Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegur forseti. Þegar ég ræddi 450. mál, sem er eiginlega samhliða þessu, gerði ég grein fyrir viðhorfum til þeirra ákvæða sem í þessu frv. eru. Kvennalistinn álítur ekki ástæðu til að hækka þessar fjárhæðir úr 86 þús. og 172 þús. upp í það sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson álítur. Á hinn bóginn álítum við að það væri sýnu nær og miklu, miklu nauðsynlegra fyrir þetta þjóðfélag að hækka skattleysismörk almennt og bæta á þann hátt eiginfjárstöðu alls almennings í landinu sem síðan gæti fjárfest í hlutabréfum, bæði stórum og smáum, fyrirtækjum til góða. Það að hækka skattleysismörk almennt væri miklu nær en að hækka frádráttarbærar upphæðir sem eingöngu þeir sem best eru staddir fjárhagslega geta nýtt sér. Hitt málið, að hækka skattleysismörk, er í rauninni mál málanna í þinginu í dag. Og ég harma að ekki skuli hafa verið tekið á því máli áður en þessu þingi lýkur.