Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Guðmundur Ágústsson :
    Virðulegi forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um það hvort lækka eigi um 1 / 4 þá heimild sem hægt er að draga frá skatti vegna kaupa á hlutabréfum. Ég hef verið þeirrar skoðunar að þegar þetta ákvæði var sett inn í skattalög hafi tilgangurinn verið að auka eigið fé í hlutafélögum og er enn þá þeirrar skoðunar og tel enga ástæðu til þess að lækka þetta hlutfall nú þar sem aðeins eins árs reynsla er komin á þennan frádráttarlið. Ég tel einnig að það hafi sýnt sig á síðasta ári að þetta hafi örvað hlutabréfakaup, komið vissu lagi á hlutabréfamarkaðinn hér og örvað hann. Því hefur einkum verið haldið fram á móti þessu að eignarhaldstíma hefur ekki verið krafist. Samkvæmt þeim lögum sem nú eru er enginn eignarhaldstími. Þess vegna legg ég til í sérstakri brtt. að það verði skilyrt þannig að eignarhaldstími hlutabréfa, sem einstaklingar kaupa og vilja njóta til skattafrádráttar, verði þrjú ár. Ég held að þetta sé aðalókosturinn sem hingað til hefur verið á þessum lögum og þess vegna segi ég já.