Félagsþjónusta sveitarfélaga
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Halldór Blöndal :
    Hæstv. forseti. Ég gerði athugasemd við efnisatriði þess frv. sem hér er til umræðu um félagsþjónustu og vakti athygli á því að ákvæði í þeirri löggjöf stangast á við lög sem sett voru í gær og hnekkir þeim ákvæðum sem eru í lögum um leikskóla. Í fyrsta lagi er það nú svo að þetta ákvæði, sem snýr að leikskólum í þessu frv., er efnislega óþarft og er einhver angi af undarlegri deilu sem upp kom milli hæstv. félmrh. og hæstv. menntmrh. í ríkisstjórninni. Báðir þessir ráðherrar höfðu einhvern veginn þann undarlega metnað að leikskólar ættu fremur að vera í þeirra ráðuneyti en í ráðuneyti hins, sennilega vegna þess að ráðherrarnir töldu sjálfa sig vera eilífa í þessum ráðuneytum. Nú hefur Alþingi lýst vilja sínum og sá vilji er alveg skýr. Það hefur verið sett löggjöf um leikskólann og þess vegna algerlega út í hött að hæstv. félmrh. og þingið séu að vesenast með sérstakt ákvæði í öðrum lögum um leikskólana.
    Hæstv. félmrh. var að reyna að útskýra fyrir mér, þegar þetta mál var síðast á dagskrá, hvernig á því stæði að hann teldi nauðsynlegt að hafa ákvæðið inni. Nú tókst félmrh. hvorki að sannfæra mig né aðra með ræðu sinni, enda truflaður í miðjum klíðum af hæstv. ráðherra. Ég tel á hinn bóginn nauðsynlegt að þessar athugasemdir félmrh. komi fram áður en ég geri þetta mál frekar að umræðuefni hér. Hitt er auðvitað alveg ljóst að ég mun taka þetta mál upp mjög ítarlega ef það er staðfastur vilji ráðherra og úr því að það er staðfastur vilji félmn. að vera með ákvæði sem stangast á varðandi leikskólana.
    Þingsköp Alþingis hafa venjulega verið með þeim hætti að ef tvö ákvæði stangast á í sama frv. og eftir að brtt. hefur verið samþykkt er litið svo á að hið seinna sé sjálffallið. Ég hygg að hið sama eigi við þegar um tvo lagabálka er að tefla, að ekki dugi að vera með misvísandi ákvæði varðandi sama atriðið.
    Sú hugsun að hér sé um rammalöggjöf að ræða er náttúrlega mjög undarleg. Það er auðvitað hægt að fylla lagasafnið af alls konar ákvæðum sem engu skipta. Ef í lögum um leikskóla stendur að athugun skuli fara fram á hverju einasta ári er erfitt að sjá hvaða tilgangi það þjónar að setja það inn í einhver önnur lög að þessi athugun eigi að fara fram a.m.k. á tveggja ára fresti. Það er þetta sem ég ekki skil. Ég býst við að ráðherrann hafi gaman af því að tala um það einhvers staðar að hann hafi komið þessu inn í lögin og geti þá ekki hins, sem er hið rétta, að með þessu ákvæði er Alþingi að draga til baka þá samþykkt sem var gerð hér í gær varðandi leikskólana. Það verður að víkjandi samþykkt vegna þess að þessi löggjöf er nýrri og er þess vegna ráðandi um þetta atriði. Ef það er vilji ráðherra að þurfa endilega að vera með einhverja löggjöf um þessi efni, af hverju reynir þá ekki ráðherrann að sníða löggjöfina eftir því sem þegar hefur verið ákveðið í lögum um leikskóla?
    Hið sama átti sér stað í sambandi við lög um ferðaþjónustu. Þar kom upp álitaefni um hvaða skilyrði menn þyrftu að uppfylla til þess að mega reka

ferðaþjónustu hér á landi. Allir í samgn. voru sammála um að það væri út í hött að Alþingi samþykkti nú á þessum tíma mismunandi ákvæði um þetta atriði eftir því hvort tillagan kæmi frá fjh. - og viðskn. eða samgn.
    Hér er um það að ræða að við í menntmn. höfum mælt með ákveðnu og þá dúkkar allt í einu upp í deildina eitthvert frv. frá hæstv. félmrh. þar sem verið er að fletja út ákvæði í leikskólalögunum. Ég sé að hæstv. menntmrh. gengur hér út og inn og getur verið kampakátur. Hann náði sínu fram. Mér finnst að félmrh. verði bara að sætta sig við það og vil biðja forseta að taka málið út af dagskrá og fresta umræðunni og gefa a.m.k. mér tóm til þess að athuga þetta mál nánar og flytja þá brtt. við frv. eins og það liggur nú fyrir, þannig að við séum ekki að samþykkja sitt á hvað um sama málefni á þessum tveim dögum.
    Ég óska eftir því en geri ekki athugasemd við það ef hæstv. félmrh. kýs að ljúka sinni ræðu. Ég væri þakklátur fyrir það. Mér þykir gaman að hlusta á hæstv. félmrh. En ég óska eftir því að hlé verði gert á umræðunni þannig að mér gefist tóm til þess að semja brtt. sem er í samræmi við efni málsins og þá löggjöf sem var samþykkt hér í gær.