Vegáætlun 1991-1994
Mánudaginn 18. mars 1991


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Aðeins örfáar setningar. Vegna fyrirspurna sem mér hafa borist frá einstökum þingmönnum þá vil ég láta það koma fram hér að í samræmi við ákvæði í fjárlögum hefur verið unnið að samningum við Reykjavíkurborg um uppgjör vegna framkvæmda, vegaframkvæmda í höfuðborginni. Eins og hv. þm. er kunnugt skuldar ríkið Reykjavíkurborg umtalsverðar upphæðir vegna þessara framkvæmda. Ég vil þess vegna láta það koma hér fram að það hefur verið unnið að samningum um þetta uppgjör og þeim hefur miðað vel á veg. Það hefur verið gengið út frá því að þegar til greiðslu kemur á næstu árum þá þurfi að fjármagna þær greiðslur af tekjustofnum Vegagerðarinnar á þeim árum eins og aðrar framkvæmdir. Það mun hins vegar ekki gilda fyrir árið í ár, en sú meginstefna hefur verið mörkuð að greiðsla á þessum skuldum takist á sínum tíma af tekjustofnum Vegagerðarinnar. Ég vildi láta þetta koma fram af gefnu tilefni og í samræmi við óskir einstakra þingmanna.