Samningar um álver
Mánudaginn 18. mars 1991


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa mjög langt mál hér við þessa umræðu þar sem svo hafði um samist að reynt yrði að flýta fyrir því að ljúka hér í kvöld. Ég get hins vegar ekki látið hjá líða að koma upp eftir þá ræðu sem hæstv. umhvrh. hélt áðan. Vonast ég til þess að hann sjái sér fært að koma hér í salinn til að hlýða á það sem ég hef fram að færa sem andsvör við því sem hann sagði, og þá sérstaklega varðandi það sem ég hef sagt fyrr í þessari umræðu.
    Ég hef ýmislegt fram að færa í þessu máli og er langt frá því að ég hafi verið búin að segja það sem ég hefði helst viljað segja, en þar sem nú er langt liðið á nótt og kominn tími til að fólk hvíli sig, þá hef ég ákveðið að takmarka mig fyrst og fremst við umhverfisþáttinn í þessari ræðu minni.
    Hæstv. iðnrh. endaði sína ræðu áðan á því að vitna til 28. gr. þingskapalaga um umræður við þáltill. Ég vildi einnig benda hæstv. iðnrh. á að lesa 3. mgr., síðasta hluta hennar þar sem segir um frávik frá þeim umræðutíma, með leyfi forseta: ,,Forseti getur ákveðið frávik frá þessari málsmeðferð ef fyrir liggur rökstudd beiðni þingflokks þar að lútandi. Hver þingflokkur hefur rétt til að bera slíka beiðni fram við forseta einu sinni á hverju þingi.``
    Það hefur að vísu ekkert reynt á það að biðja um lengri umræðu í þessu máli, en ég vil benda á að það er möguleiki á því ef þingflokkur óskar eftir lengri umræðu.
    En það sem ég vildi nú fyrst og fremst ræða hér var við umhvrh. Hann heldur því fram að ég hafi verið með órökstuddar fullyrðingar og dylgjur, eins og hann kaus að orða það. Ég vil vísa þessu á bug. Hann vitnaði til ,,færustu sérfræðinga á þessu sviði`` og til þess að safnað hafi verið saman miklu af upplýsingum. En síðan komu ákaflega lítil rök fyrir því máli hans um það hversu góðar mengunarvarnir mundu verða í þessu álveri. Ég hef undir höndum ýmsar upplýsingar um mengunarvarnir í álverum í heiminum.
    Hérna var sérstaklega vitnað til að í Noregi væri þess ekki krafist að brennisteinsdíoxíð væri hreinsað. Ég vil þó upplýsa hæstv. umhvrh. um það að í verksmiðjum í Noregi og í Svíþjóð er yfirleitt notaður svokallaður vothreinsibúnaður sem mikið hefur verið til umræðu í þinginu. Það má vel vera rétt að ekki sé krafist þess að vothreinsibúnaður sé í verksmiðjum t.d. í Noregi. Hins vegar eru kröfurnar um það hversu mikið brennisteinsdíoxíð má fara út í andrúmsloftið það strangar að verksmiðjurnar geta ekki náð niður því sem fer út í andrúmsloftið af brennisteinsdíoxíði nema með því að koma upp vothreinsibúnaði. Af þeim átta verksmiðjum sem eru í Noregi eru sjö með þennan búnað. Ég skil því ekki þær fullyrðingar hæstv. umhvrh. að ekki séu gerðar kröfur um að brennsludíoxíð sé hreinsað. Hvaðan eru þær upplýsingar fengnar?
    Ef athugað er hversu mikið brennisteinsdíoxíð sleppur út í andrúmsloftið við það að krafist er að brennisteinsinnihald í skautum fari ekki yfir 2%, þá

fara um það bil 20 kg af brennisteinsdíoxíði út í andrúmsloftið pr. tonn af áli. Það er síðan hægt að hreinsa þetta brennisteinsdíoxíð og það hefur verið talað um að hægt sé að ná um það bil 90% hreinsun, t.d. með vothreinsun eða öðrum búnaði, og þá er hægt að koma þessu niður í 2 kg af brennisteinsdíoxíði pr. tonn af framleiddu áli. Þetta er gert í flestum nýjum verksmiðjum, ekki bara í Noregi og Svíþjóð, heldur einnig í Bandaríkjunum. Í tveim álverum í Bandaríkjunum er vitað að hreinsað er brennisteinsdíoxíð, þ.e. í Columbia Aluminium Corporation í Goldingdale í Washington og í Nordwest-Aluminium í Dallas í Oregon. Ég skil því ekki hvers vegna því er haldið fram að nánast hvergi sé krafist hreinsunar á brennsludíoxíði. Og ég endurtek að það má vel vera að ekki sé sagt að það eigi að hreinsa brennisteinsdíoxíð, en það er sagt að brennisteinsdíoxíðið í útblæstrinum eigi að vera það lágt að ekki er hægt að gera það öðruvísi en með hreinsun. Það eru því bara útúrsnúningar og vitleysa að halda því fram að það sé ekki gert.
    Ég veit að hæstv. ráðherra hefur m.a. heimsótt verksmiðjur, vegna þess að ég hef undir höndum skýrslu úr ferð sem nokkrir fulltrúar frá umhvrn. fóru í. Í þessari skýrslu eru taldar upp þær verksmiðjur sem heimsóttar voru. Þar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Öllum verksmiðjunum er skylt að nota kolaskaut með innan við 2% innihald af brennisteini. Brennisteinsinnihald kolaskauta er 1 -- 1,1 hjá Gränges, 1,3 -- 1,5 hjá LMG [sem er í Essen] og 1,5 hjá Pechiney. Pechiney þarf að greiða skatt af hverju kílói af brennisteinsdíoxíði sem fer yfir 400 tonn á ári.`` Nú var það upplýst í umræðunni að brennisteinsdíoxíð sem færi út í andrúmsloftið hér væri, ef ég heyrði rétt, 4800 tonn á ári. Þarna er því verið að tala um verulega mikið af brennisteinsdíoxíði sem á að fara út í andrúmsloftið óhreinsað og ég tel þá kröfu sem talað er um að hér eigi að gera, um 2% innihald í skautum, ekki vera viðunandi. Ég get ekki fallist á það. Mér finnst það alveg með ólíkindum ef allir þeir sérfræðingar sem hæstv. umhvrh. hefur talað við eru sammála því að þetta séu eðlilegar kröfur af hálfu umhvrn. og íslenskra stjórnvalda að því er varðar hreinsun á þessu efni.
    Það liggur nú við að ég eigi erfitt með að elta ólar við allt það sem kom fram hjá hæstv. umhvrh. Hann stekkur í símann þannig að það er dálítið erfitt að eiga samræður við hann í gegnum annan, en það sem mér fannst líka mjög merkilegt var það að hæstv. umhvrh. virtist helst telja að það væri allt í lagi að bæta við meiri mengun vegna þess að það væri svo mikil brennisteinsmengun fyrir. Nú hafi hann skyndilega uppgötvað að svo mikil mengun kemur bæði frá háhitasvæðum og eins frá eldsumbrotum að það væri hreinn dvergur að bæta við einu álveri eða svo. Þetta fannst mér einkennileg röksemdafærsla, að úr því að subbugangurinn sé svo mikill þá sé allt í lagi að bæta örlitlu við.
    Síðan vildi hæstv. umhvrh. upplýsa okkur kvennalistakonur um það að það hafi verið framleitt vetni á

Íslandi í einhvern tíma. Ég vildi benda hæstv. ráðherranum á að lesa till. til þál. sem er á þskj. 139 um framleiðslu vetnis frá þingkonum Kvennalistans þar sem m.a. segir, með leyfi forseta:
    ,,Hér á landi er vetnisframleiðsla vel þekktur iðnaður. Áburðarverksmiðjan í Gufunesi hefur framleitt vetni í nær 40 ár. Hér höfum við mikla möguleika á að framleiða raforku og íslenskir vísinda - og tæknimenn standa framarlega á þessu sviði.``
    Þarna fannst mér yfirlætið alveg gífurlegt hjá hæstv. umhvrh. Það var eins og hann héldi að við vissum ekki hvað við værum að segja. Hann ætti nú að reyna aðeins að athuga sinn gang áður en hann kemur hér upp og er með dylgjur og heldur því fram að það sem ég hef verið að segja sé helst byggt á lygi, eins og mátti ráða af því sem hæstv. ráðherra sagði. Verið er að ræða málefnalega um þetta mál og reyna að tryggja að þannig sé haldið á mengunarvörnum hér á landi að landið sé ekki eyðilagt. Einna helst dettur hæstv. ráðherranum í hug að það sé nú best að planta bara skógi hringinn í kringum álverið og leyfa svo bara eins mikla mengun og hver vill. Er ég hrædd um að skógurinn mundi fljótt drepast ef allt það brennisteinsdíoxíð fer út í andrúmsloftið sem virðist eiga að leyfa frá þessu álveri.
    Kostulegast fannst mér þó hjá ráðherranum þegar hann fór að tala um að við ættum að hætta allri móttöku ferðamanna. Hann ætlar líklega að setja það á stefnuskrá að núna ætti að vera okkar helsta markmið að stöðva allan straum ferðamanna hingað til lands og fara þar með eftir tilmælum frá umhverfismálastofnun Sameinuðu þjóðanna þar sem hún óskaði eftir því að dregið yrði úr ferðamannastraum til landsins. Þykir mér þá að hæstv. forsrh. hafi lítið hlustað á tillögur frá hæstv. umhvrh. þar sem hann leggur það helst til í atvinnuuppbyggingu á Íslandi að best væri að hætta við ferðaþjónustu en byggja bara álver hringinn í kringum landið því þá værum við að fara eftir því sem umhverfismálastofnun Sameinuðu þjóðanna segði. Þetta þykir mér einkennilegur málflutningur og í algeru ósamræmi við það sem komið hefur frá ríkisstjórninni hingað til og þá sérstaklega hæstv. forsrh. sem hefur lagt sig mjög fram um að reyna að auglýsa landið upp sem ferðamannaland og stofnað þar hverja nefndina á fætur annarri. Hefur hann lýst því hér, m.a. held ég að það hafi verið bara núna í dag sem hann ræddi um þetta mál.
    Ég vil, virðulegur forseti, ekki tefja þessa umræðu frekar. Ég mátti til að svara því helsta sem fram kom í máli hæstv. umhvrh., svo makalaus fannst mér hans ræða. Hefði ég gjarnan viljað hafa þessi orð fleiri, en mig langar að lokum að halda því fram að miðað við þær yfirlýsingar og fullyrðingar sem fram hafa komið af hálfu þeirra þingmanna sem hafa tjáð sig í fjölmiðlum hingað til sé ekki meiri hluti þeirra meðmæltur því að álver eigi að rísa á suðvesturhorninu, á Keilisnesi. Svo margir hv. þm., bæði stjórnar og stjórnarandstöðu og þar með talið hv. þm. Sjálfstfl., hafa lýst því yfir hver um annan þveran að þó svo þeir vilji gjarnan álverið á Íslandi, þá vilji þeir alls ekki álver

hér á suðvesturhorninu. Þetta gildir um þingmenn Framsfl., Alþfl. og Alþb. Ég vil því fullyrða það að þessi tillaga sem við erum hér að ræða nýtur ekki meirihlutafylgis eins og hún lítur út núna þannig að ég er algerlega ósammála þeim fullyrðingum að hér sé um að ræða tillögu sem nánast þurfi ekki að ræða vegna þess að það sé meirihlutafylgi fyrir henni.