Íslensk heilbrigðisáætlun
Mánudaginn 18. mars 1991


     Ragnhildur Helgadóttir :
    Frú forseti. Mér varð ekki um sel þegar hv. síðasti ræðumaður kom með ábendingu sína því ég þóttist líka hafa lesið till. hv. félmn. allgaumgæfilega og sá þetta hvergi. Sem betur fer var þetta einungis í frumskjalinu en hafði verið lagfært.
    Ég hef mikinn áhuga á því að þau markmið flest sem eru talin í íslenskri heilbrigðisáætlun nái fram að ganga og að eftir þeim sé unnið. Mér virðist hv. félmn. hafa unnið ákaflega gott starf. Það eru nokkur atriði sem gerð hafa verið ákveðnari, þau hafa verið stytt, en um leið ná þau betur fram sem almenn markmið. Einkanlega líkar mér vel að hv. nefnd hefur nú í kvöld ákveðið að breyta 2. gr. till. þannig að í staðinn fyrir það sem stendur nú: ,,Heimilt verði að gera samninga við félög og samtök um að annast afmarkaða rekstrarþætti í heilbrigðisþjónustu eftir því sem hagkvæmt er talið,`` þá sé ekki einungis talað um félög og samtök, heldur ,,einstaklinga, félög og samtök`` því það segir sig sjálft að það hlýtur að vera skynsamlegt. Við höfum fyrir okkur nærtæk dæmi þar sem einmitt þessi ráðstöfun, að semja við einstaklinga eða einkaaðila um afmarkaða þætti, getur verið afar skynsamleg, getur létt kostnaði og framkvæmdum af hinu opinbera.
    Dæmi um þetta er t.d. þegar nokkrir læknar og heilbrigðisstarfsmenn taka sig saman og reka heilsugæslustöð í Álftamýri í Reykjavík. Það er einkarekin stofnun en skilar ágætlega sínu hlutverki sem heilsugæslustöð. Þetta er nærtækt dæmi og við getum látið okkur detta í hug ýmsa aðra þjónustu þar sem færustu sérfræðingar á einhverjum sviðum reka sameiginlega lækningastöð og gætu tekið að sér vissa þætti.
    Ég held að með því að opna svona ákvæði betur fyrir fjölbreyttari rekstri séum við líka að tryggja frekar möguleika til þess að nýta sem best sérfræðiþjónustuna í landinu. Annars gæti verið að þetta stig heilbrigðisþjónustunnar færi á mis við þekkingu og þjálfun hinna bestu sérfræðinga sem ella kæmu e.t.v. ekki inn í hinar almennu heilsugæslustöðvar. Ég held með öðrum orðum að þetta sé mjög mikilvæg breyting, ef samþykkt verður. Hún þýðir það í raun og veru að þessi þáltill. verður minna við það miðuð að hafa allsherjarmiðstýringu eða allt inni í hinum opinberu heilsugæslustöðvum, heldur er gert ráð fyrir meiri sveigjanleika sem þá um leið á að tryggja betri þjónustu.
    Hitt er svo annað mál að ég skal í engu draga úr mikilvægi heilsugæslustöðvanna vítt og breitt um landið og það er auðvitað ekki nokkur vafi á því að víða um land hafa heilsugæslustöðvarnar orðið beinlínis til þess að gera staðina byggilegri. Um hitt getum við svo deilt að e.t.v. hefur verið nokkuð mikið í borið sums staðar og gert ráð fyrir miklu stærri byggðarlögum heldur en raun ber vitni. En það er önnur saga og sá íbúafjöldi kann líka að breytast á hverjum stað.
    Ég fagna auðvitað þeirri áherslu sem er að finna í þessari útgáfu sem kemur frá hv. félmn. á heilbrigða lífshætti sem undirstöðu góðs heilsufars fólksins í landinu. Það er e.t.v. til langs tíma litið það skynsamlegasta og raunhæfasta sem við getum gert til að létta á þeim kostnaði sem mörgum finnst óhóflegur í heilbrigðisþjónustunni. En við göngum þess þó ekki dulin að kostnaðurinn hlýtur samt að verða mikill ef við viljum veita þá þjónustu sem fullnægjandi er talin í menningarsamfélagi sem hefur þróast langt fram á veginn.
    Ég ætla ekki að fjalla hér um hverja grein, það tel ég óþarft. Þessi till. hefur legið fyrir Alþingi nú tvö ár í röð og áður var íslensk heilbrigðisáætlun kynnt í minni tíð sem heilbrrh. Hún var lögð fram til kynningar fyrir alþingismenn og reyndar fleiri, eða drögin eins og þau voru þá, og síðan var fjallað um þau á ýmsum landsfundum heilbrigðisstétta, læknafundum og öðrum fundum heilbrigðisstétta. Hún tók töluverðum breytingum og hefur svo vafalaust að einhverju leyti fengið mark sitt af því að það hafa verið ráðherrar með mismunandi stjórnmálaskoðanir sem standa hér á bak við. Þó er munurinn að þessu leyti til ekki eins mikill og e.t.v. mætti búast við því að grundvallaratriðið er það sama: Að setja fram stefnu sem fyrst og fremst byggir á upplýsingum, fræðslu og hvatningu til heilbrigðs lífernis á hinum ýmsu sviðum og að því er varðar hina ýmsu þætti heilbrigðisins.
    Frú forseti. Ég rak augun í fáein atriði sem mér sýnist fljótt á litið að sé e.t.v. ekki meðvituð efnisbreyting af hálfu hv. nefndar, heldur sé þar kannski um eins konar prentvillu að ræða.
    Það er í fyrsta lagi við 24. tölul. í 5. mgr. Þar segir: ,,Gera skal ráð fyrir að geðspítalar í Reykjavík og á Akureyri taki að sér þjónustuhlutverk fyrir ákveðin heilsugæslusvæði.`` Ég rak augun í þetta orð ,,geðspítalar`` því að það eru áratugir síðan að nokkur geðspítali var í landinu. Nútímaþróunin hefur verið sú að geðspítalar eru ekki sérstakar stofnanir heldur fá geðsjúklingar sína heilbrigðisþjónustu á sérstökum deildum innan almennra sjúkrahúsa. Þannig að í stað orðsins ,,geðspítalar`` ætti í rauninni að standa geðdeildir til að það sé í samræmi við þá starfsemi sem um er að ræða.
    Enn fremur kemur í næstu málsgrein þar á eftir ,,að sjúklingar með langvarandi geðsjúkdóma fái inni á langlegudeildum eða sambýlum með öðrum sjúklingum``. Þarna virðist mér vanta ,,og njóti þar geðlæknisþjónustu``. Því það er ekki nóg að búa inni á sambýli með öðrum sjúklingum ef geðlæknisþjónustunni eða geðheilbrigðisþjónustunni sérstaklega við þessa sjúklinga er ekki til að dreifa. Þannig að ég tel alveg nauðsynlegt að það komi líka.
    Síðan er eitt atriði enn. Það er líka kannski svona smááferðarbreyting en ekki mjög alvarleg. Það er setning í 2. mgr. 30. tölul. sem ég skildi bara alls ekki, en það má vel vera að mér vitrara fólk skilji hana. Hér stendur:
    ,,Heilbrigðisrannsóknir skulu efldar og í því skyni gerð sérstök rannsóknaáætlun fyrir árið 1993 til að styðja framkvæmd þessarar heilbrigðisáætlunar.``
    Ég held einhvern veginn að þarna hafi tveimur setningum hlotið að slá saman og það hafi bara átt að standa: ,,Gerð skal sérstök áætlun fyrir árið 1993 til

að styðja framkvæmd o.s.frv.`` Rannsóknaáætlun til að styðja framkvæmd heilbrigðisáætlunar, mér finnst það vera eitthvað pínulítið einkennilegt og að það hljóti að eiga að vera bara áætlun til að styðja hana með hverju sem það væri. Því það er jú búið að nefna áður að heilbrigðisrannsóknir skuli efldar. Og til að draga ekki úr mikilvægi þess að
leggja áherslu á rannsóknir á sambandi lífshátta og umhverfis á heilsufar, þá hefði ég talið að það ætti ekki að fylgja þarna með sem áhersluatriði rannsóknir á heilbrigðiskerfinu sjálfu. Mér finnst það vera nokkuð naflaskoðunarlegt að nefna það eftir allar þessar greinar um heilbrigðiskerfið sjálft, svo sé það áhersluatriði að rannsaka heilbrigðiskerfið sjálft. Mér virðist það liggja í augum uppi að það hljóti stjórnvöld að gera jafnan og ekki bara stjórnvöld heldur ýmsir aðrir aðilar en einhvern veginn finnst mér það draga úr áherslunni á hitt atriðið sem mér finnst skipta meginmáli, rannsóknir á sambandi lífshátta og umhverfis á heilsufar. Það voru einungis þessi atriði sem ég tel að þyrftu nauðsynlega að koma fram, þessi fáu atriði.
    Að öðru leyti get ég út af fyrir sig tekið undir það sem hv. 5. þm. Austurl. sagði áðan að það er kannski ívið of mikil áhersla á heilsugæslustöðvarnar sem lausn á öllum heilbrigðisvanda, en ég er þó þeirrar skoðunar að með þessum breytingum, og einkanlega með breytingunni í 2. gr., skapist það jafnvægi í þetta þskj. að mér virðist það vera til bóta og vera ákaflega margt skynsamlegt og glöggt í því. Mín persónulega skoðun er því sú að hv. nefnd hafi unnið ágætt starf og það hafi verið mjög jákvætt að hæstv. ráðherra lagði þetta verkefni fram. Og ég undirstrika það að hv. nefnd hefur lagt til að stefnan í heilbrigðismálum skuli taka mið af þessari áætlun. Kannski hefði verið enn betra að það hefði verið endurskoðunarákvæði í lokin því að aðstæður í þjóðfélaginu breytast og vísindum fleygir fram og heilbrigðisþjónustan tekur oft mið af slíkum breytingum þannig að ég er ekki frá því að það hefði verið skynsamlegt að hafa ákvæði um að áætlun þessi væri endurskoðuð að þremur árum liðnum eða svo, enda er það svo að eftir því sem árangur næst á einu sviði þarf kannski að flytja aðaláhersluna á annað svið.