Lánsfjárlög 1991
Mánudaginn 18. mars 1991


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Herra forseti. Aðeins örfá orð. Frsm. hv. fjh.- og viðskn. sagði í framsöguræðu sinni að ég mundi gefa yfirlýsingu um undirbúning vegna hugsanlegrar þilplötuverksmiðju í Þorlákshöfn. Það er rétt að við minntumst á þetta í ríkisstjórninni í morgun. Ég vil leyfa mér að gefa þá yfirlýsingu að að sjálfsögðu, ef niðurstaðan verður sú að staðsetja þilplötuverksmiðju í Þorlákshöfn, en hið erlenda fyrirtæki sem að þessu stendur ákveður það, þá mun ekki standa á fjárveitingu til nauðsynlegrar hafnargerðar sem er áætlað að þurfi að vera rúmar 100 millj. kr. En staðreyndin er sú að þegar ákvörðun um staðsetningu verður tekin tekur tvö ár að byggja verksmiðjuna og því var óþarft að setja þetta inn í lánsfjárlög á þessari stundu. En sem sagt, ef sú verður niðurstaðan má treysta því að það verði að sjálfsögðu séð fyrir nauðsynlegri hafnaraðstöðu.