Lækkun húshitunarkostnaðar
Mánudaginn 18. mars 1991


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Ég fagna þeirri nákvæmni í framkvæmd þingskapa sem hér er viðhöfð í upphafi þessarar umræðu. Það var sannarlega tími til kominn.
    Tillagan sem ég hér mæli fyrir er til þingsályktunar um lækkun húshitunarkostnaðar. Hún er, eins og kom fram hjá virðulegum forseta, á þskj. 854. Inngangsorð tillögunnar eru á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir að lækka húshitunarkostnað á Íslandi þar sem hann er hæstur og minnka þannig þann aðstöðumun einstaklinga og fjölskyldna sem nú er við lýði.``
    Tillagan er í sex liðum og mun ég reyna að draga þá saman í örstuttu máli.
    1. Að þessi aðstöðujöfnun eigi sér stað í áföngum á næstu tveimur árum þannig að kostnaður við hitun íbúðarhúsnæðis vísitölufjölskyldu hjá rafveitum og rafkyntum hitaveitum verði hvergi hærri en 5 þús. kr. að jafnaði á mánuði miðað við verðlag í janúar 1991.
    2. Lagt er til að Alþingi beini því til þingkjörinna fulltrúa í stjórn Landsvirkjunar að þeir beiti sér fyrir sérstökum aðgerðum til lækkunar hjá fyrirtækinu á heildsöluverði raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis.
    3. Að viðskrh. noti hluta af því fé sem á fjárlögum er veitt til niðurgreiðslna á vöruverði til aukinnar verðjöfnunar á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis.
    4. Að iðnrh. láti fara fram úttekt á fjárhagsstöðu þeirra hitaveitna þar sem kostnaður við hitun íbúðarhúsnæðis vísitölufjölskyldunnar er hærri en 5 þús. kr. að jafnaði á mánuði.
    5. Að fjmrh. beiti sér fyrir ráðstöfunum til að aðstoða þær hitaveitur sem ekki ná þessu markmiði með skuldbreytingum á lánum eða öðrum hætti.
    6. Að því fé sem Landsvirkjun kann í framtíðinni að verða gert að greiða ríkinu fyrir virkjanaréttindi verði að hluta varið til aukinnar verðjöfnunar á innlendri orku.
    Virðulegi forseti. Jöfnun og lækkun orkuverðs hefur verið eitt af þeim málum sem hvað oftast og reglulegast hafa komið fram hér á Alþingi, oftast í formi fyrirspurna en einnig hafa komið hér fram lagafrumvörp og tillögur til þingsályktunar um það efni. Sl. haust skipaði ég, m.a. vegna óska sem fram komu á Alþingi, nefnd til þess að gera tillögur um verðjöfnun á raforku. Í nefndinni sátu fulltrúar allra þingflokka. Í starfi nefndarinnar komu fljótlega fram óskir um að nefndin fjallaði einnig um orkukostnað til hitunar íbúðarhúsnæðis almennt. Nefndin skilaði í desember sl. áfangatillögu sem varðar kostnað Rafmagnsveitna ríkisins af flutningi raforku til Vestmannaeyja. Nefndin lagði þá til að kostnaður af flutningi raforku til Vestmannaeyja, sem er umfram meðalflutningskostnað til annarra rafveitna í eigu sveitarfélaga, verði jafnað á allar rafveitur á heildsölustigi. Nefndin lagði einnig til að það yrði gert með því að Landsvirkjun veitti sérstakan afslátt vegna orkusölunnar til Vestmannaeyja. Iðnrn. tók undir þessa tillögu og sendi hana áfram til stjórnar Landsvirkjunar 19. des. sl.

Stjórnin tók erindinu vel en hefur enn ekki afgreitt það. Nefndin skilaði sínu lokaáliti í byrjun þessa mánaðar.
    Í skýrslu nefndarinnar, sem er fskj. með þessari tillögu, er gerð ítarleg grein fyrir aðgerðum stjórnvalda á liðnum árum til þess að bæta rekstrarskilyrði orkufyrirtækja og til þess að jafna orkuverð. Ég vil í því sambandi sérstaklega benda á samningana sem gerðir voru í júlí 1989, annars vegar við Rafmagnsveitur ríkisins og hins vegar við Orkubú Vestfjarða um yfirtöku ríkissjóðs á langtímalánum fyrirtækjanna og fleira. Þessar ráðstafanir leiddu til þess að unnt var að lækka heimilis - og iðnaðartaxta í gjaldskrá þessara orkufyrirtækja um 5% og halda öðrum gjaldskrárliðum óbreyttum. Gjaldskrárnar hefðu ella þurft að hækka að áliti gjaldskrársérfræðinga þeirra um 12 -- 15%. Í skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskólans vann fyrir iðnrn. er reynt að meta áhrif aðgerða ríkisins til jöfnunar og lækkunar orkuverðs á húshitunarkostnaði. Stofnunin telur að húshitunartaxtar Rafmagnsveitna ríkisins hefðu þurft að vera um 36,5% hærri ef skuldum hefði ekki verið létt af fyrirtækjunum. Neytendur hefðu að fullu þurft að standa undir kostnaði vegna byggðalína og ef rafmagn til húshitunar væri ekki niðurgreitt. Sambærileg tala fyrir Orkubú Vestfjarða er um 45%.
    Í nefndinni náðist allgott samkomulag um frekari aðgerðir til lækkunar orkuverðs og að þær skyldu fyrst og fremst beinast að lækkun húshitunarkostnaðar á þeim svæðum þar sem hann er hæstur. Meiri hl. nefndarinnar taldi eðlilegt að Alþingi lýsti vilja sínum í þessu efni um að lækka húshitunarkostnað og sendi frá sér tillögu með það fyrir augum að hana mætti leggja fyrir þingið í formi þáltill. Tillagan sem ég mæli hér fyrir er efnislega samhljóða tillögu meiri hl. nefndarinnar í öllum greinum. Verði farið að þessari tillögu í öllum atriðum mundi raunverulegur kostnaður viðskiptamanna Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða við hitun íbúðarhúsnæðis fyrir vísitölufjölskylduna lækka úr um það bil 7500 kr. á mánuði í um það bil 5000 kr. á mánuði að jafnaði eða um þriðjung. Enn fremur mun kostnaður við hitun íbúðarhúsnæðis hjá rafkyntum hitaveitum og dýrum hitaveitum sem byggja á jarðvarma lækka verulega. Alls má gera ráð fyrir að þessi tillaga, ef framkvæmd verður, hafi í för með sér lækkun hitunarkostnaðar hjá um fjórðungi þjóðarinnar.
    Það er ástæða til að benda á það að um 62% af íbúum Íslands búa við mjög lágt orkuverð, Reykjavíkurverð sem kalla mætti eða lægra. En svo lágt verð þekkist ekki annars staðar á Vesturlöndum. Kostnaður þeirra sem kynda hús sín með rafmagni hjá Orkubúi Vestfjarða eða Rafmagnsveitum ríkisins er hins vegar um 2,4 sinnum hærri. Orkuverðsjöfnunarnefndin bendir á þennan mun í sinni skýrslu og telur hann augljóslega undirrót krafna um jöfnun orkuverðs í landinu.
    Virðulegi forseti. Ég vil að lokum minna á að þetta mál hefur í hugum margra þingmanna verið tengt till. til þál. um samninga um álver í Vatnsleysustrandarhreppi. Einn stjórnarflokkanna, Framsfl., tengdi þessi tvö mál beinlínis formlega skriflega saman þegar hann samþykkti að tillagan um samninga um álver yrði flutt sem stjtill. að því tilskildu að samþykkt yrði þáltill. um jöfnun orkuverðs.
    Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu óska ég eftir að till. verði vísað til hv. fjvn. og síðari umræðu. --- [Fundarhlé.]