Lækkun húshitunarkostnaðar
Mánudaginn 18. mars 1991


     Friðrik Sophusson :
    Virðulegi forseti. Ég hef hér fyrr í kvöld lýst því hvernig þessi tillaga varð til. Ég hef bent á það sem allir sjá sem kynna sér tillöguna að hún er tillaga um það að eitthvað verði gert einhvern tíma síðar. Ég hef bent á það að á sama tíma og stjórnskipuð nefnd vann að þessari tillögu, þá vann önnur stjórnskipuð nefnd að tillögu um sama efni sem gengur í allt aðra átt og birtist nýlega í bæklingi sem heitir ,,Nýjar leiðir í byggðamálum``.
    Ég tek undir þau sjónarmið sem komið hafa fram hjá m.a. hv. 2. þm. Norðurl. v. þar sem bent er á að um margra ára skeið hefur ekki verið hreyft við niðurgreiðslufé til húshitunar. Það eru enn þá 63 aurar á hverja kwst. Það er sama upphæð og var fyrir mörgum árum síðan, líklega 5 -- 6 árum síðan og auðvitað hefur sú upphæð rýrnað í verðbólgunni á þessum tíma. Ég vek athygli á þessu því að auðvitað gat hæstv. ríkisstjórn fyrr á sínum starfsferli kippt þessu máli í liðinn og þannig lækkað húshitunarkostnað ef áhugi hefði verið fyrir hendi.
    Ég bendi líka á að fyrir nokkrum árum greiddi Landsvirkjun til baka til þeirra sem kynda hús sín með raforku 32 aura á kwst., en nú er niðurgreiðslan ekki nema 16 aurar, þannig að í raun og veru höfum við færst heldur aftur á bak í þessu máli.
    En aðalástæðan fyrir því að ég kem hér er síðari ræða hæstv. ráðherra þar sem hann virtist verða hissa á því að ég skyldi telja að 2. tölul. í till. væri óvenjulegur. Hann taldi, ef ég skil hans mál rétt, að hér værum við komnir að merkilegum tímapunkti í þingsögunni, en hann væri sá að nú ætti Alþingi Íslendinga að fara að skora á þingkjörna fulltrúa sína í stjórn Landsvirkjunar að gera eitthvað sem meiri hlutinn á þinginu áliti vera álitlegt. Skoðum þetta aðeins betur.
    Hugsum okkur að þetta væri bankaráð Landsbankans, bankaráð Útvegsbankans eða hver önnur stjórn sem kjörin er hlutfallskosningu á Alþingi. Það sem hæstv. ráðherra er að fara fram á er að einfaldur meiri hluti á Alþingi segi hlutfallskjörinni stjórn fyrir verkum. Það gengur auðvitað ekki upp.
    Ástæðan fyrir því að Alþingi kýs í þessar stjórnir er sú, og hún er mjög einföld, að Alþingi vill að það komi hlutfallslega fram hver er vilji þess, þannig að minni hluti og meiri hluti hafi sitt að segja í þessum nefndum, ráðum og stjórnum. Ef einfaldur meiri hluti ætti að duga, eins og hér er lagt til, þarf auðvitað ekkert að hafa slíka fulltrúa í stjórnum, ráðum og nefndum. Þá á bara ráðherra og meiri hluti ríkisstjórnarinnar að ráða á hverjum tíma. Af hverju heldur hæstv. ráðherra að Alþingi hafi sett lög um þetta? Til þess að öll sjónarmið komi fram og til þess að minnihlutasjónarmiðin fái að koma fram í stjórnum, ráðum og nefndum.
    Með slíkri tillögu eins og þessari er í raun og veru verið að fara fram á það að Alþingi fari þess á leit við þingkjörna stjórnarmenn í Landsvirkjun að þeir gegni meiri hluta þingsins. Auðvitað er þetta miklu meira en óvenjulegt, það er jafnvel ólýðræðislegt að

fara svona að, því að ef þingflokkarnir, sem tilnefna menn í kjör inn í ráð og nefndir, vilja, þá beina þeir auðvitað sínum tilmælum til sinna manna og þannig á að fara að. Ég stend við það fyllilega að þetta er ekki einungis óvenjulegt. Þetta er afar óvenjulegt svo að vægt sé til orða tekið.
    Þetta var nú, virðulegi forseti, ástæðan fyrir því að ég bað hér aftur um orðið. Ég ítreka það sem ég sagði fyrr að þessi till. er svo seint fram komin að hún verður varla afgreidd á yfirstandandi þingi.