Samningar um álver
Mánudaginn 18. mars 1991


     Stefán Valgeirsson :
    Virðulegi forseti. Hæstv. iðnrh. gat um það að tveir þingmenn hefðu rætt um það að ál færi mikið í hernaðartæki og nefndi þar hv. 6. þm. Norðurl. e. ( Viðskrh.: Ég ætlaði að segja 7.) Ég minntist ekki á það í minni ræðu en síðan segir hæstv. iðnrh. að aðalþörfin fyrir ál séu umbúðir. ( Viðskrh.: Byggingariðnaður og umbúðir.) Já, byggingar og umbúðir. Það er eins og hæstv. ráðherra viti það ekki að það er farið að ræða um það í mörgum löndum að ál sé ekki nothæft utan um matvörur, drykki eða í matarílát vegna þess útfelling sé úr áli sem sé skaðleg heilsu manna. Þetta skýtur því dálítið skökku við það sem vísindamenn og læknar eru að prédika, t.d. í Svíþjóð, Þýskalandi og víðar. Ef þetta er rétt, sem ég hef ekki ástæðu til að rengja, þá gæti nú eftirspurnin eftir áli í framtíðinni orðið minni en hæstv. iðnrh. vildi hér vera láta.
    Í einhverri skýrslu sem ég sá í sambandi við þessa samninga við álfurstana kom það fram hjá einum þeirra að það væri venja þeirra að semja ekki um orkuverð fyrr en væri búið að virkja og orkan væri til staðar. Það er sjálfsagt rétt að þetta er þannig vegna þess að þegar þannig stendur á hafa þessir auðhringar þá aðila sem eru búnir að virkja, þ.e. bráðina, í hendi sér. Eitt af því sem hv. þm. Páll Pétursson sagði hér á dögunum var að það sem hefði gert það að verkum að hann hefði dálítið breytt sinni stefnu í sambandi við byggingu álverksmiðju væri það að við værum með svo mikla orku sem við hefðum ekkert með að gera.
    Ég saknaði þess þegar ég talaði í fyrra skipti að hv. þm. Páll Pétursson var ekki hér vegna þess að ég hef komist yfir greiðsluáætlun frá Landsvirkjun þar sem er sagt að þegar búið er að fullklára Blönduvirkjun verði skuld Landsvirkjunar um 39 milljarðar. Þar segir og að orkugjaldið sem þeir setja á sé miðað við það að í árslok 2004 verði þessi skuld öll upp greidd og gera ráð fyrir í þeirri áætlun að engin stóriðja rísi á þessu tímabili því að næstu virkjunarframkvæmdir séu áætlaðar að verði um árið 2003 ef þannig yrði staðið að málum.
    Ég vil því spyrja hv. þm. Pál Pétursson að því hvort hann viti af þessu. Hvort hann viti um þessa áætlun og hvort landsmenn séu látnir borga þessar skuldir það hratt niður og orkuokrið í landinu sé fyrst og fremst af því að endurgreiðslutími er ekki miðaður við nema 15 ár frá árinu í ár. Þetta er mjög alvarlegt. Ég er hér með fyrir framan mig áætlanir frá Landsvirkjun um kostnað og orkuframleiðslu um 15 virkjanir. Langlægsti kostnaðurinn á hverja ársgwst. er í Nesjavellir I, rúmar 5 millj. hver ársgwst. og Nesjavellir II, tæplega 8 millj. Þar er Blönduvirkjun t.d. með, miðað við þáverandi áætlun sem var 12 milljarðar 654 millj., tæpar 21 millj. Dýrasta virkjunin var 25 millj. 545 þús. og það var Fjarðará.
    Ef tekið er meðaltal af þessum 15 virkjunum, sem er auðvitað rökrétt að miða orkusöluna við, mundu þessar rúmlega 3000 ársgwst. sem þarf fyrir 210 þús.

tonna álbræðslu með virkjunum, háspennulínum og spennivirkjum vera, miðað við nýjustu upplýsingar, um 57 milljarðar. Svo eru menn hér, ráðherrann og fleiri, að tala um að það verði svo hagkvæmt að fara í þessar framkvæmdir. Þetta er fullyrt þó að ekkert sé vitað um hvaða samningar nást um orkuverðið. Þetta er þess vegna sama blekkingarþvælan mánuð eftir mánuð.
    Sannleikurinn er t.d. sá að á Akureyri er atvinnuleysið langtum meira vegna þeirrar væntingar sem íbúarnir þar höfðu um að fá álver. Ég þekki ekki ástandið austur á Reyðarfirði en ég gæti trúað því að það væri það sama. Það er verra vegna þess að þeir höfðu væntingar um það að álver yrði reist á Reyðarfirði sem auðvitað aldrei stóð til frekar en með Eyjafjörð.
    Í bréfi Landsvirkjunar, sem er dags. 21. febr. sl., segir að sú verkáætlun sem Landsvirkjun hefur unnið eftir undanfarið vegna virkjana í þágu nýs álvers geri ráð fyrir að unnt sé að gera verksamninga í lok maí nk. Nú bendir hins vegar allt til þess að þessum tímamörkum verði ekki náð þar sem Landsvirkjun treystir sér ekki til þess að fara í framkvæmdir fyrr en fyrirvaralaus rammasamningur við Atlantsál hf. liggur fyrir. Það sést á þessu bréfi frá Landsvirkjun að tillaga sú sem liggur fyrir frá hv. þm. Ragnari Arnalds er alveg í samræmi við það. Það er dálítið merkileg niðurstaða sem ég hef heyrt eftir hæstv. iðnrh. að hann berjist á móti því að slík tillaga verði samþykkt þó að fyrir liggi hér bréflega frá Landsvirkjun að þeir muni ekki treysta sér til að fara í framkvæmdir fyrr en þessi orkusamningur er frá genginn. Enda telja margir sem fylgjast með þessum málum að það séu ekki nema 10% líkur fyrir því að samningar muni nást miðað við þann orkukostnað sem við verðum fyrir og þurfum að fá endurgreiddan. A.m.k. hefur hæstv. iðnrh. sagt að hann muni ekki semja öðruvísi en að fá fulla greiðslu fyrir orkuna. Hann sagði í því sambandi, að mig minnir, að orð skuli standa. Þau hafa nú ekki alltaf staðið.
    Hér talaði hv. þm. Hreggviður Jónsson áðan langt mál og var að lofa álverksmiðjur og þetta væri nú mjög æskileg atvinnugrein. Hvernig stendur þá á því að þjóðir sem hafa haft þessar verksmiðjur eru að reyna að losa sig við þær? Það er dálítið merkilegt og stangast á við fullyrðingar sem álmenn halda fram.
    Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa þetta öllu lengra. Ég gleymdi því áðan þegar ég var að tala um Nesjavallavirkjanirnar, sem eru langtum ódýrari en aðrar virkjanir, og meðaltalið sem er miðað við það sem hér er á blaði, að borgarstjórinn í Reykjavík hefur sagt að þeir mundu ekki láta orkuna fyrir kostnaðarverð. Þeir mundu vilja fá meira fyrir orkuna. Þarna er því kannski ekki um mjög stóran póst að ræða, en þó er þessar virkjanir báðar um 360 ársgwst.
    Ég mun beita mér fyrir því eins og ég get að styðja tillögur hv. þm. Ragnars Arnalds, enda eru öll rök fyrir því að þær verði samþykktar miðað við það sem ég vitnaði í bréf Landsvirkjunar.