Húsnæðisstofnun ríkisins
Mánudaginn 18. mars 1991


     Alexander Stefánsson :
    Herra forseti. Í sambandi við það frv. sem hér er til umræðu vil ég gera örfáar athugasemdir. Ég tók eftir því við afgreiðslu málsins frá hv. félmn. Ed. að þar höfðu framsóknarmenn skrifað undir með fyrirvara. Það fannst mér eðlilegt. Mér finnst ástæða til að það komi hér fram þó að það hafi komið fram áður í umræðunum að flokksþing Framsfl. gerði um þetta ákveðna samþykkt þar sem meginefnið var það að því er hafnað að kerfið frá 1986 verði lagt niður og lögð er á það áhersla í þeirri samþykkt, miðað við að húsbréfakerfið var orðið staðreynd, þá væri eðlilegt að þessi kerfi væru hlið við hlið. Það var bent á það að kerfið frá 1986 yrði fyrst og fremst fyrir þá sem eru að byggja eða afla húsnæðis í fyrsta sinni en að öðru leyti var í áherslupunktum lögð á það megináhersla að vara við því að þessu kerfi verði lokað. Þetta er kerfi sem allir vita að var komið á með alhliða samkomulagi í þjóðfélaginu, aðilar vinnumarkaðarins unnu að því frv. sem er undirstaða laganna frá 1986. Þetta lagafrv. var samþykkt á Alþingi samhljóða og var grundvöllur þess að það var hægt að koma nýju lífi í húsnæðismálin með því að aðilar vinnumarkaðarins skuldbundu sig til þess að fjármagna húsnæðiskerfið með 55% af því ráðstöfunarfé sem lífeyrissjóðirnir höfðu yfir að ráða hverju sinni. Þannig komust lánveitingar í það form sem við vitum að hefur verið undirstaða húsnæðiskerfisins síðan.
    Það má lengi deila um það að auðvitað báru lögin frá 1986 það með sér í upphafi að ákveðnar forsendur voru á bak við þau lög. Gert var ráð fyrir því að þau stæðu á bak við eðlilega uppbyggingu á nýju húsnæði í landinu sem var áætlað að mundi vera um 1400 -- 1500 íbúðir og sömuleiðis hæfilega endurnýjun á eldra húsnæði.
    Það var vitað mál að það þyrfti að endurskoða þessi lög. Auðvitað yrði reynslan að skera þar úr. Það kom hins vegar í ljós að fyrir þann mikla áróður sem var tekinn upp í kjölfar þessara breytinga, sem ég endurtek að allir í þjóðfélaginu stóðu að, það var ekki frv. frá einhverjum einum ráðherra eða annað slíkt, heldur voru það alhliða samtök í þjóðfélaginu sem stóðu að þessum breytingum miðað við það að nýta það mikla fjármagn sem launþegahreyfingin hefur yfir að ráða, þ.e. frá lífeyrissjóðunum, til þess að ná sterkari áföngum í húsnæðismálum. Og grunntónninn var sá að lífeyrisþegar sem höfðu aflað sér þessara réttinda í gegnum sína aðild að launþegahreyfingunum höfðu allir sama rétt til lántöku.
    Ég þarf ekki að lýsa því sem síðan hefur gerst. Það var unnið að því leynt og ljóst og það var á stefnuskrá Alþfl. og núv. félmrh. að brjóta þetta kerfi niður. Síðan hefur ekkert verið gert í fjögur ár til þess að lagfæra þetta kerfi, til þess að sníða af því agnúana og reyna að finna leiðir til þess að betrumbæta það í samráði við aðila vinnumarkaðarins, heldur hefur rignt yfir Alþingi öll þessi fjögur ár alls konar breytingum á þessu húsnæðiskerfi sem í einu orði má segja að hafi orðið til bölvunar. Það hefur orðið til

þess að skemma þessa uppbyggingu og rugla með þessi mál þannig að bæði þeir sem starfa við þetta og þeir sem eiga að njóta þess eru orðnir ruglaðir í því að hverju þeir eru að stefna.
    Ég ætla ekki að tefja umræðurnar hér, herra forseti, en við vitum það ósköp vel að það er enginn búinn að segja fyrir um það eða átta sig á því hvernig húsbréfakerfið kemur til með að enda. Þetta er botnlaust fjáröflunarkerfi sem er háð framboði og eftirspurn og er algerlega háð fjármagnsmarkaðinum á hverjum tíma. Í litlu landi eins og okkar með allt opið í sambandi við þau mál virkar þetta eins og olía á eld þannig að það sveltir fjármagnsmarkaðinn fyrir atvinnuuppbyggingu og það veldur því að vextir eru sífellt á uppleið, enda eru þessi bréf núna orðin þannig að það er orðinn ískyggilegur niðurskurður á eðli þessara bréfa. Afföllin eru það gífurleg að það verður hrunadans að lokum í sambandi við þau mál.
    Ég ætla ekki að rekja þetta lengur, virðulegi forseti, en ég vil aðeins segja frá því að þingflokkur Framsfl. tók þá afstöðu á sínum tíma að vera andvígur þessum beytingum. Það var sett í þetta sérstök ráðherranefnd þar sem heilbr. - og trmrh. átti sæti. Þegar hann skilaði þessu máli inn í þingflokk Framsfl. tilkynnti hann að hann hefði haft alla fyrirvara á þessu máli og vísað óspart í flokksþingssamþykktir, sem er samþykkt æðsta þings Framsfl. sem a.m.k. allir venjulegir menn í Framsfl., sem framfylgja vilja stefnu flokksins, taka tillit til. Þess vegna kom það á óvart að það skyldu vera svo mikil átök um það að láta að vilja hæstv. félmrh. í þessari ríkisstjórn að það átti að ganga yfir þingflokkinn í sambandi við þetta mál. Málið kom þess vegna inn í þingið með naumum meiri hluta sem liggur fyrir með öllum fyrirvörum. Í félmn. Ed. kom það berlega í ljós að hér er um mál að ræða sem er ekki samkomulag um, hvorki í stjórnkerfinu né í þjóðfélaginu. Og þar af leiðandi ákaflega furðulegt að vera að knýja þetta mál hér í gegn.
    Viðmælendur í Ed. voru margir, þar á meðal stjórnendur Húsnæðisstofnunarinnar. Þar kom það auðvitað skilmerkilega fram, eins og í öllum þessum frv. sem varða húsnæðismál í dag, að það er hvorki haft samráð við aðila vinnumarkaðarins né þá þingkjörnu stjórnarmenn sem eru í Húsnæðisstofnun um þessi mál, hvorki um að láta þá vera aðila að samningu slíkra frv. né að leggja fram álit þeirra á þeim. Og ég hygg að nefndarmenn í félmn. Ed. hafi orðið undrandi þegar menn sem eru búnir að starfa frá því að Húsnæðisstofnun var sett á laggirnar lýstu yfir viðhorfum sínum til þessara mála.
    Það er alveg ljóst, virðulegi forseti, að það er sterk andstaða gegn þessu frv. Það viðurkenna allir að það þurfi að gera einhverjar breytingar. Þær hefði verið hægt að gera strax á fyrsta degi nýrrar ríkisstjórnar 1987. Það lá alveg fyrir að fyrri ríkisstjórn hafði ákveðið að hafa vexti óbreytta til loka kjörtímabilsins en ný ríkisstjórn hefði getað tekið á þessum málum strax til að lagfæra framtíðarstöðu Byggingarsjóðs ríkisins. Það hefði verið miklu heilbrigðara að fara þá leið heldur en að demba yfir Alþingi og þjóðina

hverri breytingunni á fætur annarri sem allar virðast ætla að verða neikvæðar, svo að ekki sé sterkara að orði komist.
    Ég skal ekki halda hér öllu lengri ræðu, herra forseti. En ég lýsi því yfir að ég mun beita mér gegn því að þetta frv. verði afgreitt á þessu þingi og ég sé ekki í raun og veru hvernig það er hægt því að þar sem lýst er yfir að þing verði rofið á morgun, þá er útilokað að láta þetta mál fá þá efnislegu umræðu í félmn. Nd. sem krafist verður og ég mun beita mér fyrir. Ég hef því ekki nokkra einustu trú á því að það svari kostnaði og fyrirhöfn að vera að reyna að þvinga það hér í gegnum þingið á þennan hátt. En ég lýsi yfir algerri andstöðu minni við þetta frv. og ég veit ekki betur en margir félagar mínir hafi sömu skoðun að því er varðar þennan þátt sem ég nefndi áður. Þetta er mál sem næstkomandi ríkisstjórn, hver sem hún verður, verður að taka föstum tökum. Það er alveg ljóst að það er búið að fara þannig með húsnæðiskerfið í dag á þessum fjórum liðnu árum, því miður, að það er hvert vandamálið á fætur öðru sem þar hefur verið búið til. Það er engin heildstæð stefna til og það er stefnt að því leynt og ljóst með þeim breytingum sem gerðar hafa verið og er verið að reyna að koma á í þinginu að útiloka þá aðila sem helst er von til þess að geti sinnt þessum málum, þ.e. aðila vinnumarkaðarins og þá sjóði sem þeir hafa yfir að ráða. Ég lýsi þess vegna fullri andstöðu við þetta frv.