Vegáætlun 1991-1994
Mánudaginn 18. mars 1991


     Stefán Valgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég tel eftir atvikum að þessi fjögurra ára áætlun sé vel ásættanleg þó að margir hv. þm. og landsmenn yfirleitt hefðu viljað sjá meira fjármagn til vegaframkvæmda. Langtímaáætlunin eða það kort sem er á 14. síðu sýnir í raun og veru þau verkefni sem nefndin um langtímaáætlun fjallaði um. Það sýnir það sem gert er ráð fyrir miðað við svipað fjármagn eða ef fjármagn til vegagerðar verður eins og áætlunin gerir ráð fyrir. Þá tekur um 24 ár að gera þær stofnbrautir sem hér eru merktar inn á og allt upp í 37 -- 38 ár um þjóðbrautir. Það finnst mörgum auðvitað langur tími. Og inn í þetta vantar mikið, t.d. einhverja ásættanlega tillögu um tengingu til Siglufjarðar og hvernig í sjálfu sér verður leyst það mál fyrr en gert er ráð fyrir að tengja Austurland Norðurlandi. Ég ræddi um það í langtímanefndinni að það mundi þá tefjast mikið að tengja Austurland öðruvísi heldur en það yrði tekið sem stórverkefni. Ég ræddi nokkuð um þetta í nefndinni og því var nú ekki nógu vel tekið af sumum, en menn verða að athuga að það eru stór verkefni fram undan á Austfjörðum, þ.e. jarðgangagerðin, og þeirra hlutur í því ásamt því að gera þennan veg mun seinka því verki svo mikið að það er varla hægt að una því að bíða eftir því ef einhverjir möguleikar eru til fjáröflunar til þess að tengja þessar byggðir saman.
    Ég vil enn fremur segja að það er mikil nauðsyn á að koma á skemmri tíma bundnu slitlagi á alla þá vegi sem hægt er miðað við að það þurfi ekki að byggja þá upp vegna þess að a.m.k. á sumum stöðum á landinu bara fýkur vegurinn, hann lækkar það mikið þegar hann er heflaður og síðan þeyta bæði umferðin og stormurinn öllu því fínasta burtu, þannig að þarna þarf að gera verulegt átak eftir því sem kringumstæður leyfa. En þetta er auðvitað alltaf spurning um fjármagn og eins og nú standa sakir varð samkomulag um að miða við þetta, en auðvitað hlýtur langtímaáætlun t.d. til 12 ára, hvað þá 24, að taka breytingum og það hljóta að koma kröfur um aukna vegagerð þegar fram líða stundir.
    Enn fremur vil ég endurtaka að það er brýn nauðsyn að gera könnun á því hvenrig hægt er að tengja með skynsamlegu móti Siglufjörð við Ólafsfjörð eða Fljót. Það kemur auðvitað ekki á næstunni því að Vestfirðir klárast fyrst og síðan Austfirðir. Það hlýtur að vera. En það þarf samt að fara að skoða það innan stutts tíma hvernig það verður leyst því að miðað við nútímakröfur er eðlilegt að Siglfirðingar geti ekki sætt sig við óbreytt ástand mikið lengur, en það verði byrjað á því verki þegar Austfjörðunum er lokið.
    Ég vil svo þakka þeim mönnum sem voru með mér í þessari nefnd. Það voru auðvitað deildar meiningar um ýmislegt, en Vegagerðin hélt mjög vel á þessu máli og ég tel að þetta verk sé þannig unnið að það sé vel ásættanlegt ef staðið verður við t.d. jarðgangagerðina á Vestfjörðum og Austfjörðum. En það er algjört skilyrði fyrir því að byggðir þar haldist.

Þingið er búið að ákveða að fara í þessar framkvæmdir og þar má engu breyta.