Félagsþjónusta sveitarfélaga
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Þegar mál þetta var til umræðu hér síðast gerði ég nokkuð að umtalsefni athugasemdir hv. þm. varðandi það ákvæði í frv. þessu sem snýr að leikskólum. Ég taldi mig hafa gert grein fyrir því af hverju væri ástæða til þess að geta um leikskóla í þessu frv. og sé ekki ástæðu til þess, virðulegi forseti, að fara um það mörgum orðum. Það er ljóst að leikskólar eru fjárhagslega og faglega á ábyrgð sveitarstjórnanna. Það er því að mínu mati óeðlilegt að í frv. að rammalöggjöf, sem felur í sér alla þá þætti á sviði velferðarmála sem eru í verkahring sveitarfélaga og þar sem kveðið er á um réttindi og skyldur sveitarfélaganna gagnvart sínum íbúum, sé kannski mikilvægasta velferðarmálsins ekki getið.
    Varðandi það ákvæði sem hv. þm. kaus að gera hér sérstaklega að umræðuefni og kallar skörun milli laga sem samþykkt hafa verið um leikskóla og þessa frv. hér, ( HBl: Ég kallaði það nú ekki skörun. Ég nota ekki það orð.) ég man ekki nákvæmlega hvaða orð hv. þm. notaði, að þau stönguðust á, það væri ekki samræmi þar á milli, þá hefur hv. félmn. tekið málið fyrir aftur og komist að þeirri niðurstöðu sem fram kemur í framhaldsnefndaráliti á þskj. 1043.
    Ég er sammála því, sem fram kemur í áliti nefndarinnar, að það sé ekkert sem mæli gegn því að í sérlögum, sem varða tiltekna þætti rammalöggjafar, séu þrengri ákvæði. Í því frv. sem við fjöllum hér um er talað um að könnun á þörfinni fyrir leikskólarými fari fram eigi sjaldnar en á tveggja ára fresti. Ég held að þetta ákvæði útiloki ekki hitt. Ég verð þó eigi að síður að segja að ég tel þetta atriði, sem er í rammalöggjöfinni, þ.e. að sú könnun fari fram á tveggja ára fresti, að ýmsu leyti raunhæfara en ákvæðið, sem var samþykkt í nýjum lögum um leikskóla, um að slík könnun eigi að fara fram á eins árs fresti. Þessar kannanir sem hér er verið að tala um eru nokkuð viðamiklar. Það er ekki eingöngu hægt að styðjast við biðlista sem eru eftir leikskólarýmum eða dagvistarplássum heldur þarf að gera sérstaka könnun hjá foreldrum í því efni.
    Ég ítreka það, virðulegi forseti, að það er mitt mat að þessi ákvæði samræmist alveg og geti gengið saman og tek þar með undir álit félmn. sem er sömu skoðunar og hefur einnig þessi sjónarmið í málinu.