Lækkun húshitunarkostnaðar
Mánudaginn 18. mars 1991


     Kristinn Pétursson :
    Hæstv. forseti. Ég ætlaði aðeins að minna aftur á hugmyndir sem ég kastaði hér fram áðan um næturhitun því að í þessu plaggi kemur vægast sagt lítið fram um hvernig eigi að jafna út raforkukostnað. Þetta eru ósköp góðar meiningar en það er ekki nóg að ætla að lækka raforkukostnað af því bara, eins og krakkarnir segja. Það gengur ekki að leggja hér fram plagg í hæstv. Alþingi og segja ,,með sérstökum aðgerðum`` og viðskrh. ,,ákveði á síðari helmingi þessa árs``. Af hverju ekki á fyrri helmingi? Var það ekki miklu nær fyrir þennan hæstv. ráðherra? ,,Fjmrh. beiti sér fyrir ráðstöfunum.`` Væntanlega ekki núv. fjmrh. heldur næsti. Þetta er náttúrlega voðalega létt í vasa að vera að kveðja stólana og vera að gera ráðstafanir fyrir aðra og Landsvirkjun á hugsanlega að borga eitthvað af hugsanlegum hagnaði í framtíðinni. Þetta eru svona punktar sem á að lækka stofnkostnað með. Þetta eru allt punktar sem eru bara kjaftæði og ekkert annað. Tómt kjaftæði. Þetta er ekki krónu virði.
    En ég vil benda á það, eins og ég sagði hér áðan, að hátt raforkuverð á landsbyggðinni er sérstaklega til komið vegna skattaokurs Alþingis á efni til dreifiveitna, 35% tollur, 18% vörugjald, 25% söluskattur og 6% jöfnunargjald. ( Gripið fram í: Söluskatturinn hlýtur að vera úr sögunni.) Þegar þessar dreifiveitur voru byggðar þá var þessi söluskattur á, hv. þm. Þetta tvöfaldaði allt efni til dreifiveitna á meðan Landsvirkjun fékk allt efni toll- og söluskattsfrjálst. Af hverju var Alþingi að mismuna Landsvirkjun annars vegar og dreifiveitunum hins vegar? Svo koma menn hér og hrópa: hátt raforkuverð, sjálfir búnir að búa það til. Það mætti kannski endurgreiða eitthvað af þessu skattaokri til dreifiveitna, ég vil ítreka það. Sú leið er fær. Hún er málefnalega rétt. Reikna það upp hversu mikið dreifiveiturnar eru búnar að skila í ríkissjóð í gífurlegu skattaokri sem er auðvitað mjög óréttlátt. Svo maður tali nú ekki um þann fáránleika að allt efni sem fer í línur yfir 135 kílóvolt er undanþegið þessum sköttum og tollum og gjöldum en allt efni undir því ber þessi gjöld. Af hverju? Sama skýring og áðan: Af því bara.
    Ég minni á það líka að olía er notuð í dag mikið til hitunar og ýmiss konar iðnaðar á Íslandi. Af hverju? Af því að þetta verð er allt of hátt þó nóg sé til af raforkunni og búið að byggja Blöndu fyrir 15 milljarða, þó það sé ekki búið að selja rafmagn í eina einustu ljósaperu. Það eru dálítið furðulegar ráðstafanir og sýnir það betur en nokkuð annað að kerfið á ekki að vera í kaupsýslu. Það væri nær að reyna að einkavæða þessi fyrirtæki svo að alvörukaupsýslumenn komist að til að selja þessa orku. Þeir væru löngu búnir að því ef þeir hefðu komist að.
    Ég ítreka það að næturhitun er raunhæfur valkostur. Það er nóg af orku til. Hún rennur bara í sjó fram á nóttunni. Lítið er betra en ekki neitt, það er lögmál í viðskiptum og þar af leiðandi hlýtur að vera rökrétt að selja næturhitun. Það er furðulegt að engar slíkar hugmyndir skuli koma fram í þessu yfirgripsmikla

plaggi upp á tæpar 50 blaðsíður. Engar hugmyndir.