Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Frsm. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. (Eyjólfur Konráð Jónsson) :
    Herra forseti. Þetta mál og einnig 451. mál hafa verið æði lengi til meðferðar í hv. fjh.- og viðskn. og hafa umræður orðið þar mjög miklar, bæði formlegar umræður innan nefndarinnar og eins hafa menn leitað fanga fyrir utan þingið og innan þings raunar á einkafundum og í viðræðum. Það er kannski ekkert óeðlilegt að miklar umræður hafi orðið um þetta mál. Hér erum við að fjalla um stórmál, þ.e. einn þátt í því sem kalla má kannski auðstjórn almennings eða fjárstjórn fjöldans, þ.e. með hvaða hætti sé hægt að auðvelda fólki, almenningi í landinu, að gerast aðilar að atvinnuvegunum og arðvænlegum atvinnufyrirtækjum.
    Um þetta meginatriði eru nefndarmenn sammála og ég hygg að svo sé komið að alþingismenn allir séu á einu máli um að þetta beri að gera og það hefur verið gert í nokkrum mæli undangengin ár. Við, sem kannski höfum verið helstu hvatamenn þess að inn á þessa stefnu yrði farið í íslenskum atvinnumálum og barist fyrir því áratugum saman, viljum auðvitað gjarnan að áfram sé fylgt þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið á síðustu árum og hefst á því að gera mönnum kleift að taka þátt í þessari þróun. Aðrir telja að kannski þurfi nú þegar að breyta ákvæðum á þann veg að tryggara sé að menn séu ekki að selja bréfin fljótt og nota þetta sem hálfgert undanskot á sköttum. Við því er auðvitað alltaf að búast að í frumbernsku í þessum efnum verði einhver slík mistök.
    Þó að verðbréfamarkaðir og hlutabréfamarkaðir hafi risið hér þá er enn þá mjög lítið um það að almenningur eigi í atvinnufyrirtækjunum líkt og gerist í öðrum frjálsum löndum og raunar líka þeim löndum sem eru að brjótast til frjálsræðis, þ.e. austantjaldslöndunum t.d. og fyrrverandi kommúnistaríkjunum vil ég helst kalla þau. Þess vegna er þetta allt saman álitamál og ég áfellist engan fyrir það þó hann vilji strax stemma á að ósi með því að fyrirbyggja það að um brask geti orðið að ræða. Við vitum það, sem eitthvað höfum kynnt okkur hlutafélagalög t.d., að í nærri heila öld, þ.e. átjándu öldina og fram á nítjándu öldina, voru hlutafélög nærri því gerð útlæg vegna þess að það kom upp ýmiss konar misferli hjá Hollendingum og Bretum sem voru frumkvöðlar að stofnun hlutafélaga og byggðu upp veldi sitt á sautjándu öldinni einmitt með þessum hætti með hlutabréfum. Sjálfir kynntumst við þessu raunar í nokkrum mæli því að Innréttingar Skúla Magnússonar hér í nágrenni við okkur voru raunar nokkurs konar hlutafélög, ekki alveg ósvipuð þeim sem við höfum enn í dag, þ.e. með bréfum sem seld voru á almennum markaði.
    Þetta er sem sagt ástæða til þess að hér er um flókið mál að ræða til afgreiðslu í þingdeildinni. Nú höfum við að vísu frábæran forseta og ég vona að hann geti hjálpað okkur að greiða fram úr þessum brtt. sem hér eru fluttar á víxl og í kross. Ég veit satt að segja ekki hvernig á að fara að því ef talsmaður 1. minni hl., þ.e. formaður nefndarinnar, gerir ekki grein fyrir sínum tillögum því þær eru að sumu leyti þær

sömu og okkar hinna. Úr þessu greiðist nú sjálfsagt hér á eftir þó brtt. séu margar og gangi á víxl og munum við hjálpast að við það að sjálfsögðu.
    Meginatriðið í mínu máli er það að við Halldór Blöndal, 2. minni hl., skilum nál. sem efnislega er á þá leið að við styðjum tillöguna í frv. um lækkun tekjuskatts úr 50% í 45%. Eins og menn hafa heyrt í umræðunni þá er ekki um raunverulega lækkun á sköttunum að ræða heldur eru þetta eftirágreiddir skattar, eins og menn vita, og þegar verðbólgan lækkar þá auðvitað á þessi prósenta líka að lækka. Ég held að hæstv. ráðherra hafi ekki gengið of ríflega til móts við menn í þessu efni heldur þvert á móti. Við erum sammála því að þessi leiðrétting sé gerð þó hún sé ekki nálægt því að fullu til verðbólguþróunar.
    Síðan styðjum við líka tillögu um að 30 dagar megi líða en ekki 15 frá því að menn selja hlutabréf og kaupa bréf í öðru félagi án þess að þeir missi rétt til frádráttar.
    Annar minni hl., þ.e. við Halldór Blöndal, telur hins vegar óskynsamlegt og raunar órökstutt að draga úr heimildum til framlaga í fjárfestingarsjóði úr 15% í 10% eins og gert er ráð fyrir í 3. gr. frv. Þessi heimild er til þess ætluð að draga úr sveiflum í rekstri atvinnufyrirtækja, að menn geti lagt til hliðar þegar vel gengur og eigi þá varasjóði til að mæta erfiðleikum. Í sveiflukenndu þjóðfélagi eins og okkar er síst ástæða til að draga úr þessum möguleika, frekar ætti að auka þar við, en við gerum ekki sérstakar brtt. í þessu efni því við vildum ná sáttum í sem flestum atriðum.
    Við teljum raunar brýnt að þær takmörkuðu lagfæringar á ákvæðum skattalaga sem frv. miðar þó að nái fram að ganga, enda mun hér um að ræða efndir á samkomulagi við samtök atvinnurekenda þar að lútandi í sambandi við margnefnda þjóðarsátt.
    Við leggjum og til að gerðar verði tvær breytingar á frv. Í fyrsta lagi er eðlilegt að þær fjárhæðir, sem heimilað er að draga frá skattskyldum tekjum, standi óhaggaðar. Þar er miðað við að það fylgi verðlagsþróun. Við teljum algjörlega óeðlilegt að fara að lækka þetta nú einmitt þegar fólk er að komast á bragðið og byrjað að taka þátt í eignaraðild að atvinnuvegunum, að hlaupa þá til og lækka þessa frádráttarheimild umfram það sem gert er ráð fyrir í lögunum, þ.e. að menn megi ekki styðjast við verðlagsbreytingar.
Það er auðvitað skref í ranga átt. Það er skref til baka. Við það verðum við sjálfsagt að una. Við flytjum brtt. um að þessar upphæðir verði óbreyttar, sem mundu þá verða á einstakling 115.000 kr., en á hjón 230.000 kr. Lagt er til að lækka þetta í 86 og 172, sem ég tel algerlega óeðlilegt. En ég þykist vita að það verði nú samt lamið hér í gegn. Málið er þó þannig vaxið að formaður nefndarinnar, hv. þm. Guðmundur Ágústsson, flytur tillögu samhljóða okkar tillögu í sínum brtt. Við erum sem sagt sammála formanni nefndarinnar, og væntanlega eða ég vona það, ég veit að vísu ekki um Kvennalistann, um að þessi upphæð verði óbreytt í raungildi. Það verði ekki horfið til baka að firra fólk rétti til að spara til að leggja

í atvinnuvegina. Ég geri ráð fyrir að tillaga formannsins muni koma til atkvæða á undan okkar tillögu og er þá okkar tillaga sjálffallin eða dregin til baka að sjálfsögðu.
    Síðan fjölluðum við hér um annað mál, þ.e. um refsiákvæði. Þegar menn senda ekki inn til skattstjóra réttar skattskýrslur á réttum tíma séu viðurlög um 25%. Við leggjum til að þetta sé lækkað í 15%. Að öðru leyti skýrist þetta af þessum margháttuðu brtt. Ég veit að það er dálítið erfitt fyrir menn að átta sig á þessum brtt. en það kemur allt í ljós við rólegheit í atkvæðagreiðslunni.
    Annað frv. fylgir þessu sem gerir þetta enn flóknara. Það er næsta mál á dagskrá. Geri ég ráð fyrir að forseti muni láta ræða bæði málin áður en til atkvæða verður gengið um brtt. Ég tel það mun heppilegri vinnubrögð en það er auðvitað á valdi forseta.