Frsm. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. (Eyjólfur Konráð Jónsson) :
    Herra forseti. Eins og þegar hefur komið fram í þessari umræðu hefur mál þetta verið rætt í nefndinni samhliða því máli sem síðast var á dagskrá, 450. máli. Sjálfur ræddi ég bæði málin samhliða, enda eðlilegt þar sem þau eru tengd. Í umræðunni kom m.a. fram að um einhvern misskilning eða ágreining virtist vera að ræða í sambandi við álag á áætlaða skattstofna, refsiálag. Varð að ráði eftir orðaskipti eins hv. alþm. og hæstv. fjmrh. að skoða það mál á milli 2. og 3. umr. Ég reikna með að þetta mál verði þá eingöngu afgreitt hér til 3. umr. eins og það fyrra sem við vorum að ræða áðan og þarf ekki að orðlengja um þetta frekar. Við höfum málin bæði væntanlega til skoðunar eftir að þessari umræðu lýkur. Það er kannski ekkert óeðlilegt að huga þurfi betur að orðalagi að ýmsu leyti því málið er virkilega flókið. Þó það sé kannski ekki stórmál beint þá er það mjög flókið eins og þessi skattamál öll eru. Þeir þekkja það sem hafa þurft við það að glíma að það er erfitt fyrir flesta menn. Það þarf sérfræðinga til að komast í gegnum það form sem skattalögin eru orðin. ( Gripið fram í: Það þarf lögfræðinga til.) Nei, lögfræðingar geta þetta ekki, ekki nema sumir. Ég held að það séu nú endurskoðendurnir sem eru menntaðastir í þessu sem geta nokkurn veginn komist í gegnum þetta. Þó hugsa ég nú að jafnvel þeir viðurkenni að það sé enginn sem botni í þessu öllu ef ofan í það væri farið, hvorki þeir sem eiga að framkvæma það eða þeir sem eiga að ganga frá skattaframtölum. Þetta er orðinn frumskógur alger og það væri verðugt verkefni, alveg burt séð frá rifrildi okkar um einn skatt eða annan, að reyna á næsta þingi að greiða úr allri þessari flækju þannig að fólk hefði einhverjar hugmyndir um hvort rétt væri á það lagt og hvernig það ætti að nýta þær lagalegu heimildir . . . ( KP: Það er ekki til þess ætlast að fólk geti nýtt þær.) Nei, ég held að það sé nokkuð til í því sem þingmaðurinn segir, að það sé ekki til þess ætlast og þá ekki af okkur, löggjafanum, að fólk skilji nokkurn skapaðan hlut. Og það er reyndar með fleiri lög en þessi. Löggjöf í seinni tíð er með endemum, finnst mér nú, sumt hvað. Þegar við erum að festa í lög, kannski mörg hundruð paragrafa, einföld atriði sem hér áður fyrr komust fyrir í kannski tveimur eða þremur málsgreinum eða lagagreinum. Að vísu hefur nokkur hreinsun farið fram á undangengnum árum en aldeilis ekki með þeim hætti að það versta sé fellt úr gildi af því að það versta er einmitt þetta nýjasta. Það er verið að flækja löggjöfina alla tíð og við erum að því nú í dag og höfum verið að því undanfarna daga að flækja íslenska löggjöf þannig að menn skilja minna og minna. Þetta er því mjög réttilega mælt af hv. þm. Karvel Pálmasyni. Þar sem hann fer nú að hætta hér á þingi held ég að þetta sé dálítið góð áminning og ég ætla að minnast þessara orða þegar ég kem hér væntanlega til þings aftur eftir einhverjar vikur eða mánuði að einmitt þessi reyndi þingmaður benti á þetta. Við ættum svo sannarlega að geta verið sammála um að greiða eitthvað úr þessari flækju sem við óneitanlega höfum fyrir augunum.
    En það var sem sagt ákveðið að taka þessi mál til frekari íhugunar fyrir 3. umr. og ég fagna því af því að það kann að vera eitthvað fleira sem leynist í þessu sem þarf frekari skoðunar við en það sem hæstv. fjmrh. bauðst til að íhuga með okkur hér í hliðarherbergi væntanlega nú á eftir.