Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Halldór Blöndal :
    Herra forseti. Ég tel að sú brtt., sem hv. 5. þm. Norðurl. e. eyddi hér mestu máli í, sé mjög merkileg, að á eftir 5. gr. komi ný málsgrein þess efnis að telji framtalsskyldur aðili ekki fram til skatts innan tiltekins frests skuli skattstjóri taka tillit til að hve miklu leyti innheimta gjalda hefur farið fram í staðgreiðslu.
    Það er nú einu sinni svo að eftir að staðgreiðslukerfi er upp tekið eru það miklir hagsmunir launamanna að ekki sé framtalsskylda heldur sé launamönnum gefin heimild til að telja fram til skatts ef þeir kjósi svo en á þá sé ekki lögð skylda í þeim efnum, enda er framkvæmd staðgreiðslunnar með þeim hætti að skattstofu berast jöfnum höndum upplýsingar um hverjar tekjur launþega eru og að síðustu eru þær tölur staðfestar með launamiðum í lok hvers árs.
    Ólafur Björnsson prófessor vakti athygli á þessu á sínum tíma. Hann skrifaði merkar greinar um þetta á árunum fyrir og eftir 1970. Eins og ég veit að hæstv. forseta er kunnugt er hann einhver merkasti maður sem hefur verið í forustu fyrir launþegahreyfingu hér á landi. Hann var um skeið formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og ávann sér mikið traust sem slíkur, bæði í þeim störfum og öðrum sem hann gegndi.
    Það er líka svo, a.m.k. í sumum þeirra landa þar sem staðgreiðsla hefur verið tekin upp, ég fullyrði að svo sé t.d. í Danmörku, að launþegar séu ekki skyldir til að telja fram. Þeim er heimilt að gera það en það hvílir ekki á þeim nein skylda í því sambandi.
    Hér á landi hefur það verið öðruvísi. Við sjálfstæðismenn höfum átt mjög erfitt með að sannfæra vinstri flokkana um það að hið alsjáandi auga ríkisvaldsins eigi ekki að geta beint hvers konar viðurlögum og refsingum gagnvart þegnunum sem skaði þá fjárhagslega í bráð og lengd til þess að fullnægja einhverri skýrslugjöf sem sé greinilega út í hött og geri hvort tveggja í senn að valda fyrirhöfn fyrir einstaklingana úti í þjóðfélaginu, er eyðsla á pappír og veldur því að skattstofurnar eru önnum kafnar við verk sem ekki eru arðbær, ekki skipta máli, en geta á hinn bóginn stundum orðið til bölvunar.
    Ég get ekki séð nein rök fyrir því nú fremur en endranær að í lögum skuli vera refsiákvæði þess efnis að hækka megi skattstofn um 25% ef launþegi hefur staðið í skilum með alla þá skatta sem honum ber að greiða til ríkisins. Það eitt að honum skuli hafa láðst að uppfylla eina pappírsörk á að þýða það að hann verði kannski fyrir útlátum sem skipta hundruðum þúsunda króna. Refsing af þessu tagi á sér enga hliðstæðu í þjóðfélaginu. Ég vil í þessu sambandi líka taka fram að mér finnst það mjög ósmekklegt þegar verið er að kalla skattaeftirlit stormsveitir. Má vera að fjmrh. hafi sjálfur fundið það nafn upp til þess að reyna að vekja mönnum ógn af því hárbeitta sverði sem refsiákvæði skattalaganna geta verið þegar svo stendur á.
    Nú skulum við aðeins velta fyrir okkur þessari prósentutölu, 25%, sem hér stendur. Það gladdi mig þó

í litlu væri að hv. 5. þm. Norðurl. e. var mér öldungis sammála um að þessi hlutfallstala væri of há. Kemur þó að litlu fyrir þá sem þurfa að greiða hin hæstu viðurlög að vita að hér inni í þingsölum skuli vera einhverjir sem skilji og viðurkenni að hlutfallstalan sé of há ef henni er á annað borð beitt.
    Í þessu frv. erum við að tala um breytingar á 44. gr. skattalaga og 14. gr. skattalaga. Í 14. gr. skattalaga, sem við erum hér að fjalla um í sambandi við bændur, er gert ráð fyrir því að einvörðungu 20% söluverðs skuli koma til tekjuskatts ef um það er að ræða að bóndi selur ríkissjóði fullvirðisrétt á tímabilinu 1. maí 1991 til 1992. Í síðari málsgrein er talað um að slíkir bændur skuli undanþegnir skilyrði 3. málsl. 4. mgr. 14. gr. um aðalstarf. Það sem við erum að tala um þar er það m.a. að þeir bændur sem selji fullvirðisrétt sinn geti geymt söluhagnaðinn, 20%, yfir tvenn áramót og síðan fjárfest í íbúðarhúsnæði eða í atvinnurekstri á jörðinni sjálfri. Ef síðar kemur í ljós að þessir bændur fullnægja ekki skilyrðum lagagreinarinnar ber að skattleggja þá með 10% álagi. Með öðrum orðum, ef um það er að ræða að þessir bændur beita ákvæðum skattalaga til þess að draga sinn skatt eða fella hann niður en síðan kemur í ljós að þeir standa ekki við það sem þeim ber að standa samkvæmt skattalögum, þannig að þessi söluhagnaður kemur til skattlagningar, þurfa þeir að greiða skatta af þessum 20% verðbættum með 10% álagi. Ég minntist á það í nefndinni að mér þætti eðlilegt að við hefðum jafnframt og gætum sæst á 10% álag í sambandi við framtalsskylduna. Þar getur verið um gleymsku að ræða. Þar getur verið um misskilning að ræða, óhapp, sem veldur því að framtal skilar sér ekki á réttum tíma. Ég taldi eðlilegt að um það væri farið í samræmi við ákvæðin í 2. mgr. 14. gr. laganna.
    Ég þarf svo ekki að hafa um þetta fleiri orð. Við hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson gerum heiðarlega tilraun til þess að fá deildina til að fallast á það að 15% álag komi í stað 25% álags. 25% talan er verðbólgutala. Þetta er tala sem er í engu samræmi við verðlagsþróun og launaþróun, eins og hún hefur verið í landinu. Hún á ekkert skylt við staðgreiðslu, ekkert skylt við það að menn standi í skilum með opinber gjöld og er greinilega mikil misbeiting á refsiheimild Alþingis.
    Ég óska eftir því að meiri hl. fjh.- og viðskn. dragi 2. tölul. brtt. sinna til baka til 3. umr. og freista þess enn á ný í fjh.- og viðskn. að fá meiri hl. til að fallast á það, sem einstakir þingmenn hafa sagt hér, að 25% er of há tala, algjörlega eðlilegt að miða við 10% en ásættanlegt eins og á stendur að 15% standi í staðinn fyrir 25%. Ég vil beina þessum orðum til formanns fjh.- og viðskn. að málið verði enn á ný tekið inn í nefndina á milli 2. og 3. umr. og við freistum þess að ná samkomulagi um þetta réttlætismál.
    Ég veit að við alþingismenn, sem erum hér inni, þekkjum öll þá sorgarsögu sem því fylgir þegar skattstjórar beita refsiheimildum til fulls. Sumir þingmenn eru að reyna að eyða þessari umræðu með því að tala

um að skattframtöl skili sér ekki vegna hirðuleysis eða af einhverjum slíkum ástæðum. Það er ekki kjarni málsins. Kjarni málsins er sá að þeir einstaklingar sem fyrir þessu verða geta sumir hverjir með engu móti staðið undir refsiákvæðunum og þess vegna eitrar þessi skuldbinding líf þeirra og kemur í sumum tilvikum heimilunum á koll. Þess vegna vil ég enn reyna til hins ýtrasta, fram á síðustu stund, að fá meiri hl. fjh.- og viðskn. til að fallast á að lækka þessa prósentu, helst niður í 10%, að öðrum kosti niður í 15%.
    Að síðustu vil ég aðeins taka það fram að ríkisskattstjóri lýsti því yfir á fundi fjh.- og viðskn. að það væri eðlilegt að launþegar væru ekki framtalsskyldir. Hann bað um frest. Hann talaði um að það ákvæði skyldi koma inn á árinu 1994. Ef það er skoðun okkar á því herrans ári 1991 að launþegar eigi ekki að vera framtalsskyldir, þá eigum við ekki að fresta því í þrjú ár að réttlætið nái fram að ganga. Þingmenn eru hérna inni núna. Það á að kjósa eftir mánuð og þessir þingmenn sem nú eru hafa þess vegna ekki tækifæri til þess, a.m.k. ekki allir, að láta réttlætið ná fram einhvern tímann síðar. Þeir eiga að nota þennan síðasta þingdag sinn til þess að reyna að stuðla að því að réttlætið sigri nú á þessu þingi og mun þá sómi þeirra meiri en ella.