Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég er að sjálfsögðu ekki andvíg því að þetta mál verði tekið til nefndar á milli 2. og 3. umr. Ég vil aðeins ítreka það, sem mér finnst vera orðið að einhverju aukaatriði í þessari umræðu en tel þó vera aðalatriðið í málinu, að með þessari brtt. og upphaflegu frv. mínu er þó komið í veg fyrir hámark ósvífninnar, þ.e. að beitt sé 25% álagi á fjármuni sem búið er að skila til ríkisins. Eins og lögin eru í dag þá er það heimilt. Mín hugsun með flutningi frv. og þeirra hv. þm. sem mig studdu í því var að sjálfsögðu fyrst og fremst sú að koma í veg fyrir að þetta geti átt sér stað. Þetta vildi ég taka fram, hæstv. forseti, þannig að það sé ekki orðið að einhverju aukaatriði í þessu máli að koma í veg fyrir að heimilt sé að beita þeim álögum. Að sjálfsögðu tek ég undir það að þetta mál má ræða milli 2. og 3. umr. og best væri að ná samstöðu um það í þessari hv. deild.