Samningar um álver
Mánudaginn 18. mars 1991


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Þar sem nú er kominn sá tími sólarhrings sem hefur verið nokkuð hefðbundinn í þessari umræðu, a.m.k. þrívegis frá því að hún var upp tekin, og það hefur borið við að það hafi orðið nokkuð stutt í umræðunni einmitt á þessu tímaskeiði nætur, þá ætla ég fyrir mitt leyti að stuðla að því að henni geti lokið með þeim hætti sem hæstv. forseti var að nefna og vona ég að þurfi engum að
verða misdægurt á þeim tíma, hvorki innan eða utan þinghúss. Ég mun fyrst og fremst gera nokkrar almennar athugasemdir við málið og víkja að örfáum atriðum sem hæstv. ráðherrar komu að í sínu máli, en tækifæri er til að ræða þetta mál frekar eða einstaka þætti sem varða það þegar rætt verður frv. til lánsfjárlaga, væntanlega á boðuðum fundi í Nd. á morgun.
    Frá því að mál þetta var á dagskrá síðast, aðfaranótt fimmtudagsins, hafa orðið talsverð tíðindi sem tengjast því. Í fyrsta lagi hefur tekist um það samkomulag að mál þetta verði ekki afgreitt frá þinginu, og það er auðvitað meginatriði sem snertir þá tillögu sem hér er rædd. En í öðru lagi er þess að geta að ráðherrar í ríkisstjórn landsins hafa tekið undir gagnrýnisraddir varðandi þetta mál og það menn ekki lægra settir en hæstv. forsrh. sem hefur á opinberum vettvangi gagnrýnt mjög alvarlega þá meðferð sem málið hefur hlotið af hálfu hæstv. iðnrh. á undanförnum missirum. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um það en láta forsrh. tala með því að vitna til orða hans á Bylgjunni þann 16. mars sl. í þættinum ,,17:17`` þar sem greint var frá því að formaður Framsfl. og forsrh. hafi gagnrýnt málsmeðferð iðnrh. á miðstjórnarfundi Framsfl. þann dag. Með leyfi forseta segir forsrh. þar orðrétt:
    ,,Samningarnir hafa dregist á langinn og það er eflaust alveg rétt. Að sumu leyti er þar um að kenna því ástandi sem skapaðist í heiminum í kringum Persaflóastríðið. Þó er það ekki að öllu leyti. Samningar um nýtt álver, sem er að sjálfsögðu sú stærsta framkvæmd sem hér hefur nokkru sinni verið ráðist í þegar virkjanir eru taldar, krefst þess að um slíka framkvæmd sé mjög breið samstaða, í raun þjóðarsátt, og því finnst mér ekki hafa verið leitað þeirrar þjóðarsáttar eins og vera ber. Þegar ráðast á í svona mikla framkvæmd þurfa allir aðilar í raun að koma að, allt frá upphafi. Svo hefur því miður ekki verið í þeim samningum sem nú hafa verið gerðir.
    Núv. iðnrh. er mikill dugnaðarmaður og hann kaus að vinna þetta mál miklu frekar enn og hafa það á sínu skrifborði eða með sem fæstum í kringum sig. Ég ætla alls ekki að taka undir það að iðnrh. hafi orðið á fjölmörg mistök, en ég vil leyfa mér að fullyrða að betur hefði gengið ef lögð hefði verið áhersla á slíkt samstarf og ekki þessi áhersla á undirskrift undir eitthvert minnisblað sem raunar enga þýðingu hefur.``
    Þetta eru ein af fjölmörgum ummælum hæstv. forsrh. í fjölmiðlum að undanförnu, en ég ætla ekki að

dvelja frekar við það. Innlegg hans í þetta mál og stuðningur hans við þá gagnrýni sem hér hefur verið höfð uppi varðandi það og málsmeðferð alla er auðvitað mikilsvert innlegg og hefur breytt verulega, geri ég ráð fyrir, stöðu þess í hugmyndum alþjóðar. Ekki síst varðandi þá umræðu sem hefur farið fram á Alþingi. Ekki er þar með sagt að þau sjónarmið hafi ekki staðið fyrir sínu sem þar komu fram og hafi hlotið verulegar undirtektir og skilning í landinu, heldur hitt að þar talar sá maður sem fer fyrir ríkisstjórn landsins og gerst má þekkja það hvernig á málum hefur verið haldið og hefur greinilega af því verulegar áhyggjur með hvaða hætti það hefur verið og einmitt það sem mikil áhersla hefur verið lögð á, bæði af minni hálfu og fleiri sem rætt hafa þessi mál, að hæstv. iðnrh. hefur farið þar offari, oftúlkað mál varðandi stöðu þess, stöðu samningaviðræðna, líklegar lyktir og fleira er málið snertir.
    Ég vil þakka hæstv. ráðherrum, bæði hæstv. iðnrh. og hæstv. umhvrh., fyrir þátttöku þeirra í umræðunni á þessari nóttu. Þótt þeir hafi ekki farið ítarlega út í málsatvik þá höfðu þeir þó uppi viðleitni hér, heiðarlega viðleitni til að víkja að nokkrum atriðum af fjölmörgum sem vikið var að í mínu máli og fleiri hv. ræðumanna sem gagnrýnt hafa þau áform sem uppi eru um álbræðslu á Keilisnesi. Ég tel að í máli hæstv. iðnrh. hafi komið fram í mörgum greinum viðurkenning á atriðum sem ég hélt fram í minni ræðu aðfaranótt fimmtudags í þýðingarmiklum atriðum þó að okkur greini á um túlkun á því hvernig lesa á í einstök atriði sem varða stöðu málsins. Hæstv. iðnrh. viðurkenndi að talnagögnum, framreiddum af honum hér í þingskjölum, bæri ekki saman, leitaðist við að skýra það. Veikleikarnir eru augljósir og þeir eru táknrænir fyrir meðferð þessa máls og hvernig það er lagt fyrir. Dæmi um það einnig hvað snertir þjóðhagslegt mat á þessu máli er sú staðreynd að hæstv. iðnrh. hefur kosið að miða fyrst og fremst við landsframleiðslu sem líklegan ávinning af þessu máli og ítrekar það enn hér í kvöld. Slík framsetning á þjóðhagslegum ávinningi dæmir sig sjálf vegna þess að hún segir afar lítið um þær tekjur sem þjóðinni gætu hlotnast af fyrirtæki sem þessu og reyndar hvaða fyrirtæki sem væri þegar lagður er á það mælikvarði landsframleiðslunnar.
    Hæstv. ráðherra vék að stöðu raforkusamningsins. Það var athyglisvert sem fram kom í hans máli þar sem hann greinir frá því og staðfestir í raun það sem ég hafði sagt hér um þau efni fyrir nokkrum dögum að sáralítið hafi breyst varðandi efni raforkusamningsins frá því að umrætt minnisblað var undirritað við hátíðlega athöfn 4. okt. sl. Þar hafi í rauninni aðeins verið minni háttar atriði og tæknileg atriði til umfjöllunar fyrir utan svonefnt endurskoðunarákvæði. Þetta er þýðingarmikið atriði í málinu vegna þess að reynt hefur verið að láta líta svo út, m.a. af samningamönnum á vegum Landsvirkjunar, að þeir á sínum vettvangi hafi verið að vinna einhver þrekvirki í sambandi við það að berja í brestina í orkuverðssamningnum sem hæstv. iðnrh. í rauninni innsiglaði að verulegu leyti

eins og hann lá fyrir með undirskrift sinni undir yfirlýsingu á minnisblaði 4. okt. sl. Sú staðreynd veldur því m.a. að endurskoðunarmöguleikar á þessum samningi, endurbætur á þessum samningi eru raunar ekki til staðar eftir að hæstv. ráðherra innsiglaði samningana 4. okt. Það ásamt breyttum aðstæðum veldur því að forusta Landsvirkjunar telur sig þurfa að endurmeta stöðu raforkusamninganna í heild og þjóðhagslegan ávinning af þeim og það mat liggur ekki fyrir. Það var einnig staðfest hér af hæstv. ráðherra og Landsvirkjun hefur fullkominn fyrirvara á varðandi mat á raforkusamningunum við núverandi aðstæður.
    Hæstv. ráðherra vék einnig að líklegum skatttekjum af þessum samningi. Þar kom fram að tölur sem fram eru reiddar í skýrslu hans eru mjög blekkjandi og villandi. Þar eru settar fram tölur á verðlagi hvers tíma, föstu verðlagi, eins og ráðherra orðar það. En þegar reiknað er til núvirðis, þá er ávinningur af tekjuskatti ekki 15 -- 20 milljarðar kr. heldur 5 -- 7 milljarðar kr., eins og ráðherrann upplýsti hér áðan að væri sitt mat, að vísu óvissu háð bæði varðandi raunvexti svo og varðandi álverð sem tekjuskatturinn tekur mið af. Þetta eru dæmi um það hvernig mál þetta er hér fyrir lagt, hvernig reynt er að setja málið í allt annað samhengi en því ber, hvernig reynt er að láta tölur gefa annað til kynna heldur en er raunverulegt innihald þeirra, ég tala nú ekki um fyrir þá aðila sem ekki eru vanir að rýna í slíkt mál.
    Síðan endar hæstv. iðnrh. á því að veita þingheimi kennslustund í því hvernig hann metur að lýðræðisleg umræða eigi að fara fram og var það einkar fróðlegt. Ég skil það afar vel að hæstv. iðnrh. kveinkar sér undan þeirri niðurstöðu sem mál þetta fær hér í þingsölum. Ég ætla ekki að etja kappi við hann um það hverjar skoðanir hann hefur á orðræðum manna hér á Alþingi eða hvernig menn nýta sín réttindi sem varin eru af þingsköpum. Við eigum eflaust eftir, hæstv. iðnrh., að bera okkur saman um þessi efni frekar áður en þessu þingi lýkur, hugsanlega einnig á næsta þingi ef við eigum þar sæti og ef þetta mál ber þar á góma, sem ég heyri að hæstv. ráðherra er að gera skóna, jafnvel að hér komi fram fullbúið frv. að hausti með fullgerðum raforkusamningi sem fylgiskjali. Úr því mun tíminn skera hvað gerist í því efni og jafnvel þótt það gerist þurfum við að bera okkur saman um innihald, ef við verðum hér báðir til að ræða þau efni.
    Þá ætla ég að koma að fáeinum atriðum úr máli hæstv. umhvrh. Ég get ekki að því gert að ég fyllist dálitlum óhug nánast í hvert sinn sem hæstv. umhvrh. stígur í þennan ræðustól til þess að gera grein fyrir þáttum sem tengjast þessu máli og á það raunar einnig við um fleiri þætti þegar umhverfismál ber hér á góma. Mér finnst hæstv. ráðherra ekki vera í þeim stellingum sem eðlilegt mætti telja að hann sem hagsmunagæslumaður þessa þýðingarmikla sviðs umhverfismálanna væri í. Og sú bjartsýni sem ráðherrann temur sér í málflutningi nánast í öllum greinum, ég fæ ekki séð að það sé innstæða fyrir henni, ekki enn sem komið er varðandi þetta mál. Ég tel einnig að hæstv.

ráðherra fari ekki rétt með túlkun á þeim upplýsingum sem hann hefur í höndum, t.d. þeirri greinargerð og frásögn af ferð til að kynna sér mengunarvarnir þar sem í ferð voru með hæstv. ráðherra þrír tilgreindir ferðalangar á ferð um Evrópu 5. -- 10. nóv. 1990. Ég fæ ekki betur séð, hæstv. umhvrh., en að þú nýtir þér ekki þær talnalegu upplýsingar og útleggingar sem er að finna í frásögn úr þessum erindrekstri á vegum umhvrn. og það vekur alltaf tortryggni ef þannig er haldið á máli.
    Umræðan um vothreinsibúnað og hreinsun á brennisteini í formi brennisteinsdíoxíðs tekur á sig hinar kynlegustu myndir þegar hún er upp tekin af hæstv. umhvrh. Ég ætla ekki að þreyta orðræður við hæstv. ráðherra um þau efni. Það hefur hv. 6. þm. Reykv. gert með skilmerkilegum hætti og ég get í raun tekið undir hennar málflutning sem mér finnst vera raunsær með tilliti til alvöru þessa máls og varðandi þær upplýsingar sem fyrir liggja. Hæstv. umhvrh. vildi halda því fram að sú tækni sem fyrirhugað er að byggja umrætt álver á, Pechiney-tæknin, valdi ekki meiri flúormengun en önnur tækni eins og t.d. sú sem hefur verið tekin upp á frágangi á kerum í ÍSAL - bræðslunni í Straumsvík. Ekki skal ég skera úr um það. En ég les það í frásögn úr umræddu ferðalagi hæstv. ráðherra að ástæðan fyrir háum gildum í útblæstri flúors í rjáfri Pechiney eru þekjur keranna. Í Gränges og LMG - álverunum opnast þær upp en eru handfærðar til hliðar hjá Pechiney. ÍSAL er að setja upp sams konar þekjur og LMG sem mun væntanlega gerbreyta aðstæðum hjá ÍSAL. Þetta eru þær upplýsingar sem ég taldi gildar og væri hægt að draga þá ályktun af að þessi Pechiney - tækni ylli ákveðnum erfiðleikum í sambandi við að halda flúormengun í lágmarki.
    Varðandi mengun, reiknað í prósentum af heildarmengun sem fellur til hérlendis, hafði ráðherrann hæstv. sitthvað að segja. Og þar er hann að bæta stöðuna, stöðu iðnrekstrarins, útblásturinn frá hugsanlegri álbræðslu með því að reikna saman gildi vegna mengunar frá jarðhitasvæðum eða jafnvel frá eldgosum í landinu. Þetta finnst mér vera málflutningur sem dæmir sig í raun sjálfur. Það er ekki fært að ætla að verja mengun frá iðnrekstri með því að vísa í uppsprettur eins og frá jarðhitasvæðum, ég tala nú ekki um frá eldgosum, sem vissulega valda ákveðinni mengun en bætir ekki stöðuna að því er snertir mengun frá atvinnurekstri. Og þar finnst mér ekki sæmilega á máli haldið af hæstv. umhvrh. Ég ætla hins vegar að óska honum alls góðs, svo lengi sem hann heldur um þessi mál fyrir hönd íslenska ríkisins, sem kannski verður ekki mjög lengi úr þessu. En mér sýnist að það séu afar margir lausir endar augljóslega að því er snertir umhverfisvernd og þessa álbræðslu, enda viðurkennt af hæstv. ráðherrum báðum að þar sé allt ófrágengið þó að báðir sameinist um það að vera mjög bjartsýnir í væntingum sínum um hvernig frá þeim málum megi hugsanlega ganga.
    Virðulegur forseti. Það stóra mál sem við höfum rætt hér er umræðunnar virði. Það er þörf á því á

þjóðþingi Íslendinga að ræða ítarlega áður en teknar eru ákvarðanir um það að binda okkur í samninga sem varða fjárfestingu upp á um 100 milljarða íslenskra króna í heild sinni og sem geta verið afar tvísýnir fyrir íslenskt efnahagslíf, fyrir byggðarþróun í landinu, einnig fyrir íslenskt umhverfi. Og ég tel það af hinu góða að þessi mál eru nú í biðstöðu og verða það einnig að því er varðar afstöðu Alþingis Íslendinga til þessa máls því þingmenn hér, bæði þeir sem nú sitja og þeir sem kosnir verða á nýtt þing, þurfa áreiðanlega á að halda betri tíma og meiri tíma en verið hefur til umráða frá því að þessi mál voru hér lögð fram, bæði skýrsla hæstv. ráðherra og till. til þál. en ráðrúm er til og ríkisstjórnin hefur ætlað til þessa þinghalds miðað við það að því ljúki á næsta degi eins og ráðgert mun vera.
    Ég læt þessi orð nægja hér við þessa umræðu, virðulegur forseti, og þakka þeim sem hafa verið þar þátttakendur.