. þm. Norðurl. v., sá sem flutti ræðu á miðstjórnarfundi Framsfl. um þetta mál og taldi það nánast hneyksli að afgreiða búvörusamninginn. Nú kemur hann hér sem fyrsti flm. þessarar tillögu sem er staðfesting á því að því verði fylgt sem segir í búvörusamningnum. Ekki heyrði ég hv. þm. endurflytja hér ræðu sína, sem hann flutti hjá framsóknarmönnum, þegar hann fylgdi úr hlaði nál. meiri hl. Ég beið reyndar spenntur eftir því að hann skýrði betur út það sem hann sagði þar, en af einhverjum ástæðum kaus hann að gera það ekki. Það væri vissulega fengur að því að hv. þm. skýrði betur sín sjónarmið í þessari umræðu hér. Vissulega

væri gaman að því líka að hæstv. viðskrh., sem skýst stundum inn í sal og á milli dyra, eða einhver af alþýðuflokksmönnunum kæmi hér upp og skýrði það út fyrir þingheimi hvers vegna þeir standi að þessum búvörusamningi eftir öll þau orð sem fallið hafa úr þeirra munni, bæði fyrr og nú, um siðleysi þess að samþykkja slíkan samning rétt fyrir kosningar.
    Ég bendi á að í b-lið 11. tillögunnar er um að ræða yfirtöku á skuldum Byggðastofnunar. Auðvitað hefði verið miklu hreinlegra að Byggðastofnun hefði fengið framlag úr ríkissjóði. Með því að yfirtaka skuldirnar er verið að fela það sem gerist í raun því þetta framkallar ekki fyrr en síðar útgjöld ríkissjóðs en eykur að sjálfsögðu verulega skuldir ríkissjóðs þegar um er að ræða þessa yfirtöku á lánum.
    Að öðru leyti, virðulegi forseti, sé ég ekki ástæðu til þess að ræða frekar þessar tillögur sem liggja fyrir en það eru fluttar sérstakar tillögur á öðrum þskj. Ég bendi á það, af því að hæstv. iðnrh. er hér í salnum, að þar hefur stjórnarmeirihlutinn klofnað en það bregður svo undarlega við að þær tillögur sem meiri hluti meiri hlutans flytur --- þetta er að sjálfsögðu minni hluti nefndarinnar en meiri hluti meiri hlutans --- eru tillögur sem ekki eru eins og þær lánsfjárlagaheimildir sem um getur í grg. með þáltill. þeirri sem hæstv. ráðherra hefur lagt ofurkapp á að verði að þingsályktun fyrir þinglok.
    Ég hefur áður lýst yfir stuðningi mínum við það mál en nú virðist það ætla að verða að það mál nái ekki fram að ganga á yfirstandandi þingi. Og það sem meira er, að hæstv. forsrh. hefur niðurlægt hæstv. iðnrh. með því að segja að hann hafi spilað sóló, eins og stundum er sagt í fótboltanum, og ekki hirt um að gefa á náungann heldur reynt að skora öll mörkin sjálfur. Nú er komið að því að jafnvel hæstv. forsrh., sem er nú geðprýðismaður eins og allir vita, er farið að þykja nóg um og sendir skeyti sín í allar áttir. Finnst mér nauðsynlegt að hæstv. iðnrh. komi í ræðustól og geri mönnum grein fyrir því hvers vegna meiri hluti meiri hlutans, þ.e. stærsti minni hluti nefndarinnar, flytur tillögur á borð við þessar en ekki þær tillögur sem var að finna á þskj. með þáltill. en þá hélt hæstv. iðnrh. því fram að þær lánsfjárlagaheimildir sem þar var að finna væru samþykktar í hæstv. ríkisstjórn. Það er full ástæða til þess að kalla eftir því hér hvort síðar, eftir að sú þáltill. var lögð fram, hafi það gerst að ríkisstjórnin hæstv. hafi klofnað í þessu máli og hvers vegna það gerðist. Það hlýtur að vera kominn tími til þess að hæstv. ríkisstjórn geri hv. alþm. og þjóðinni allri grein fyrir því hvers vegna það upplausnarástand hefur skapast sem hér hefur orðið.
    Mig langar hér næst, virðulegur forseti, að benda á nokkur gögn sem nefndinni bárust því þar er að finna ýmsar upplýsingar sem ég held að séu gagnlegar, meira að segja fyrir hæstv. fjmrh. sem situr og skemmtir sér konunglega mér á vinstri hönd. Fjmrn., en það er ráðuneyti hæstv. fjmrh., svaraði nokkrum spurningum sem nefndin sendi til ráðuneytisins. Þar á meðal var spurt hver yrðu áhrif á afkomu ríkissjóðs á þessu ári ef nauðsynleg lög sem fela í sér sparnað eða

tekjuöflun ná ekki fram að ganga. Í svarinu kemur fram að þar sem ekki hefur tekist að ná fram enn þá, það getur breyst reyndar síðar á þessu þingi, lyfjafrv. hæstv. heilbrrh., þá geti það þýtt útgjöld upp á 500 -- 600 millj. kr. umfram það sem gert var ráð fyrir í útgjaldaáætlun í fjárlögum íslenska ríkisins á yfirstandandi ári. Jafnframt er það sagt að verði frv. um tekjuskatt og eignarskatt samþykkt, sem ríkisstjórnin flytur um lækkun tekjuskatts á fyrirtæki, þá kosti það ríkissjóð 300 -- 500 millj. kr. Með öðrum orðum er hér einn milljarður sem fer á milli vina og augljóst að hallinn kemur til með að vaxa um u.þ.b. einn milljarð eingöngu af þessum sökum. Eru þá ótaldir aðrir milljarðar sem á skortir til þess að áætlun hæstv. ráðherra nái fram að ganga.
    Það er einnig athyglisvert að sjá í svari ráðuneytisins að sala spariskírteina hefur gjörsamlega dottið niður og reyndar er það svo að ríkissjóður hefur þurft að borga með spariskírteinasölunni því innlausn hefur verið talsverð fram yfir sölu. Í janúar og febrúar munaði þetta einum 900 millj. kr.
    Það er ástæðulaust enn á ný að geta þess að Seðlabankinn varar við því og bendir á að annaðhvort hljóti vaxtastigið að fara upp eða þá að lán verði tekin erlendis ef þau áform sem koma fram í þessum lánsfjárlögum verða að veruleika.
    Ég ætla ekki hér, virðulegi forseti, þótt fullt tilefni væri til, að ræða það hvernig hæstv. ráðherrar tala um Seðlabankann, tala um Ríkisendurskoðun, hundsa umboðsmann Alþingis. Það væri þó fyllilega þörf á því við tækifæri að benda á hvers konar niðurrifsstarfsemi þar á sér stað. Þetta eru stofnanir sem Alþingi hefur sett á laggirnar, t.d. Ríkisendurskoðun og umboðsmaður Alþingis, og það er nokkuð hart þegar einstakir hæstv. ráðherrar gera sér það að leik að eyðileggja þessar stofnanir með svigurmælum og digurbarkalegum ummælum eins og hæstv. fjmrh. hefur gert. Það er auðvitað út í bláinn að fara að ráðast á Seðlabankann þó að Seðlabankinn hafi ekki í öllum atriðum sömu skoðanir á málum og hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. Í raun og veru er það hæstv. forsrh. sem byrjar, æpir: Hneyksli, hneyksli. Svo kemur garmurinn hann Ketill á eftir í líki hæstv. fjmrh. og segir: Kosningaskrifstofa Sjálfstæðisflokksins, kosningaskrifstofa Sjálfstæðisflokksins. Þetta minnir mig satt að segja á leikrit sem ég sá einu sinni í Háskólabíói á skólaárum mínum og mínir ágætu skólabræður léku í. Leikritið var um útilegumennina, Skugga-Svein. Það var fín sýning enda lék hæstv. fjmrh. í þeirri sýningu sjálfur og man hana þess vegna mjög vel. Ég sé að hann hefur engu gleymt en ekkert lært síðan því nú hagar hann sér eins og ein aðalpersónan í því leikriti þegar hann hermir eftir hæstv. forsrh. sem tekið hefur að sér hlutverk Skugga-Sveins nú um stundir. Verði hæstv. fjmrh. að góðu að leika þetta hlutverk en ég sé að hann er hæstánægður sjálfur með það hvernig honum tekst til. Að vísu skal ég viðurkenna það að hæstv. ráðherra lék ekki þetta hlutverk í leikritinu þá. Hann lék sýslumanninn sjálfan, en það er augljóst að hann er betur að sér í rullu Ketils

skræks en sýslumannsins.
    Ég gæti, virðulegi forseti, lesið upp álit frá Seðlabankanum. Það er geymt en ekki gleymt. Það kemur líka fram hjá Ríkisendurskoðun hver er meðalkostnaður ríkisins á hvern lántaka í húsbréfakerfinu annars vegar og hins vegar í eldra kerfinu. Það hefur reyndar komið fram áður í skýrslu frá Ríkisendurskoðun og væri vissulega athugunarmál ef menn vildu taka mark á því sem þar segir því að sparnaðurinn af nýja kerfinu er enginn og enn fremur liggur það fyrir svart á hvítu að rekstrarhalli verður verulegur á byggingarsjóðunum á yfirstandandi ári, enda virðist ríkisstjórnin hæstv. ekki koma sínum tillögum fram og ná tökum á þeim sjóðum.
    Í svörum sem komu frá Þjóðhagsstofnun er það staðfest, sem hér hefur verið sagt áður, að lántökur opinberra aðila munu verða 65% af aukningu peningalegs sparnaðar á þessu ári samanborið við 40% í fyrra. Auðvitað er efast um það að hægt sé fyrir íslenska ríkið að ná þeim fjármunum inn á yfirstandandi ári. Það er ekki einungis Seðlabankinn sem heldur því fram að vaxtaupphæðin sé hæstv. ríkisstjórn að kenna heldur Þjóðhagsstofnun einnig sem segir: ,,Ljóst er að þessi lántökuáform munu stuðla að því að halda raunvöxtum áfram tiltölulega háum hér á landi og jafnvel leiða til hækkunar þeirra.``
    Það væri full ástæða fyrir hæstv. forsrh. að hlusta á þetta, þetta er aðeins ein setning, því við höfum nokkuð deilt um vexti að undanförnu og hæstv. forsrh. hefur leyft sér að kalla seðlabankaskýrsluna hneyksli en í seðlabankaskýrslunni kom það fram að það væri ríkisstjórninni að kenna hve vextir væru háir. Nú ætla ég að lesa fyrir hæstv. forsrh. úr svari annarrar stofnunar sem heitir Þjóðhagsstofnun. Hæstv. forsrh. getur ekki sagt, eins og hann hefur sagt um Seðlabankann, að Seðlabankinn heyri undir viðskrn. og hæstv. viðskrh. því Þjóðhagsstofnun heyrir undir forsrn. og hæstv. forsrh.
    Hv. nefnd spyr Þjóðhagsstofnun að því, með leyfi forseta: ,,Hvaða áhrif hefur fyrirsjáanlegur halli á vaxtastig?`` Og svarið er: ,,Lánsfjárþörfin eykst verulega milli áranna 1990 og 1991`` --- og haldið ykkur nú, svo að ég vitni nú í gamalt orðalag: ,,Ljóst er að þessi lántökuáform munu stuðla að því að halda raunvöxtum áfram tiltölulega háum hér á landi og jafnvel leiða til hækkunar þeirra.``
    Með öðrum orðum, það er ekki einungis Seðlabankinn, það er ekki einungis þessi vondi Seðlabanki sem sendir frá sér hneykslunarskýrslur, þessi kosningaskrifstofa íhaldsins, eins og hæstv. fjmrh. kallar stundum Seðlabankann. Ég veit ekki hversu ánægður Tómas Árnason er með það að vera orðinn innanbúðarmaður hjá íhaldinu, látum það nú vera. Leggjum hugmyndir og álit Seðlabankans til hliðar en hlustum á stofnunina sem heyrir undir forsrn., undir sjálfan hæstv. forsrh. Hvað segir sú stofnun? Hún segir einfaldlega þetta: ,,Lántökuáformin munu stuðla að því að halda raunvöxtum áfram tiltölulega háum og jafnvel leiða til hækkunar þeirra.``
    Ég spyr enn einu sinni, líklega í tuttugasta skiptið á þessu þingi: Hver trúir því að vextirnir og vaxtahæðin hér á landi sé bönkunum að kenna? Það liggur í hlutarins eðli að þegar ríkið tekur vegna hallareksturs svo mikinn hluta af nýjum sparnaði þá er það ríkið sjálft sem stjórnar raunvaxtastiginu í þessu landi. Þetta er órækur vitnisburður
um það að hæstv. forsrh. hefur rangt fyrir sér þegar jafnvel hans eigin undirstofnun, Þjóðhagsstofnunin sjálf, bendir á að allt það sem Seðlabankinn hefur sagt er satt, allt sem forsrh. hæstv. hefur sagt byggist á misskilningi. ( HG: Hvað þegar álið kemur?) Um álið, þá verða enn þá hærri vextir, að sjálfsögðu, ef það á að takast á innlendum markaði. ( Gripið fram í: Er setningin búin?) Þessi setning er búin já, ég vona að hæstv. forsrh. hafi notið hennar.
    Það er ástæða til þess, virðulegur forseti, að fara mörgum orðum um fjölmargt það sem kom fram á nefndarfundunum. Það kann að vera athyglivert fyrir hv. alþm. að átta sig á því að á tímabili var hugmyndin sú að auka fjármuni til endurbóta á menningarbyggingum en frá því var horfið. Þannig voru tillögur frá ríkisstjórninni hæstv. að koma til nefndarinnar og síðan voru þær afturkallaðar jafnharðan. Ég ætla ekki samt sem áður að fara að lýsa þeim í einstökum atriðum heldur að leyfa mér hér í lokin að benda á að 2. minni hl. fjh.- og viðskn. hefur skilað talsvert ítarlegu nál. Í þessu nál. er fyrst farið lauslega yfir þennan ágreining, bent á að þrátt fyrir það að lánsfjárlögin auki stórkostlega lánsþörf ríkisins nægir það ekki til því að stórir liðir, líklega milljarðar, liggja enn fyrir utan lánsfjárlög og fjárlög. Síðan er í þessu áliti bent á áhrif lánsfjárlaganna á vaxtastig og skuldir og greiðslubyrði erlendra lána. Síðan er mjög ítarleg úttekt á efnahagsstjórn núv. hæstv. ríkisstjórnar þar sem sagt er m.a., með leyfi forseta: ,,Minni fjárfesting atvinnulífsins hefði undir eðlilegum kringumstæðum leitt til mikillar lækkunar raunvaxta uns nýtt jafnvægi hefði náðst. Vonir um lægra raunvaxtastig hafa samt orðið að engu vegna mikillar lántöku ríkissjóðs og opinberra aðila á innlendum lánamarkaði.``
    Þá er rætt um þróun tekna og gjalda ríkissjóðs. Vissulega er ástæða í því sambandi að benda á þær upplýsingar sem birtar eru með nál. meiri hl. nefndarinnar. Þar kemur í ljós á baksíðu nál. á þskj. 1004 hvernig lánsféð skiptist á milli rekstrarútgjalda sem lenda beint á ríkissjóði, aukinna endurlána sem koma til með að lenda að verulegum hluta á ríkissjóði, aukinna ríkisábyrgða sem munu lenda að nokkrum hluta á ríkissjóði og fjárskuldbindinga, yfirtöku lána sem að sjálfsögðu lenda á ríkissjóði.
    Í þeim kafla í nál. 2. minni hl. sem fjallar um þróun tekna og gjalda ríkissjóðs er sýnt fram á það hvernig sú óheillaþróun hefur orðið í þróun gjalda og tekna. Á það er bent hvernig framlög hafa dregist saman í nokkra sjóði sem gerir það að verkum að það safnast upp vandi í framtíðinni. En það er hægt að draga saman sem meginlýsingu á því sem er að gerast nú um stundir en það er að hæstv. ríkisstjórn ýtir vandanum verulega á undan sér. Og ég bendi á að á bls. 8 í nál. er gerð grein fyrir því hvernig framlög til

ýmissa sjóða eru miklu lægri nú en þau voru fyrir nokkrum árum.
    Þá er í nál. vikið að fréttatilkynningu frá hæstv. fjmrh. Rökin sem þar koma fram eru tætt í sundur og sýnt fram á hversu haldlaus þau eru. Þar er tekið hvert atriðið á fætur öðru og ég hvet hæstv. ráðherra og reyndar alla til að kynna sér þetta því þarna er blekkingarhulunni svipt af rökum hæstv. ráðherra.
    Virðulegi forseti. Það hefði verið full ástæða til þess að fá tækifæri hér og nú til þess að ræða frekar um lánsfjárlögin, til að ræða um það hvaða áhrif lánsfjárlögin hafa í raun á allt efnahagslíf íslensku þjóðarinnar. Það hefði verið full ástæða til að sýna fram á það, betur en mér hefur tekist í þessari ræðu tímans vegna, hvernig ríkisstjórnin hæstv. ýtir öllum vandamálunum á undan sér og ætlast til að næsta ríkisstjórn taki við vandanum og leysi hann.
    Mig langar í lokin til þess að sýna hvað við er átt, hvernig í raun og veru mórallinn er á stjórnarheimilinu um þessar mundir. Hér er ég með í höndunum bréf. Þetta bréf er dags. 18. febr. og er skrifað af fjmrn. og undirritað af hæstv. fjmrh. Ólafi Ragnari Grímssyni. Í þessu bréfi, sem sent er Bifreiðastjórafélaginu Frama, er þess getið að það standi til að breyta lögum og lækka tolla og aðflutningsgjöld af bifreiðum. Þar segir m.a., með leyfi forseta: ,,Ráðuneytinu er ekki kleift án lagabreytinga að fella niður eða lækka gjöld af innfluttum vörum.`` Svo segir: ,,Í ráðuneytinu hafa verið til athugunar tillögur um breytingar á sérstöku gjaldi af bifreiðum og bifhjólum. Í því sambandi hafa verið unnin drög að frv. um gjaldið. Í þessum drögum er gert ráð fyrir heimild til handa fjmrh. til að lækka sérstakt gjald um allt að 2 / 3 hluta af fólksbifreiðum atvinnubifreiðastjóra sem hafa akstur að aðalstarfi.`` Síðar segir í sama bréfi: ,,Vegna mjög sérstæðs þinghalds nú í vor,`` --- ég skýt því hér inn í að það geta allir samþykkt að það er sérstakt --- ,,m.a. vegna þess að aðeins tveir mánuðir eru eftir af þinghaldi`` --- þetta er skrifað fyrir mánuði síðan --- ,,verður hins vegar ekki unnt að leggja frv. fram nú. Texti að frv. til laga um sérstakt gjald af ökutækjum er tilbúinn í ráðuneytinu og verður það lagt fyrir Alþingi á haustþingi árið 1991. Er þess hér með farið á leit að félagsmönnum í Frama verði kynnt sú ákvörðun.``     Hvað þýðir þetta bréf? Þetta bréf þýðir það að fyrir mánuði síðan segist fjmrh. íslenska ríkisins, hæstv. ráðherra Ólafur Ragnar Grímsson, vera tilbúinn með lagatexta í ráðuneytinu sem hann geti ekki lagt fram því það sé svo langt liðið á þingið og þinghaldið sé svo sérstætt. Frá þeim tíma hefur sjálfur hæstv. ráðherra og aðrir hæstv. ráðherrar lagt fram fjölda frv. og ætlast til að þeim sé rennt hér í gegnum þingið. (Fjmrh.: Ekki ég, ekki ég.) Hæstv. ráðherra hefur lagt fram frv. um tekjuskatt og eignarskatt frá þessum tíma. ( Fjmrh.: Það var til að efna loforð sem var gefið í desember.) Til að efna loforð sem var gefið í desember. En hann leggur ekki fram frv. um þetta til að efna loforð sem var gefið í janúar eða jafnvel fyrr. En hvað er hæstv. ráðherra að gera? Hæstv. ráðherra er að segja að hann ætli að sjá

til þess að næsta haust verði þetta frv. lagt fram. Hver kemur til með að segja að hæstv. ráðherra verði þá í fjmrn.? Það sem hæstv. ráðherra er að gera er eitt það alómerkilegasta bragð sem nokkur hæstv. ráðherra getur gripið til. Þegar fulltrúar í Frama koma til hans og benda á að þeir vilji fá lækkun á aðflutningsgjöldum til þess að geta eins og áður stundað sinn rekstur með sama hætti og þá var, þá segir hæstv. ráðherra: Ég er alveg sammála ykkur. Ég skal gera þetta í haust. Af hverju gerir hann þetta ekki strax? Það er vegna þess að það mundi lækka tekjur ríkisins og stækka gatið. Og hæstv. ráðherra þorir ekki að gera það fyrir kosningar. En hann er svo ómerkilegur að hann, ja, það liggur við að ég segi lýgur því, eða segir þessu fólki það að hann muni gera þetta næsta haust þó hann viti að í millitíðinni séu kosningar og það séu litlar líkur á því að hæstv. ráðherra verði í ráðuneytinu næsta haust. Með öðrum orðum, hann er að ýta þessu vandamáli yfir á næstu ríkisstjórn en biður samt stjórn Frama um að láta það ganga að hann, herra Ólafur Ragnar Grímsson hæstv. fjmrh., hafi ákveðið að þetta skuli gera. Þannig ætlar hæstv. ráðherra að kaupa sér fylgi fyrir kosningar. Þetta er eitt það ómerkilegasta bragð sem ég hef nokkurn tímann séð. Ja, það mætti kannski benda á eitt til viðbótar og það er þegar hann stóð upp um daginn og sagðist styðja konurnar í frystihúsunum og vildi endilega hækka persónuafsláttinn og jafnvel taka upp sjómannaafslátt fyrir konurnar í frystihúsunum. Af hverju gerir maðurinn þetta ekki? Það er vegna þess að hann situr í hæstv. ríkisstjórn sem gerir það ekki og vill það ekki. Og hann ber fulla ábyrgð á því.
    Tvískinnungurinn, tvöfeldnin, lýsir sér hvergi betur en einmitt í þessum dæmum. Og þetta bréf hæstv. ráðherra til Frama sýnir svo ekki verður um villst að hæstv. ríkisstjórn leikur sér að því á degi hverjum að gefa loforð og segist munu efna þau í haust af því hæstv. ríkisstjórn vill ekki að það sjáist hér á Alþingi að hún sjálf er að grafa undan tekjum íslenska ríkisins.
    Nú kann þetta að vera mjög gott mál sem hæstv. ráðherra ætlar að berjast fyrir. En það er ómerkilegt og í því felst tvöfeldni og tvískinnungur að vinna að málinu með þeim hætti sem hæstv. ráðherra gerir. Og ég vonast til að ræða mín hér afhjúpi það hvernig hæstv. ráðherra hagar sér í þessum málum.
    Virðulegi forseti. Eins og ég hef margoft sagt áður í þessari ræðu þá hefði verið full ástæða til að ræða ríkisfjármálin miklu ítarlegar en mér hefur gefist kostur á. Þar sem stutt er eftir af þinghaldinu kýs ég þó að hafa þessa ræðu ekki lengri. En ég vænti þess að þeir hæstv. ráðherrar sem ég hef beint máli mínu til komi hér í ræðustól og geri hreint fyrir sínum dyrum.