Félagsþjónusta sveitarfélaga
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Frsm. félm. (Margrét Frímannsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti á þskj. 1043, frá félmn. Við 2. umr. þessa máls komu fram spurningar frá hv. þm. Halldóri Blöndal sem nefndin fjallaði um. Í nál. segir, með leyfi forseta:
    ,,Eftir atkvæðagreiðslu frv. við 2. umr. hefur nefndin komið saman á ný til að kanna hvort ákvæði 34. gr. þess stangist á við sams konar ákvæði í nýsamþykktum lögum um leikskóla. Á fund nefndarinnar kom Bragi Guðbrandsson, félagsmálastjóri Kópavogs, einn þeirra er unnu við samningu frv.
    Í 34. gr. frv. er kveðið á um að sveitarstjórnir skuli láta fara fram mat á þörf á leikskólarými eigi sjaldnar en á tveggja ára fresti. Í lögum um leikskóla segir hins vegar í 3. gr. að sveitarfélag geri árlega könnun á því hversu margir foreldrar óski eftir leikskólavistun. Það er skoðun nefndarinnar að áðurgreind tímaákvæði stangist ekki á og vísar í því sambandi til þess að frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga er rammalöggjöf og ekkert sem mælir gegn því að í sérlögum, sem varða tiltekna þætti rammalöggjafar, séu þrengri ákvæði.``
    Undir nál. skrifa auk frsm. Guðmundur H. Garðarsson, með fyrirvara, Jóhann Einvarðsson, Karl Steinar Guðnason, Salome Þorkelsdóttir, með fyrirvara, Jón Helgason, Danfríður Skarphéðinsdóttir.