Lækkun húshitunarkostnaðar
Mánudaginn 18. mars 1991


     Alexander Stefánsson :
    Virðulegi forseti. Það var ekki meining mín að tala langt mál í tilefni þessarar þáltill. umfram það sem ég gerði hér í upphafi, en það er eins og fyrri daginn með hv. 3. þm. Vesturl. að hann má aldrei verða fyrir því að einhver sé ekki alveg sammála því sem hann af náð sinni hefur lagt fram, þá þarf að sjálfsögðu að hnýta í þá sem talað hafa og gera þeirra hlut minni.
    Ég ætla aðeins að rifja það upp að það var stefna hæstv. ríkisstjórnar sem nú er að enda sitt skeið að það átti að jafna raforkuverðið og ljúka því fyrir lok þessa kjörtímabils. Þessi stefna hæstv. ríkisstjórnar er í höndum hæstv. iðnrh. sem að sjálfsögðu átti að koma þessu í verk. Hæstv. ráðherra skipaði Eið Guðnason formann nefndar í október sl. Og við afgreiðslu fjárlaga fyrir áramót fékk fjvn. þau tilmæli að hækka ekki niðurgreiðslu á raforku frá því sem er í fjárlagafrv. vegna þess að það væru að koma ákveðnar tillögur frá þeirri nefnd sem hæstv. iðnrh. skipaði í október 1990. Þessi nefnd undir forustu hv. 3. þm. Vesturl. er að koma með tillögur um lausn á þessu vandamáli og þær liggja hér fyrir. Þetta eru frómar og ágætar óskir um að það þurfi að gera þetta og þyrfti að gera þetta. Og fjárhagslega lausnin er sú að taka hluta af niðurgreiðslu á vöruverði og færa það yfir í niðurgreiðslu á hitunarkostnaði og til þess þarf þáltill. Þetta eru nú öll ósköpin sem hér koma fram.
    Ég er ekkert hissa á þessu þegar við lesum hér það sem nefndin lætur fara frá sér. Hún segir m.a., með leyfi forseta: ,, . . . að sú skoðun hefur komið fram í nefndinni að óeðlilegt sé, svo skömmu fyrir kosningar,`` --- fjögur árin eru liðin sem átti að gera þetta á --- ,,að binda hendur næstu ríkisstjórnar varðandi verðjöfnun á orku til húshitunar.``
    Sem sagt, það hefur komið fram í nefndinni að það væri engin ástæða til þess héðan af að vera að koma með ákveðnar og harðar tillögur. Það mundi móðga næstu ríkisstjórn.
    Ég held að þetta svari í raun og veru þeim mikla hroka sem kom hér fram hjá hv. 3. þm. Vesturl. í garð okkar hv. 2. þm. Vesturl. sem erum nú að hætta hér á Alþingi. Hann getur ekki hrakið það að þessir tveir hv. þm. hafa barist fyrir því í öll þessi ár að reyna að ná þessu réttlætismáli fram. Sumu hefur þokað á veg, sumu ekki. Og ég ætla að enda með því að segja að á sl. vori þegar þetta mál var hér enn til umræðu, annaðhvort í sambandi við þáltill. eða fsp., hvað sagði þá hv. 3. þm. Vesturl.? Hann kom hér í pontu, belgdi sig hér út og sagði hvað? Hann sagði: ,,Alþingi lýkur ekki næsta vor í lok kjörtímabilsins fyrr en búið er að leysa þetta mál.`` Þetta er hægt að lesa í umræðum hér á hv. Alþingi.
    Ég gladdist auðvitað yfir þessum ummælum, og margir fleiri. Það yrði þá alveg ljóst að hæstv. iðnrh., flokksbróðir hv. 3. þm. Vesturl., mundi ekki liggja á liði sínu, og þetta mál yrði leyst. Hér er lausnin. Tilgangurinn er auglýstur yfir alþjóð og allir eru glaðir yfir að fá þetta lækkað niður í 5 þús. kr. á mánuði eftir tvö ár. En úrræðin? Jú, það á að fá heimild

til að taka hluta af niðurgreiðslu á vöruverði seinni hluta þessa árs. Framtíðin? Hún á að bíða eftir nýrri ríkisstjórn vegna þess að nefndin vildi ekki móðga nýja ríkisstjórn með því að leggja fram harðar og ákveðnar tillögur sem allir reiknuðu með að hún mundi gera.