Samningar um álver
Mánudaginn 18. mars 1991


     Hreggviður Jónsson :
    Hæstv. forseti. Það mál sem hér liggur fyrir er viðamikið mál og hafa sumir þingmenn því ekki getað haldið mjög stuttar ræður um það. Það er hins vegar svo að flestir sem hafa talað hingað til hafa verið á móti málinu, en ég er einn af þeim sem hljóta að vera fylgjandi þessu máli. Ég tel að vinna í sambandi við álver sé mjög mikilvæg fyrir efnahagslíf þjóðarinnar á komandi árum og geti haft veruleg áhrif í þá veru hvort hér verður haldið uppi mannsæmandi lífskjörum fyrir þjóðina.
    Það er tvímælalaust svo að áhugi iðnrh. á þessu máli er mikill, en það er einnig svo að það eru margir aðrir sem hafa áhuga á þessu máli, þar á meðal fjöldi manna sem gerir sér grein fyrir því að tilkoma nýrra atvinnutækifæra í slíkri stóriðju mun skapa fjölþætta atvinnumöguleika hér á suðurhorninu sérstaklega. Það er nú í fyrsta lagi að það er ekki aðeins vinnan við álverið heldur hefur það sýnt sig við það álver sem núna er þegar risið að það hefur sprottið upp mjög fjölþættur verktakaiðnaður sem hefur þýtt það að atvinnulífið hér, t.d. í Hafnarfirði og víða í kring, hefur orðið miklu öflugra en annars hefði orðið.
    Það hefur verið nokkuð rætt um mengunarþátt með slíku álveri og ég get nú ekki orða bundist um það. Það vildi svo til að hæstv. iðnrh. stóð fyrir því að hér komu tveir sérstakir fulltrúar sem unnu í verksmiðju við Mt. Holly í Suður - Karólínu, tvær konur sem voru þar sérstakir mengunarvarnaráðunautar, og skýrðu okkur sem komum á þann fund frá þeim mengunarvörnum sem í því álveri eru. Og ég verð að segja eins og er að eftir þær upplýsingar, sem þessir mengunarvarnafulltrúar gáfu, sýnist mér það vera nokkuð ljóst að mengunarvörnum sé nokkuð vel fyrir komið í slíku álveri og þegar litið sé á ýmiss konar annan iðnað og rekstur, þá séu alls ekki nein vandræði af slíkum iðnaði.
    Mér hefur hins vegar fundist það vanta í þessa umræðu að ál er í dag talinn grænn málmur. Og hvað þýðir það? Það þýðir að umhverfisverndarsinnar telja ál þann málm sem þeir leggja áherslu á að notaður verði í framtíðinni vegna þess að ál er einhver hagkvæmasti málmurinn til endurvinnslu, þ.e. þegar við tökum t.d. stál og endurvinnum það, þá notar endurvinnslan jafnmikla orku og við upphaflegu vinnsluna en þegar ál er endurunnið, þá mun að vera um það bil 10% af upphaflegu orkunni sem fer í það að endurvinna álið. Þess vegna er það, að ég má segja, að flestir stærstu bílaframleiðendur heimsins hafa ákveðið að ál muni í auknum mæli verða notað við bílaframleiðslu. Þeir sjá það að þeir muni geta endurnýtt þann málm þegar bifreiðunum er lagt og þá muni vera tiltölulega ódýrt að endurvinna þann málm. Þess vegna er álframleiðsla mjög jákvæð framleiðsla af málmum að vera og talinn grænn málmur.
    Þá er það einnig svo að vegna léttleika álsins hefur það líka þau jákvæðu áhrif að þegar ál er t.d. orðið stærsti hluti í málmsamböndum bifreiðar, þá verður hún miklu léttari og þarf því miklu minni orku til að aka þeirri bifreið. Þetta ásamt ýmsum öðrum upplýsingum lýtur að því að ál sé mjög jákvæð framleiðsla. Ég ímynda mér að með þeirri nýju bifreið sem General Motors er að setja núna á markaðinn, sem er knúin rafmagni, verði rafmagn og ál sameiginlega grundvöllur fyrir því að mengun muni fara mjög minnkandi hér á Vesturlöndum.
    Það var hins vegar fróðlegt á dögunum að fylgjast með umræðu í Noregi um náttúrugas og notkun þess í Noregi, en ýmsir umhverfissinnar hafa lagst gegn því að það gas verði notað í Noregi vegna þess að það muni minnka þann kvóta, eins og menn vilja kalla um þau eiturefni sem sleppa út í loftið við notkun á slíku gasi. En þá hafa þeir menn sem best þekkja til þar sýnt fram á það að auðvitað sé ekkert verra að það sé notað í Noregi heldur en t.d. í Mið - Evrópu þar sem mengun er þegar svo mikil að það er ekki á bætandi, auk þess sem Norðmenn hafa bent á það að trjárækt í Noregi gerir meira en að uppfylla allar vonir manna um minnkun á koldíoxíði í lofti, og hinar grænu plöntur muni éta upp koldíxoíðið sem fer út í andrúmsloftið í Noregi.
    Þetta munum við líka geta lagt meiri áherslu á, að við byggjum upp okkar skóga og gróður sem mun þá vega á móti slíku, en hitt er annað mál að ef við færum nú að þeim tilmælum sem menn hafa verið að tala um hér um mengunaráhrifin, þá mætti alveg eins hugsa sér það að við bönnuðum eldgos því að mesta mengunin á Íslandi í gegnum tíðina er náttúrlega í gegnum eldgos og náttúruhamfarir. Og það sjá allir að við gætum auðvitað ekki gert það. En hitt er annað mál að ég tel að sú bygging á álveri sem hér er verið að vinna að sé stórkostlega jákvæð fyrir íslenskt samfélag og fyrir efnahagslífið.
    Við þingmenn Reykjaness höfum séð það og erum allflestir sannfærðir um það, held ég ég megi segja, að einum undanskildum, að það að reisa verksmiðju á Suðurnesjunum er besta staðsetningin á landinu til slíkra hluta, bæði með tilliti til umhverfismála, með tilliti til samgangna, með tilliti til samgangna við útlönd og flutninga til fyrirtækisins, þannig að við teljum að það sé jákvæð staðsetning sem hefur nú verið ákveðin á þessu fyrirtæki.
    Megináherslan er auðvitað sú að öll íslenska þjóðin njóti hagsældar sem slíkt fyrirtæki kemur til með að veita okkur. Og þá er auðvitað mjög mikilvægt að skattareglur fyrirtækisins séu þannig úr garði gerðar að við græðum á þessu skattalega og að orkusalan sé okkur hagstæð. Þetta eru kannski þau tvö atriði sem skipta miklu máli. Ég tel að þeir menn sem sitja í Landsvirkjun og þeir menn sem vinna að þessum málum séu það miklir Íslendingar að þeir muni ná hagstæðum samningum í þessum atriðum og það muni verða landi og þjóð til mikillar hagsældar að hér verði reist álver í framtíðinni.
    Ég hef heyrt menn hafa uppi ýmsa meinbugi varðandi það að hér rísi álver, en ég tel alveg ótvírætt að þeir meinbugir séu í mörgum tilfellum byggðir á misskilningi, vanþekkingu og hreint og beint öfgum. Að

það sé svo að menn lifi enn þá í fortíðinni, átti sig ekki á því að það eru breyttir tímar, breyttar forsendur fyrir umhverfisvænum áhrifum í slíku álveri og fyrir ýmsu öðru því sem menn hafa dregið fram neikvæðu, þannig að ég tel að þessi framkvæmd muni á allan hátt stuðla að hagvexti og betri kjörum hér á landi.
    Ég vil líka undirstrika aftur hér að álið sem grænn málmur verður í vaxandi mæli notaður í framtíðinni vegna þess að menn telja það þann málm sem best og hagstæðast er að nota til framleiðslu á bæði bifreiðum og öðrum hlutum einfaldlega af því að það er svo hagstætt að endurvinna ál miðað við aðra málma. Ég hef þegar heyrt þá umræðu erlendis að margir umhverfissinnar líta mjög jákvæðum augum á þennan málm og ég hygg að í framtíðinni verði einmitt álver talið mikilvægt til að framleiða þennan umhverfisvæna málm sem mun skapa okkur betri og öruggari heim í framtíðinni.
    Ég gæti út af fyrir sig sagt töluvert meira um þetta mál en hafði ekki hugsað mér að hafa það mál mjög langt nú af því að eins og þjóðinni er kunnugt hefur verið allítarleg umræða um málið þó að við sem erum sannfærðir um ágæti málsins höfum ekki tekið mikið til máls hér. En ég vil undirstrika það að ég tel að álver eigi að rísa, það sé til heilla fyrir þjóðina, bæði efnahagslega og það sé sómi að því frá umhverfissjónarmiðum því að grænn málmur eins og ál mun í auknum mæli í framtíðinni verða notaður og talið af umhverfissinnum mikilvægt að við notum meira af áli heldur en stáli og öðrum málmum í framtíðinni.