Stjórnarskipunarlög
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Danfríður Skarphéðinsdóttir :
    Virðulegur forseti. Þar sem þessa umræðu ber upp á síðustu klukkustundir sem þingið starfar að þessu sinni vil ég aðeins minna á þau vinnubrögð sem viðgangast hér þessa dagana og hafa viðgengist við hver þinglok um jól og vor. Svo lengi sem ég man eftir að hafa fylgst með störfum þessarar stofnunar gerist alltaf það sama. Hv. síðasti ræðumaður nefndi tilræði við þingræðið. Það kemur oft upp í huga mér á þessum síðustu starfsdögum þar sem segja má að þetta tvískipta kerfi sem við höfum virki engan veginn í þessum miklu önnum sem nú eru. Ég er sannfærð um það að í einni málstofu létu hv. þm. aldrei ganga yfir sig með þeim hætti sem hér er gert, þar sem við tökum t.d. mál frá hv. Nd., svo ég nefni dæmi, til þess sem ég vil kalla allt að því málamyndaafgreiðslu á síðustu stundum þingsins þar sem við treystum í raun á okkar fólk í Nd. og höfum ekki svigrúm til þess að fjalla um þau eins ítarlega og gera þyrfti, en það mundi ein málstofa aldrei samþykkja.