Lækkun húshitunarkostnaðar
Mánudaginn 18. mars 1991


     Pálmi Jónsson :
    Virðulegi forseti. Hæstv. iðnrh. lét þess getið hér í sinni annarri ræðu að fram hefði komið í umræðunni nokkur gagnrýni frá okkur fulltrúum Sjálfstfl. í þeirri nefnd sem skipuð var 1. okt. til að sinna þessu verki en þó væri það svo að þessir sömu fulltrúar Sjálfstfl. væru meðal höfunda skýrslunnar. Þetta er allt saman rétt. Við sem sátum í þessari nefnd höfum unnið að þessu máli og unnið að gerð þeirrar skýrslu sem hér liggur fyrir. Í þessari skýrslu er m.a. vitnað af fullum drengskap af hálfu formanns nefndarinnar, hv. 3. þm. Vesturl., til þess sem við lögðum áherslu á að fram kæmi í skýrslunni. Meðal þess er að þar væri rakið það sem gert hefur verið í þessum málum og ég vék að í minni fyrri ræðu. Þar kemur það fram að þegar Friðrik Sophusson var iðnrh. voru þeir 63 aurar sem ríkið varði til niðurgreiðslu á raforku til húshitunar meira virði heldur en þeir eru í dag. Samt standa þessir 63 aurar óbreyttir enn þann dag í dag. Þá var varið af hálfu Landsvirkjunar 32 aurum á hverja kwst. til niðurgreiðslu á raforku til húshitunar. Nú eru það 16 aurar og hefur þó orðið drjúg verðlagshækkun síðan þetta var. Þetta haggar ekki því að það hefur líka fleira verið gert í þessum efnum eins og ég rakti hér í fyrri ræðu. En skýrslan sem hér liggur fyrir geymir miklar upplýsingar og það hefur verið unnið mikið og þarft verk með því að taka hana saman.
    Síðan kemur að þessari svokölluðu þáltill. Og það segir í skýrslu nefndarinnar að hér fari á eftir þær hugmyndir sem fram komu í nefndinni og meiri hl. nefndarmanna telur að geti skilað árangri í þessum efnum. Sumir nefndarmanna gera þó fyrirvara um ákveðin atriði. Till. byggir sem sagt á hugmyndum meiri hl. nefndarinnar sem við fulltrúar Sjálfstfl. gerðum athugasemdir við og höfðum fyrirvara um. Ýmsir aðrir einstakir nefndarmenn höfðu í raun fyrirvara um fleiri atriði. Svo segja menn hér um þessa till. að hún sé skref í rétta átt. Í rauninni er hún ekkert skref. Hún er stefnuyfirlýsing en engar aðgerðir. Eins og ég sagði er eins og ríkisstjórnin telji sig þurfa að endurtaka það nú í lok síns starfsferils sem hún sagði í stjórnarsáttmála þegar hún var mynduð, að það sé meiningin að gera eitthvað í þessum málum. Nú segir hún að það sé meiningin að gera eitthvað af hálfu næstu ríkisstjórnar. Og það er auðvitað ekkert til í því sem hv. 1. þm. Vesturl. Alexander Stefánsson sagði að það sé eitthvað móðgandi fyrir næstu ríkisstjórn að hér væru lagðar fram einhverjar tillögur sem væru marktækari heldur en þetta. Ég hygg að næsta ríkisstjórn muni ekki þurfa á því að halda. Hún muni geta séð um sín mál sjálf og þurfi ekki á leiðbeiningum að halda eða tillögum frá þeirri ríkisstjórn sem nú er að kveðja.
    Það er á hinn bóginn alveg hárrétt sem fram kom frá hv. þm. Alexander Stefánssyni að þegar þetta mál kom til fjvn. fyrir jól þá komu nokkuð samtímis þau skilaboð frá ríkisstjórninni að ekki skyldi leggja eina krónu til viðbótar við það sem var í fjárlagafrv. til að

sinna þessum þörfum. Þar með var málið í raun og veru úr sögunni og allar stefnuyfirlýsingar nú marklausar eins og þetta plagg, það er gagnslaust. Þar ofan í kaupið er það rétt sem hv. 1. þm. Reykv. hefur sagt að það er óeðlilegt að flytja hér á Alþingi till. um að vísa tilteknu máli til stjórnarmanna í Landsvirkjun. Það er á verksviði hæstv. iðnrh. að ræða við forustumenn Landsvirkjunar um það að taka meiri þátt í þessum málum heldur en gert er nú. Það þarf enga ályktun Alþingis enda er hún gagnslaus í því efni. Það er hins vegar á verksviði yfirmanns orkumála að koma þeim tilmælum á framfæri. Og það var gert í tíð fyrrv. iðnrh., Friðriks Sophussonar, með þeim árangri að þá voru framlög Landsvirkjunar til þessarar verðjöfnunar 32 aurar en eru 16 aurar í dag. Þannig liggja nú þessi mál fyrir.
    Ég sagði það hér áðan að það dugar auðvitað ekki þó þetta mál væri afgreitt að segja það í þál. að það skuli taka 35 millj. af niðurgreiðslufé vöruverðs og færa það yfir í niðurgreiðslu á orku. Það þarf að gera það með lögum. Það þarf að gera það með fjáraukalögum eða fjárlögum. Ályktun gefur ekki viðskrh. heimild til að færa þetta á milli. Þannig að það er þá eini staðurinn í till. þar sem vikið er að fjármagni, það eru þessar 35 millj. En það væri ekki heimilt að taka það fé þó að till. væri afgreidd. Þess vegna er það líka gagnslaust.
    Já, virðulegi forseti. Ég held að það sé mjög þarft að ræða þessa till. Hér er vissulega um þýðingarmikið mál að ræða. Hér er um mál að tefla sem snertir afar mikið hagsmuni þess fólks sem býr við háan kyndingarkostnað. Það hefur vissulega gerst mikið á undanförnum árum, mörgum árum. Meðalverð raforku frá Rafmagnsveitum ríkisins er nú aðeins 13,6% hærra en frá Rafmagnsveitu Reykjavíkur eins og segir hér í skýrslunni sem fyrir liggur. Það haggar þó ekki því að það er rétt að taka tiltekin skref í þessum efnum frekar en gert hefur verið en það þarf enga stefnuyfirlýsingu nú þegar þessi ríkisstjórn er að kveðja til þess að því verði komið fram af nýrri ríkisstjórn. Og þó að það sé ekkert móðgandi, eins og hv. 1. þm. Vesturl. sagði, þá er það þarflaust og gagnslaust með öllu úr því að þessi hæstv. ríkisstjórn hefur ekki haft á prjónunum eða komið fram með neinar tillögur um aðgerðir, aðeins um stefnu, aðeins um að vísa þessu máli til framtíðarinnar.