Lækkun húshitunarkostnaðar
Mánudaginn 18. mars 1991


     Danfríður Skarphéðinsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. hafa nú þegar eytt nokkurri orku í þessa umræðu og það hefur ekki verið mikið um orkujöfnun kannski hér innan húss síðasta klukkutímann eða svo.
    Ég kom hér í upphafi þessarar umræðu til þess að lýsa afstöðu okkar í Kvennalistanum til þessarar till. sem hér liggur frammi og skýrslunnar sem henni fylgir og eins og fram kom í máli mínu töldum við þetta skref þess virði að styðja það. Það hefur komið fram hér margoft í umræðunni í kvöld að ríkisstjórnir á seinni árum hafa ein af annarri haft það á stefnuskrá sinni að jafna orkuverð í landinu og e.t.v. hafa áður komið fram tillögur en lítið verið að gert. Hér er verið að leggja til eitt skref --- og það kom fram í nefndinni að flestir nefndarmanna voru reiðubúnir til að standa að því að senda þessa skýrslu til hæstv. iðnrh. einmitt vegna þess að fyrir lá að þarna gæti verið um eitt lítið skref að ræða. Það kom reyndar líka fram í starfi nefndarinnar að ef niðurgreiðslur ríkissjóðs á raforku til hitunar hefðu verið verðbættar á sl. árum, þá hefðum við ekki staðið frammi fyrir þeim sama vanda sem við gerum nú.
    Sú skýrsla sem liggur hér frammi er ítarlega unnin og það var reynt að láta sjónarmið allra nefndarmanna koma fram. Ég minntist sérstaklega á það í máli mínu hér fyrr í kvöld að við kvennalistakonur værum þeirrar skoðunar að Landsvirkjun ætti að taka meiri þátt í þessari jöfnun, en það reyndist í þessari lotu ekki unnt að ná því fram og þar við situr í bili. En það hefur líka komið fram að stjórnmálaflokkar hér á Alþingi eiga sína fulltrúa í stjórn Landsvirkjunar og ættu e.t.v. að beita sér á þeim vettvangi fyrir því að tekið verði á þessum málum.
    Vegna þess sem hér stendur um það að við hefðum viljað sjá Landsvirkjun taka meiri þátt í þessari orkuverðsjöfnun vil ég benda á að það stendur líka annars staðar í skýrslunni að rétt sé að geta þess, eins og þar segir, að sú skoðun hafi komið fram í nefndinni að óeðlilegt sé að binda hendur næstu ríkisstjórnar varðandi verðjöfnun á orku til húshitunar. Þetta er sett inn í skýrsluna einmitt vegna þess að það kom fram í umræðum í nefndinni og það kom einmitt frá fulltrúum Sjálfstfl.
    Ég tel að það hafi verið í raun og veru mjög gott að formaður nefndarinnar skyldi setja fram þau sjónarmið sem fram komu á fundum nefndarinnar, en eins og kemur reyndar líka fram í skýrslunni kusu fulltrúar Sjálfstfl. að skrifa undir með fyrirvara og gera sérstaklega grein fyrir afstöðu sinni. En ég vildi bara láta það koma fram vegna þess sem sagt var hér áðan í umræðunni um þessa athugasemd í skýrslunni, að það var svo sannarlega reynt að láta sjónarmið sem flestra koma fram og allra nefndarmanna í raun og veru --- já, ég ætti að segja allra nefndarmanna frekar en sem flestra.
    En það er auðvitað ljóst að þessi till. er aðeins skref og spurningin er hvort Alþingi er tilbúið til að taka það sameiginlega eða hvort ný ríkisstjórn kýs

heldur að hefja starfið upp á nýtt. Þetta eru þær hugmyndir sem voru ræddar í nefndinni og það virtust ekki vera mjög margar aðrar leiðir sýnilegar á þessu stigi málsins. Ég vil hins vegar leggja áherslu á það að e.t.v. er kominn tími til, og það nefndum við kvennalistakonur oft í umræðunni í nefndinni, að endurskoða skipulag og dreifikerfi orkufyrirtækjanna í landinu.
    En vegna þess sem hér var sagt áðan þá vildi ég bara ítreka þetta, að nefndarmenn skrifuðu einmitt undir skýrsluna vegna þess að þar var þess gætt að láta þeirra sérstöku sjónarmið koma fram.