Íslensk heilbrigðisáætlun
Mánudaginn 18. mars 1991


     Frsm. meiri hl. félmn. (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka þá umræðu og ábendingar sem hér hafa komið fram við umræðuna um tillögu félmn. í þessu máli. Einnig ágætt upphaf frá hv. 2. þm. Vestf. sem ætlaði að bregðast við hortitti sem var í upphaflegu málsskjali og virði ég það við hann að ætla að koma því á framfæri svo sem skylt er, ef slíkt er í þingmálum.
    Hér hafa komið fram nokkrar athugasemdir fyrir utan það sem fyrir lá í nál. minni hl. félmn. Einnig hefur komið fram, eins og ég gerði grein fyrir, brtt. frá allri nefndinni. Hv. 2. þm. Reykv., sem upphaflega lagði þetta mál fram, hefur gert tillöguna að umtalsefni og gefið ábendingar um atriði í tveimur málsliðum sem betur mættu fara, málfarslega og kannski til að skýra samhengi. Ég hef heyrt að hv. þm. ætlaði sér að leggja fram brtt. til endurbóta á þessum málsliðum. Ég tel út af fyrir sig að það geti farið ágætlega á því að lagfæra það og ekki síst ef það væri nú til að stuðla að heildarsamkomulagi um málið þannig að allir yrðu samferða um afgreiðslu þess. Ef óskað er eftir því að félmn. beri sig saman um þær tillögur sem eru hér á leið núna inn í þingið frá hv. 2. þm. Reykv. þá tel ég það síst eftir mér að kalla nefndina saman. Ég met það mikils ef það getur tekist heildarsamkomulag um þetta mál. Í rauninni ber hér sáralítið efnislega á milli sýnist mér eftir þá breytingu sem þegar er búið að kynna svo að ég vona að þetta mál fái farsælar lyktir.