Þingsályktunartillögur
Mánudaginn 18. mars 1991


     Friðrik Sophusson :
    Virðulegi forseti. Einhver hv. þm. benti mér á að fyrir skömmu stóð þannig á hér í Sþ. í fyrsta skipti líklega frá þingsetningu að allir hæstv. ráðherrar voru viðstaddir og tel ég þetta vera eina merkustu stund í sögu þingsins í vetur og tel ástæðu til að vekja athygli á því. En um það ætla ég ekki að fjalla sérstaklega heldur hitt að í 28. gr. þingskapa, 5. mgr. segir:
    ,,Um þingsályktunartillögur er fjalla um stjórnskipun, utanríkis - eða varnarmál, staðfestingu framkvæmdaáætlana, alþjóðasáttmála eða milliríkjasamninga gilda ákvæði 36. gr. við báðar umræður.``
    Þetta þýðir að þegar þannig hagar að þingsályktunartillögur fjalla um slík mál, þá er ræðutími manna ótakmarkaður en takmarkast ekki við 15 mínútur og 8 mínútur. Nú langar mig til að spyrja hæstv. forseta, því að ég hef ekki kannað þetta mál, hvort sú tillaga sem nú á að ræða falli undir framkvæmdaáætlun í skilningi þingskapalaga eða hvort fara skuli með umræðuna með þeim venjulega hætti eins og gerist og gengur um venjulegar þingsályktunartillögur. Óska ég eftir því að hæstv. forseti segi til um það mál og sína skoðun á því.