Vegáætlun 1991-1994
Mánudaginn 18. mars 1991


     Alexander Stefánsson :
    Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð um þetta stóra og mikilvæga mál, vegáætlun fyrir árin 1991 -- 1994. Ég fagna sérstaklega í sambandi við þetta mál að endurskoðun vegáætlunar, þ.e. langtímaáætlun í vegagerð, er lokið frá þeirri nefnd sem hæstv. samgrh. skipaði og auðvitað er hluti af þessari endurskoðun nefndarinnar sú vegáætlun sem við erum að fjalla um hér fyrir fyrsta tímabil þessarar endurskoðunar, þ.e. árin 1991 -- 1994.
    Ég verð í þessu tilfelli að láta það koma hér fram varðandi þessa langtímaáætlun og það fjármögnunarkerfi sem hún byggir á að það eru miklar efasemdir í mínum huga að sú fjáröflun standist til langtíma. Ég er á þeirri skoðun að það þurfi að endurskoða tekjustofna Vegasjóðs enn frekar og það eigi að marka þá stefnu að þessi stærstu verk eins og jarðgöng og fleira sem flokkast undir þau verk, að það verði ekki hjá því komist að taka til þess sérstök lán sem sé gert ráð fyrir í vegáætluninni sjálfri.
    Ég segi þetta meðfram vegna þess að okkur er alveg ljóst, sem höfum starfað að þessum málum í fjvn. í áratug eða meira, að það er svo mikið eftir í almennri vegagerð í landinu, sem er náttúrlega fyrst og fremst tenging milli byggðarlaga og inn á þá vegi sem fólk þarf almennt að nota, að það eru þarna ótal dýr mannvirki eftir sem taka til sín mikið fé, en að mínu mati verða að þoka nokkuð fyrir hluta af þessum stórverkum eins og áætlunin er sett upp.
    Þetta eru aðeins ábendingar en ég tel að við frekari endurskoðun á þessari vegáætlun og langtímaáætlun, sem verður að sjálfsögðu með hefðbundnum hætti á tveggja ára fresti, þurfi að skoða þessi mál enn frekar af þeirri reynslu sem við byggjum á í þessum málum.
    Ég verð að segja það eins og er að það urðu mér og fleirum mikil vonbrigði að það skyldi ekki koma skýrt fram í tillögum endurskoðunarnefndar að vegurinn yfir Gilsfjörð skyldi koma af fullum krafti á árinu 1993 -- 1994 eins og allar tillögur þingmannahópa Vestfjarða og Vesturlands höfðu fjallað um og gefið um heitar yfirlýsingar. Þetta urðu vonbrigði og þrátt fyrir viðleitni nefndarinnar til þess að bæta þarna nokkuð úr með því að bæta 15 millj. inn á árið 1994, þá lá það ljóst fyrir að þessi framkvæmd mundi ekki verða fyrr en á árunum 1995 -- 1998. Þetta er nokkuð sem var útilokað að sætta sig við og ég hlýt að þakka fjárveitinganefndarmönnum að það skyldi verða samhljóða skilningur á því að bæta hér nokkuð úr þannig að þessi framkvæmd, vegurinn um Gilsfjörð, er kominn inn á framkvæmdafjárlög 1993 og 1994 og á þessum árum verða til ráðstöfunar samkvæmt þessu um 94 millj. kr. sem gera það að verkum að mínu mati, og ég held að það sé samdóma álit okkar allra sem höfum verið með þetta í höndunum, að með þessu móti er hægt að bjóða verkið út 1993 og hefja framkvæmdir sem yrðu þá aðallega á árunum 1994 og 1995 og þá verði verkinu lokið. Þetta er vel hægt miðað við það að hér er um stórverk að ræða sem

þýðir það að til þess þarf hvort eð er lánsfé og það væri þess vegna hægt að færa þarna á milli þannig að þetta gæti orðið að veruleika.
    Við sem höfum staðið að því að reyna að vinna að þessum málum á undanförnum árum leggjum gífurlega áherslu á þetta atriði, að þessi möguleiki verði framkvæmdur og hann er framkvæmanlegur miðað við þessar breytingar sem fjvn. gerir hér á þessari þáltill. eða vegáætlunartillögu.
    Að öðru leyti, virðulegi forseti, skal ég ekki tefja þessar umræður. Ég vil þó taka undir það sem hér kom fram áðan í sambandi við langtímaáætlunina sem nefndin treystist ekki til að leggja fram til samþykktar hér á hv. Alþingi vegna þess að tíminn var of naumur og þingmannahópar höfðu ekki fengið nægilegan tíma til þess að fjalla um þá áætlunargerð í smáatriðum. En ég vil þó leggja áherslu á að það sem hér liggur fyrir á þskj. 961 er í stórum dráttum það sem aðilar hafa komið sér saman um og hefur verið unnið faglega af Vegagerð ríkisins sem eins og áður hefur verið með vandaða vinnu og miklar upplýsingar í sínum fórum sem skila sér í báðum þessum þskj. Það liggur á bak við þetta athugun í flestum þingmannahópunum og áhersluatriðin koma þarna fram þannig að þetta fskj. getur orðið leiðarvísir um framhaldið eins og var raunar í vegáætluninni 1981 þegar hún var lögð fram á Alþingi en var ekki afgreidd. Ég get bætt því hér við að þingmannahópur Vesturlands hefur í aðalatriðum samþykkt þær tillögur sem hér liggja fyrir um langtímaáætlun að því er varðar Vesturland.
    Ég vil svo nota tækifærið til þess að þakka samstarfið í fjvn. um þennan þátt mála, þ.e. vegáætlunina, og ekki síst endurtaka, eins og ég sagði hér áður, þakkir til starfsmanna Vegagerðar ríkisins sem hafa eins og jafnan áður unnið faglega að þessum málum og greitt úr þannig að það væri hægt að afgreiða þetta mál á eðlilegan máta þó að tíminn væri skammur.