Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Halldór Blöndal :
    Herra forseti. Hv. 4. þm. Reykn. Karl Steinar Guðnason gerði þá grein fyrir atkvæði sínu hér áðan þegar hann greiddi atkvæði gegn brtt. okkar Eyjólfs Konráðs Jónssonar að það eitt að fella þá brtt. dygði til þess að útrýma fátækt á Íslandi. Nú efast ég um að þessi málsgrein, eins og hún stendur í frv., standi undir þessum fyrirheitum sem hv. þm. hefur þannig gefið. Vegna þessara efasemda minna vil ég að vísu ekki bregða fæti fyrir málsgreinina en treysti mér á hinn bóginn ekki til þess að standa við fyrirheitið og kýs þess vegna að sitja hjá og greiða ekki atkvæði.