Lækkun húshitunarkostnaðar
Mánudaginn 18. mars 1991


     Skúli Alexandersson :
    Virðulegi forseti. Mér fannst nauðsynlegt að ég fyllti hér hóp þingmanna Vesturlands sem hafa fjallað um þetta merka mál, ekki til að fara að fjalla um það efnislega heldur til að þakka þessum þingmönnum Vesturlands fyrir frækilegan málflutning hér á síðustu dögum þingsins í þessu baráttumáli okkar landsbyggðarmanna. Við erum sumir hverjir að hverfa af þingi og það má segja að svona ræður eins og hér hafa verið fluttar í kvöld séu kannski skilagrein um það hvernig menn hafa staðið sig í málunum. Því miður er það satt eins og komið hefur fram að þarna er mismunur enn þá mikill. En það er gott að vekja athygli á því nú við þingslit að enn þurfi að berjast og halda fram í þessu máli. Ekki aðeins að við hvetjum til þess sem erum að hverfa af þinginu heldur þeir sem ætla að halda baráttunni áfram og bjóða sig fram nú til þings.
    Það hefði verið eðlilegast að afgreiða þetta mál á þann hátt að því yrði ekkert vísað til nefndar heldur mundum við standa sameiginlega að því að klára málið á þessum fundi, samþykkja till. Þó að okkur sumum hverjum finnist þetta frekar lítið skref þá væri rétt að við samþykktum það hér á næturfundi í nótt að þessi litli áfangi yrði tekinn í þessu máli.