Vegáætlun 1991-1994
Mánudaginn 18. mars 1991


     Frsm. meiri hl. fjvn. (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Umfjöllun um vegáætlun fyrir árin 1991 -- 1994 hefur verið með hefðbundnum hætti í fjvn. Við höfum fengið starfsmenn Vegagerðar ríkisins og starfsmenn fjmrn. sem hafa gefið nefndinni upplýsingar svo sem um forsendur tekjuáætlunar, um þróun tekjustofna, verðlag o.fl., og vil ég fyrir hönd fjárveitinganefndarmanna þakka þessum embættismönnum og þá ekki síst starfsmönnum Vegagerðar ríkisins fyrir það samstarf sem við höfum við þá haft. Einnig hafa þingmannahópar kjördæmanna haft áætlunina til meðferðar með hefðbundnum hætti og lagt tillögur sínar um breytingar fyrir fjvn. og hefur nefndin nær undantekningarlaust tekið tillit til tillagna kjördæmahópanna og gert þær tillögur að sínum. Á því er þó undantekning sem ég kem að síðar í máli mínu.
    Ástæða er til þess að benda hv. þm. á að eins og ávallt áður er vegáætlun miðuð við tilteknar forsendur, bæði verðlagsforsendur og aðrar forsendur er tekjuáætlun tillögunnar varðar. Þessar forsendur hafa verið lagðar fram og ræddar í hæstv. ríkisstjórn að því er okkur var sagt og höfum við ekki gert á þeim neinar breytingar aðrar en þá að við höfum fallist á að gera tillögu um sambærilega verðlagshækkun milli áranna 1991 og 1992 eins og gert er ráð fyrir af hálfu embættismanna fjmrn., Þjóðhagsstofnunar og Seðlabanka Íslands og höfum við þar farið nokkurn milliveg.
    Varðandi árið 1991 eru verðlagsforsendur tekjuáætlunarinnar þær hinar sömu og notaðar voru við afgreiðslu fjárlaga og tölur um tekjur af mörkuðum tekjustofnum þær sömu og eru í fjárlögum ársins. Þannig var tillagan lögð fram og þannig hefur hún verið afgreidd óbreytt hvað árið 1991 varðar af hálfu fjvn. Rétt er að taka það fram að þarna er spáð aukningu umferðar um 2,5% sem gert er ráð fyrir að skili sér að fullu í aukinni sölu bensíns sem umferðaraukningunni nemur, en aðeins að hálfu leyti í þungaskatti og eru þessar sömu forsendur um aukningu umferðar notaðar öll áætlunarárin 1991 -- 1994, þ.e. aukningu umferðar um 2,5% sem skilar sér að fullu í aukinni bensínsölu en að hálfu leyti í þungaskatti. Þá er einnig gert ráð fyrir því að með lagabreytingu verði heimilað að innheimta þungaskatt mánaðarlega og mun það gefa til viðbótar á árinu 1991 tekjur tveggja innheimtumánaða eða 170 millj. kr. og kemur sú tekjuviðbót að sjálfsögðu aðeins fram á árinu 1991. Þá er einnig gert ráð fyrir að tekjustofnar Vegasjóðs verði fullnýttir í áföngum, svo sem lög heimila og sú fullnýting komi fram á tveimur árum, árunum 1991 og 1992. Þetta merkir hvað varðar árið 1991 að bensíngjald eigi eftir að hækka um sem næst 5% í júní og svo aftur álíka mikið í september. Og ég tek það enn og aftur fram að hér er um að ræða tekjuáætlunarforsendu sem var í tillögunni eins og hún var lögð fyrir Alþingi af hæstv. ráðherra í nafni ríkisstjórnarinnar og við í fjvn. höfum ekki gert neina tillögu um breytingar á þessari forsendu, en það verður auðvitað að liggja ljóst fyrir að þetta eru þær tekjuöflunarforsendur sem Alþingi gerir ráð fyrir að verði á árinu 1991, verði þáltill. um vegáætlun afgreidd eins og hún er fram lögð.
    Þá er í forsendunum fyrir tekjuáætlun fyrir árið 1992 miðað við að verðlag hækki um 8% frá meðalverðlagi 1991 til meðalverðlags 1992 og hafa tölur bæði tekna - og gjaldamegin af áætlunum fyrir 1992 verið umreiknaðar samkvæmt þeim verðlagsforsendum en í tillögunni eins og hún var lögð fram upphaflega voru allar tölur á verðlagi 1991. Með öðrum orðum: Í meðförum fjvn. hefur þessi uppfærsla verið gerð á tölum áætlunarinnar bæði tekna - og gjaldamegin árið 1992 og síðar. Verðlagsforsenda þessi hefur þannig verið notuð á tekjur og útgjöld áranna 1992 og 1993, eins og vanalegt er, og 1994, en seinni tvö ár áætlunartímabilsins hafa jafnan verið á verðlagi annars ársins. Í forsendunum fyrir tekjuspá ársins 1992 og síðar er auk þess reiknað með um það bil 2,5% aukningu á bensínsölu og er sama aukning áætluð árlega allt þetta tímabil. Þá er einnig gert ráð fyrir því að á árinu 1992 sé stigið seinna skrefið í þá átt að fullnýta tekjustofna Vegasjóðs og til þess að svo geti orðið þarf annaðhvort að hækka allt bensíngjald um 8% umfram verðlagsforsendur, og er þá miðað við óbreytt verðhlutfall milli venjulegs bensíns og blýlauss bensíns, eða, ef hækka á bensíngjaldið minna í heild, þá verður að láta verðmun á venjulegu bensíni og blýlausu bensíni koma fram í ólíkri tollmeðhöndlun.
    Það er með öðrum orðum ljóst að þegar sú afgreiðsla hefur farið fram sem hér er lögð til á vegáætlun, þá eru menn að ganga út frá því að fullnýta alla tekjustofna Vegasjóðs sem þýðir það að bensíngjald og þungaskattur muni hækka meira á árinu 1991 og 1992 en verðlagsforsendum nemur, um 5% tvisvar sinnum á árinu 1991 og um 8% umfram verðlagsforsendur á árinu 1992. Nái þessar hækkanir ekki fram að ganga, sem eru grundvöllur áætlunarinnar eins og hún var lögð fram af hæstv. ríkisstjórn upphaflega, og verði aukning umferðar minni en búist er við mun það að sjálfsögðu hafa áhrif á tekjuhlið Vegasjóðs og með sama hætti áhrif á gjaldahlið Vegasjóðs útgjaldamegin.
    Ástæða er til að vekja athygli hv. Alþingis á þessum forsendum. Verði afgreiðsla Alþingis á vegáætluninni eins og nefndin leggur til er þannig tekin ákvörðun um þessa fullnýtingu tekjustofna.
    Fjvn. leggur aðeins til mjög óverulegar breytingar á útgjaldahlið áætlunarinnar frá upphaflegri tillögu. Nefndinni bárust tillögur þingmannahópa kjördæmanna um skiptingu fjár til einstakra framkvæmda og um framkvæmdaröð. Nefndin gerir þær tillögur að sínum í öllum tilvikum þar sem fjallað var um almenn verkefni. Í einu tilviki kom ósk frá þingmönnum eins kjördæmanna, Norðurl. v., um breytingu á sérstöku verkefni sem fjvn. gat ekki fallist á, en afstaða fjvn. hefur alla jafnan verið sú að nefndin hefur ekki nema í undantekningartilvikum fallist á að þingmannahópar geti gert umtalsverðar breytingar á sérstökum verkefnum sem nefndin hefur litið svo á að hlutverk sitt sé að standa vörð um ásamt Vegagerðinni. Og að

fenginni umsögn Vegagerðar ríkisins um tillögu hv. þm. Norðurl. v. var eftirfarandi tillaga samþykkt í fjvn., sem ég leyfi mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Fjvn. samþykkir að gera ekki breytingar á tillögu í vegáætlun um vegabætur og brúargerð í Hrútafjarðarbotni á árunum 1991 og 1992. Nefndin samþykkir hins vegar að þingmannahópum Norðurl. v. og Vestfjarða sé heimilt að lána fé af þessum framkvæmdalið til annarra framkvæmda í kjördæmum þessum náist ekki samkomulag og samstarf um vegar- og brúarstæði þannig að af framkvæmdum geti orðið á umræddum árum.``
    Það liggur með öðrum orðum ekki fyrir á þessari stundu hvort af þessum vegaframkvæmdum og brúargerð í Hrútafjarðarbotni getur orðið eins og áætlað er þó í vegáætlun að verði. Til þess vantar úrskurð um framtíðarvegar- og brúarstæði á þessu svæði. Við viljum að það sé alveg skýrt að það liggi fyrir að náist ekki niðurstaða sem menn eru sáttir og sammála um þá sé heimilt að lána umrætt fé til framkvæmda annars staðar í þessum kjördæmum tveimur en þetta verkefni er þess eðlis að það er kostað af vegafé tveggja kjördæma, Vestfjarðakjördæmis annars vegar og Norðurlandskjördæmis vestra hins vegar. Og ég vil aðeins ítreka það, virðulegi forseti, að þessi ályktun var þannig samþykkt í fjvn. eins og ég hef upp lesið.
    Þá eru lagðar til nokkrar tilfærslur framlaga innan stórverkefnaflokksins milli jarðganga og stórbrúa sem breytir þó ekki heildartölum. Þá gerir nefndin loks tillögur um nokkrar breytingar á flokkun vega og eru þær tillögur gerðar í samvinnu við Vegagerð ríkisins og þingmannahópana. Koma þessar tillögur um breytingu á flokkun vega fram á bls. 14 í þskj. 960 þar sem brtt. fjvn. er að finna.
    Í fjvn. var einnig gerð grein fyrir því viðhorfi þingmanna Suðurlandskjördæmis að nauðsyn bæri til að tengja betur saman en nú er gert hreppana beggja megin Hvítár, Biskupstungnahrepp og Hrunamannahrepp. Á þessum stöðum eru þegar komin á fót fyrirtæki sem hafa mikla samvinnu í rekstri og þarfnast því góðra samgangna. Í þessu samhengi þarf að taka upp í tölu þjóðvega nýja leið yfir Hvítá norðvestan Flúða. Hafa þingmenn Suðurlands beðið Vegagerðina að undirbúa það mál þannig að taka mætti leið þessa í tölu þjóðvega við næstu endurskoðun vegáætlunar og er þetta sagt hér til upplýsingar.
    Fjvn. flytur brtt. sínar á þskj. 960 og nefndin leggur til að vegáætlun 1991 -- 1994 verði samþykkt með þeim breytingum. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar í nefndinni, þau Pálmi Jónsson, Málmfríður Sigurðardóttir, Egill Jónsson og Friðjón Þórðarson, rituðu undir nál. þetta með fyrirvara.
    Virðulegi forseti. Það væri vissulega ástæða til þess að minnast á nokkrar framkvæmdir sem vegáætlun gerir ráð fyrir og þá ekki síst ýmsar hinar stærri framkvæmdir sem hinn nýi stórverkasjóður á að standa straum af. Ég tel hins vegar ekki ástæðu til þess að fara út í þá sálma þegar svo langt er liðið á þinghaldið og ýmis veigamikil mál, auk vegáætlunar, bíða

afgreiðslu og hef því ekki fleiri orð um að þessu sinni en ítreka að fjvn. leggur til að brtt. á þskj. 960 verði samþykktar eins og þær þar standa og vegáætlun verði samþykkt af hinu háa Alþingi með þeim breytingum.